Samþykktir SHA

Samþykktir SHA

I. Kafli – Nafn og tilgangur

1. Félagið heitir Stúdentafélag Háskólans á Akureyri (e. the Student Union of University of Akureyri), skammstafað SHA, með kennitöluna 420888-2799.

2. Lögheimili félagsins og varnarþing þess er á Akureyri.

3. Allir stúdentar við Háskólann á Akureyri, sem greitt hafa skráningargjald ár hvert, teljast fullgildir meðlimir.

4. Tilgangur félagsins er að:
Standa vörð um hagsmuni stúdenta innan háskólans sem utan og stuðla að nauðsynlegri þjónustu við stúdenta.
Samræma starfsemi sína að stefnu Háskólans á Akureyri á hverjum tíma.
Starfrækja aðildarfélög og fastanefndir.
Efla þátttöku stúdenta í nefndum og ráðum innan háskólans.
Stuðla að samstarfi milli SHA og stúdentahreyfinga við aðra háskóla.
Sinna daglegri umsýslu og reka réttindaskrifstofu SHA.
Stjórnskipan og stjórnarhættir

II. Kafli – Stúdentaráð

5. Skipun stúdentaráðs SHA
Stúdentaráð skal skipað framkvæmdastjórn og formönnum aðildarfélaga, formönnum fastanefnda, fulltrúa stúdenta í Háskólaráði HA og fulltrúa stúdenta í gæðaráði HA sem ber ábyrgð á samtalsmiðuðu námskeiðsmati háskólans. Allir fulltrúar stúdentaráðs skulu vera staðbundnir stúdentar við Háskólann á Akureyri, að undanskildum fulltrúa fjarnema.
Forseti SHA er forseti stúdentaráðs og varaforseti SHA ritari þess.
Stúdentaráð skal vera æðsti fulltrúi stúdenta innan veggja Háskólans á Akureyri.
Starfstími stúdentaráðs er á milli aðalfunda SHA. Að skipunartíma loknum skal fráfarandi framkvæmdastjórn vera til staðar fyrir nýkjörna framkvæmdastjórn og leiðbeina henni, eins lengi og þess telst þörf. Þá getur ný stjórn, boðað fráfarandi stúdentaráð á fund í upphafi nýs starfsárs, teljist þess þörf.
Stúdentaráð setur sér, framkvæmdastjórn og fastanefndum, verklagsreglur sem starfað er eftir.
Samþykkja skal verklagsreglur ekki seinna en á öðrum fundi stúdentaráðs.
Verklagsreglur skulu liggja fyrir á vefsíðu SHA sem og á skjalasvæði SHA.
Stúdentaráð skal leitast við að samræma starfsemi aðildarfélaga svo ekki verði hagsmunaárekstrar.

6. Stúdentaráðsfundir
Stúdentaráð tekur ákvarðanir um fundarhöld stúdentaráðs og annarra funda á vegum þess.
Formaður SHA boðar til stúdentaráðsfunda. Formaður skal senda fundarboð, minnst viku fyrir stúdentaráðsfund. Formaður skal boða til funda í gegn um þann hugbúnað sem SHA notar hverju sinni og ber fulltrúum ráðsins að svara fundarboðum eins fljótt og auðið er. Forfallist fulltrúi, skal hann boða varamann í sinn stað.
Á fundnum skulu ritaðar fundargerðir. Fundargerðir skulu vera aðgengilegar á vefsíðu SHA.
Á stúdentaráðsfundum ræður meirihluti atkvæða úrslitum mála. Ef atkvæði falla jafnt ræður atkvæði formanns. Sé um fjárreiður félagsins að ræða, þá ræður atkvæði fjármálastjóra.
Til að stúdentaráðsfundur teljist ályktunarfær þarf meirihluti ráðsins að vera viðstaddur fund.
Fundargerðir skulu settar inn á þann hugbúnað sem SHA notar hverju sinni eins fljótt og auðið er eftir fund, fulltrúum stúdentaráðs gefst þá tækifæri til þess að koma með athugasemdir. Þá skal jafnframt óska eftir samþykki fundargerðar rafrænt. Fundargerð skal birta á vefsíðu SHA þegar samþykki hefur fengist fyrir henni.
Fari 1/3 stúdentaráðsfulltrúa fram á stúdentaráðsfund skal halda hann innan tveggja sólarhringa eða svo fljótt sem auðið er.
Á fundum stúdentaráðs eiga áheyrnarsæti með tillögurétti:
     1. Fulltrúar SHA í Landssamtökum íslenskra stúdenta, LÍS.
     2. Fulltrúar SHA í nefndum og ráðum Háskólans á Akureyri.
Framkvæmdastjórn og stúdentaráð félagsins skal vanda til allra starfa og hafa almennar samskiptavenjur að leiðarljósi. Fulltrúar skulu kynna sér siðareglur Háskólans á Akureyri og starfa eftir þeim.
Stúdentaráði er heimilt að boða á sinn fund einstaklinga sem ekki eiga sæti í ráðinu.
Stúdentaráði er heimilt að halda stúdentaráðsfundi sem opinn er öllum meðlimum SHA, teljist þess þörf.

