Valmynd Leit

Stofnfundur Landssamtaka íslenskra stúdenta

Rödd háskólastúdenta hefur undanfarið verið áberandi í menntapólítískri umræðu hér á landi. Mikilvægi þess að allir háskólastúdentar landsins eigi sér einn málsvara, í einum landssamtökum, er því augljóst. Á síðustu misserum hefur mikil og gefandi vinna farið í að auka samstarf og samheldni stúdentahreyfinganna. Á fundi stúdentahreyfinga allra háskóla landsins, þann 6. október 2012 var skrifað undir viljayfirlýsingu um stofnun regnhlífarsamtaka sem gegna mundu þessu hlutverki.  
 
Stúdentahreyfingar landsins hafa margra sameiginlegra hagsmuna að gæta og hagræðið í því að hafa ein heildarsamtök sem sinni þeirri hagsmunagæslu er skýrt. Stofnun landssamtaka af þessu tagi er mikið hagsmunamál fyrir stúdenta. Landssamtök stúdenta munu þó ekki aðeins gæta hagsmuna stúdenta í samskiptum þeirra við þær stofnanir sem hafa með málefni þeirra að gera heldur munu þau einnig skapa nýja möguleika fyrir stjórnvöld og aðra hagsmunaaðila til samstarfs við þá sterku einingu sem eitt stúdentafélag mun verða.

Fyrirhugað er að stofna Landssamtök íslenskra stúdenta á landsþingi sem haldið verður í Háskólanum á Akureyri 1.-3. nóvember nk. að undangengnu málþingi um ráðningahæfni og atvinnumöguleika stúdenta og gæðamál íslensku háskólanna.

Athugasemdir


Landssamtök íslenskra stúdenta