6. a Tillaga um vantraust  ​

Félagsmaður getur borið upp vantraust á formann sem og aðra framkvæmdastjórnarmeðlimi með því að hafa samband við framkvæmdastjórn eða formanns/forseta þess aðildarfélags sem hann tilheyrir. Í kjölfarið skal boða til opins fundar stúdentaráðs þar sem tillagan þarf að hljót samþykki 2/3 fundarmanna til að hún nái fram að ganga. ​

7. Starfshættir stúdentaráðs
Starfsáætlun skal liggja fyrir fjórum vikum eftir aðalfund. Starfsáætlun skal vera aðgengileg hverjum sem er á skrifstofu félagsins.
Fjárhagsáætlun skal liggja fyrir sex vikum eftir aðalfund.
Stúdentaráði er heimilt að setja á laggirnar sjóð fyrir stúdenta, svokallaðan Stúdentasjóð. Stúdentaráð skal setja sjóðnum reglur sem lúta að stofnun hans og skal starfrækja stjórn hans.
Stúdentaráð skal skipa einn fulltrúa til tveggja ára í fulltrúaráð Landssamtaka íslenskra stúdenta, LÍS.

III. Kafli – Framkvæmdastjórn

8. Framkvæmdastjórn SHA
Framkvæmdastjórn skal skipuð formanni, varaformanni og fjármálastjóra. Framangreindir aðilar skulu vera staðbundnir.

9. Starfshættir framkvæmdastjórnar SHA
Framkvæmdastjórn sér um daglega umsýslu félagsins. Framkvæmdastjórn sér um að halda réttindaskrifstofu stúdenta opinni og skal sjá til þess að kynna staðsetningu hennar og opnunartíma vel fyrir stúdentum háskólans.
Framkvæmdastjórn skal annast miðlun upplýsinga er varða starfsemi félagsins.
Framkvæmdastjórn er helsti tengiliður félagsins við fulltrúa stúdenta í nefndum, ráðum, starfshópum og aðildarfélögum.
Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á að halda uppi samskiptum við hagsmunafélög annarra háskóla.
Hlutverk framkvæmdastjórnar er fyrst og fremst að standa vörð um hagsmuni stúdenta og skal framkvæmdastjórn bera ábyrgð á því að rödd stúdenta við háskólann heyrist út á við í samfélaginu.
Framkvæmdastjórn skal minnst einu sinni á starfsári, halda vinnufund þar sem allir fulltrúar í stjórnum aðildarfélaga, sem og fulltrúar stúdenta í nefndum og ráðum HA eru boðaðir. Æskilegt er að fundurinn sé haldinn í byrjun hvers starfsárs ekki seinna en í lok septembers og skal fundurinn haldinn í samráði og samvinnu við Gæðastjóra Háskólans á Akureyri. Fundarboð skal berast ekki seinna en einni viku fyrir fundinn.

10. Skipun framkvæmdastjórnar SHA
Forseti:

  • Forseti er framkvæmdastjóri, ábyrgðarmaður og helsti talsmaður félagsins innan háskólans sem og utan hans.
  • Forseti boðar til funda á vegum félagsins, þar sem hann fer með fundarstjórn.
  • Forseti getur úthlutað verkefnum til framkvæmdastjórnar sem ekki eru sérstaklega tilgreind í samþykktum eða verklagsreglum félagsins.
  • Hætti forseti störfum skal varaforseti taka við störfum hans.

Varaforseti:

  • Varaforseti skal vera forseta innan handar í öllum málum og gegna starfi formanns í forföllum hans.
  • Varaforseti er ritari og vefstjóri félagsins.
  • Hætti varaforseti, eða hann taki við starfi forsetasegi hann af sér, skal stúdentaráð þá þegar auglýsa eftir nýjum varaforseta. Haldinn skal sérstakur fundur stúdentaráðs þar sem farið er yfir framboð og ræður einfaldur meirihluti stúdentaráðs skipun nýs varaforseta.

Fjármálastjóri:

  • Fjármálastjóri ber ábyrgð á fjárreiðum félagsins.
  • Fjármálastjóra er einum heimilt að gera fjárhagslegar skuldbindingar í nafni félagsins að fengnu samþykki meirihluta stúdentaráðs.
  • Fjármálastjóra er skylt að skila nýrri framkvæmdastjórn löglegu bókhaldi á skiptafundi.
  • Fjármálastjóri skal vera skoðunarmaður reikninga aðildarfélaga SHA. Aðildarfélögum er þó heimilt að hafa sinn eigin skoðunarmann reikninga til viðbótar.
  • Hætti fjármálastjóri, skal stúdentaráð þá þegar auglýsa eftir nýjum fjármálastjóra. Haldinn skal sérstakur fundur stúdentaráðs þar sem farið er yfir framboð og ræður einfaldur meirihluti stúdentaráðs skipun nýs fjármálastjóra.

IV. Kafli – Aðildafélög og fastanefndir

11. Aðildarfélög
Sviðs- og deildarfélag er aðildarfélag Stúdentafélags Háskólans á Akureyri, með eigin samþykktir þar sem almennar samþykktir um aðildarfélög liggja til grundvallar.
Aðildarfélög skulu starfrækja stjórn sem kosin er á aðalfundi hvers félags um sig.
Aðildarfélög skipa fulltrúa sína í fastanefndir SHA. Formenn aðildarfélaga skulu sitja deildarfundi, deilarráðsfundi og fræðasviðsfundi innan sinna sviða. Sitji formaður ekki þá fundi sem hér hafa verið taldir upp, skal stjórn aðildarfélag sjá til þess að fulltrúar stúdenta eigi ætíð sinn fulltrúa á fundum, þar sem það á við. Þá skulu stjórnir aðildarfélaga einnig gæta þess að manna náms- og matsnefndir.
Aðalfundir aðildarfélaga skulu haldnir einni viku fyrir aðalfund Stúdentafélags Háskólans á Akureyri hið minnsta.
Komi upp sú staða innan aðildarfélags sem ekki fæst leyst úr hefur stúdentaráð úrskurðarvald.

12. Fastanefndir
Starfræktar skulu fastanefndir Stúdentafélags Háskólans á Akureyri:
Alþjóðanefnd
Kynninganefnd
Viðburðanefnd
Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd
Fastanefndir starfa eftir verklagsreglum samþykktum af stúdentaráði Stúdentafélags Háskólans á Akureyri.
Fastanefndir skulu starfa undir handleiðslu framkvæmdastjórnar.
Formenn fastanefnda eiga sæti í stúdentaráði.

13. Alþjóðanefnd
Alþjóðanefnd er helsti tengiliður stúdentaráðs við skiptinema Háskólans á Akureyri.
Alþjóðanefnd skipuleggur og stendur fyrir helstu viðburðum fyrir skiptinema.
Stjórn alþjóðanefndar er skipuð af formanni, sem kosinn er á aðalfundi SHA, og fulltrúa hvers aðildarfélags að Data og Forseta undanskildum, sem kosnir eru á aðalfundi aðildarfélaganna.
Formaður alþjóðanefndar hefur sæti í stúdentaráði.
Stjórn skiptir með sér hlutverkum og skipar varaformann. Aðrir eru meðstjórnendur.
Alþjóðanefnd leggur fyrir starfsáætlanir sínar á stúdentaráðsfundum.
Alþjóðanefnd skal starfa í samstarfi við verkefnastjóra alþjóðamála Háskólans á Akureyri.
Alþjóðanefnd skal halda utan um verkferla fyrir þá viðburði sem nefndin mun standa fyrir. Skulu þeir færðir reglulega inn á skjalasvæði SHA og skulu verkferlar allra viðburða vera þar aðgengilegir, fyrir stjórnarskipti.

14. Kynninganefnd
Kynninganefnd sér um kynningar á námsframboði við Háskólann á Akureyri.
Stjórn kynninganefndar er skipuð af formanni, sem kosinn er á aðalfundi SHA, og fulltrúa hvers aðildarfélags sem kosnir eru á aðalfundum aðildarfélaganna.
Formaður kynninganefndar hefur sæti í stúdentaráði.
Stjórn skiptir með sér hlutverkum og skipar varaformann. Aðrir eru meðstjórnendur.
Kynninganefnd leggur fyrir starfsáætlanir sínar á stúdentaráðsfundum.
Kynninganefnd starfar í nánu samstarfi við starfsmenn markaðs- og kynningarsviðs Háskólans á Akureyri.

15. Viðburðanefnd
Viðburðanefnd skipuleggur og stendur fyrir helstu viðburðum félagsins.
Stjórn viðburðanefndar er skipuð af formanni, sem kosinn er á aðalfundi SHA, og fulltrúa hvers aðildarfélags sem kosnir eru á aðalfundum aðildarfélaganna.
Formaður viðburðanefndar hefur sæti í stúdentaráði.
Stjórn skiptir með sér hlutverkum og skipar varaformann. Aðrir eru meðstjórnendur.
Viðburðanefnd leggur fyrir starfsáætlanir sínar á stúdentaráðsfundum.
Viðburðanefnd skal halda utan um verkferla fyrir þá viðburði sem nefndin mun standa fyrir. Skulu þeir færðir inn á skjalasvæði SHA og skulu verkferlar allra viðburða vera þar aðgengilegir, fyrir stjórnarskipti.

16. Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd
Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd er tengilliður SHA við Icelandic Startups og kemur verkefnum þeirra á framfæri meðal stúdenta við HA.
Stjórn nefndarinnar er skipuð af formanni, varaformanni og meðstjórnanda sem kosnir eru á aðalfundi SHA.
Formaður nýsköpunar- og frumkvöðlanefndar hefur sæti í stúdentaráði.
Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd leggur fyrir starfsáætlanir sínar á stúdentaráðsfundi.
Nýsköpunar- og frumkvöðlanefnd starfar í nánu samstarfi við framkvæmdastjórn SHA.
Náist ekki að manna nefndina á aðalfundi er það í höndum nýs stúdentaráðs að fá fulltrúa.

V. Kafli – Almenn ákvæði

17. Þagnarskylda
Allir þeir sem sinna trúnaðarstörfum fyrir Stúdentafélag Háskólans á Akureyri eða aðildarfélög þess eru bundnir trúnaði um viðkvæm mál sem þeir kunna að verða áskynja við störf sín fyrir félagið.
Við stjórnarskipti skulu nýjir fulltrúar í nefndum og ráðum háskólans, fulltrúar stúdentaráðs sem og fulltrúar aðildarfélaga skrifa undir þagnarskyldu yfirlýsingu á réttindaskrifstofu SHA.

18. Skilyrði til trúnaðarstarfa
Fulltrúar sem sinna trúnaðarstörfum í þágu Stúdentafélags Háskólans á Akureyri skulu vera meðlimir í félaginu og stunda nám við Háskólann á Akureyri.
Þeir sem sinna trúnaðarstörfum fyrir félagið skulu undirrita trúnaðar- og þangarskylduyfirlýsingu.

19. Skjalageymsla SHA
Framkvæmdastjórn ber ábyrgð á skjalageymslu félagsins.
Aðildarfélögum SHA ber að skila fundargerðum stjórnarfunda, fundargerðum aðalfunda, samþykkta og samþykktabreytingum, ársreikningum auk allra samstarfssamninga sem félagið kann að gera.
Formönnum fastanefnda SHA ber að skila fundargerðum stjórnarfunda og verkferlum fyrir alla þá viðburði sem nefnd þeirra kann að standa fyrir.
Framkvæmdastjórn ber að uppfæra handbækur hverju sinni og skulu þær ítarlegar og aðgengilegar við hver stjórnarskipti.

20. Fjárhagur félagsins
Reikningsár er á milli aðalfunda.
Bókhald félagsins skal yfirfarið af hæfum einstaklingi utan félagsins.
Reikningar skulu ávallt liggja frammi á réttindaskrifstofu félagsins til skoðunar fyrir alla félagsmenn.
Ef um afgang af rekstri er að ræða skal hann renna beint til næsta starfsárs.
Reikningar skulu yfirfarnir af kjörnum skoðunarmanni reikninga.

  1. Skoðunarmanni reikninga SHA ber að yfirfara bókhald og ársreikninga félagsins. Komist skoðunarmaður reikninga að þeirri niðurstöðu að hann þurfi að ráðfæra sig við faglærðan bókara, ber honum að gera það.

21. Fjárhagur aðildarfélaga
Stúdentaráði er heimilt að veita framlag til aðildarfélaga. Aðildarfélög skulu leggja fram fjárhagsáætlun við upphaf starfsárs.
Skilyrði fyrir framlagsveitingu er að viðkomandi félag hafi virka stjórn, að félagið hafi sett fram ítarlega fjárhagsáætlun og að bókhald þess sé opið framkvæmdastjórn til skoðunar.
Aðildarfélög SHA skulu ekki eiga meira en sem nemur 2.000,- kr og ekki minna en 1.000,- kr á hvern skráðan félaga við stjórnarskipti. Eign aðildarfélags skal þó aldrei vera undir 100.000,- kr og ekki yfir 800.000,- kr óháð skráðum félögum. Séu skráðir félagar aðildarfélags færri en 150, þá má eign við stjórnarskipti vera allt að 300.000,- kr við stjórnarskipti. 

Ef lausafjárstaða aðildarfélags er hærri en 800.000 kr. við stjórnarskipti mun það félag ekki hljóta fjárframlag frá SHA næsta skólaár. Mun sá peningur renna í sjóð í þágu stúdenta.
Nú er lausafjárstaða aðildarfélags hærri en 800.000 kr. við stjórnarskipti og getur stjórn viðkomandi félags sent skriflega beiðni um undanþágu á ákvæði liðar til stúdentaráðs, liggi sérstakar ástæður þar að baki.
Aðildarfélög skulu skila eintaki af samþykktum, ársreikningi og skýrslu um starfsemi sína, í rafrænu formi, til framkvæmdastjórnar strax að loknum aðalfundi aðildarfélags.

  1. Sé lausafjárstaða aðildarfélags lægri en 100.000 kr. við stjórnarskipti, skal fjármálastjóri SHA yfirfara bókhald og ársreikninga félagsins. Að lokinni endurskoðun, skal fjármálastjóri ráðfæra sig við faglærðan bókara, sé þess þörf.

22. Aðild að aðildarfélagi
Aðeins er leyfilegt að vera skráður í eitt aðildarfélag yfir heilt skólaár. Ekki er leyfilegt að skipta á milli aðildafélaga fyrr en skólaárinu lýkur. Leyfilegt er að skrá sig úr aðildafélagi hvenær sem er.

  1. Hægt er að óska eftir undantekningu á annari setningu 1. mgr. ef um sérstök tilfelli er að ræða. Í þessum tilfellum þarf stjórn nýs aðildarfélags að samþykkja breytinguna og meðlimur að borga skráningargjald í nýtt félag.

Það er frítt að skrá sig í aðildarfélag á haustmisseri hvers skólaárs til 15. september. Skráning skal vera auglýst á heimasíðu og samfélagsmiðlum SHA.
Skráningargjald tekur gildi eftir 15. september og eru þau 5.000 kr. fyrir heilt skólaár og 2.500 kr. fyrir eitt misseri.

23. Fjárhagur fastanefnda
Stúdentaráði er heimilt að veita framlag til fastanefnda. Forsenda fjárveitingar eru starfsáætlanir fastanefnda sem samþykktar eru af stúdentaráði. Ráðstöfun fjárveitinga skal framkvæmd og skipulögð í samvinnu við fjármálastjóra SHA sem gerir fjárhagsáætlun í samvinnu við fastanefndir.

VI. Kafli – Aðalfundur og samþykktabreytingar

24. Aðalfundur
Aðalfundur fer með æðsta ákvörðunarvald félagsins.
Aðalfundur er helsti vettvangur samþykktabreytinga, reikningsskila og kosninga til trúnaðarstarfa.

25. Boðun aðalfundar
Aðalfund skal halda fyrir lok mars ár hvert.
Til aðalfundar skal boða með auglýsingum á vef félagsins með minnst 10 daga fyrirvara. Einnig skal aðalfundur auglýstur á þeim samfélagsmiðlum sem SHA heldur úti.
Í aðalfundarboði skal koma fram hvar og hvenær fundurinn er haldinn.
Í aðalfundarboði skal birta dagskrá fundar auk upplýsinga um öll þau embætti sem óskað er eftir framboðum í.
Aðalfundur telst löglegur ef til hans er boðað samkvæmt samþykktum félagsins.

26. Dagskrá aðalfundar

  1. Fundur settur
  2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
  3. Skýrsla framkvæmdastjórnar um störf félagsins á liðnu ári.
  4. Skýrsla fjármálastjóra, ársreikningar bornir upp til samþykktar.
  5. Samþykktabreytingar, sem fram hafa komið tillögur þar að lútandi.
  6. Kosningar í framkvæmdastjórn SHA.
  7. Kosningar í önnur embætti.
  8. Önnur mál.
  9. Fundi slitið.

27. Mál á aðalfundi
Stúdentaráð félagsins hefur heimild til að bera upp mál til samþykktar eða synjunar á aðalfundi.
Aðalfundur hefur heimild til að álykta um hin ýmsu þjóðfélagslegu mál á hverjum tíma.
Meirihluti atkvæða ræður úrslitum mála á aðalfundi að undanskildum samþykktabreytingum þar sem aukinn meirihluta þarf.
Tillögur um breytingar á félaginu eða samþykktum þess skulu kynntar tveimur sólarhringum fyrir aðalfund, með tölvupósti til stúdenta, á heimasíðu félagsins og samfélagsmiðlum þess. Heimilt er að bera upp breytingartillögur á aðalfundi.
Til að breyta nafni félagsins þarf a.m.k. 4/5 félagsmanna sem mættir eru á aðalfund að samþykkja breytinguna.

28. Samþykktabreytingar SHA
Samþykktum félagsins verður aðeins breytt á aðalfundi.
Tillögur að samþykktabreytingum skal skilað skriflega til framkvæmdastjórnar minnst tveimur sólarhringum fyrir upphaf aðalfundar.
Samþykktabreytingar þurfa 2/3 fundarmanna að samþykkja til að öðlast gildi.
Liggi fyrir breytingartillaga skal fundarmönnum gefinn kostur á að koma með athugasemdir og tillögur að breytingu.
Boða má til sérstaks samþykktabreytingarfundar ef brýna nauðsyn ber til.
Fundarboð skal fara fram á sama hátt og fundarboð aðalfundar.
Tillögum til samþykktabreytingum skal skilað til kjörstjórnar minnst tveimur sólarhringum fyrir upphaf samþykktabreytingarfundar.
Ekki er leyfilegt að bera upp önnur mál en samþykktabreytingar á sérstökum samþykktabreytingarfundi.
Samþykktabreytingar á sérstökum samþykktabreytingarfundi þurfa samþykki minnst 2/3 fundarmanna til að öðlast gildi.

29. Félagsfundir
Stúdentaráð hefur heimild til að boða til félagsfundar og skal það gert með minnst tveggja sólarhringa fyrirvara.
Stúdentaráð hefur heimild til að bera upp einstök mál til samþykktar eða synjunar á félagsfundi.

Óski 1/10 félagsmanna skriflega eftir félagsfundi skal hann haldinn. Boða skal til fundarins samkvæmt samþykktum.

VII. Kafli – Kosningar og kjörstjórn

30. Kjörgengi og kosningarétt hafa allir fullgildir meðlimir félagsins

31. Framkvæmd kosninga
Kosningar til embætta í framkvæmdastjórn og önnur embætti og trúnaðarstörf á vegum félagsins, eru rafrænar og skulu fara fram með leynilegum hætti.
Kjörstjórn sér til þess að útbúa rafræna kosningu.
Kosið skal í leynilegri rafrænni kosningu; embætti formanns, varaformanns og fjármálastjóra í samræmi við 6. tl. 26. gr.
Kosið skal til allra embættis- og trúnaðarstarfa SHA rafrænt.
Berist einungis eitt framboð í hvert embætti telst sá aðili sjálfkjörinn og þarf ekki að kjósa rafrænt í það embætti.
Falli atkvæði jafnt við kjör í embætti framkvæmdastjórnar sem og önnur embætti sem kosin eru á aðalfundi, ræður hlutkesti.
Nú hafa ekki nægilega margar framboðsyfirlýsingar borist til að fullmanna megi embætti innan félagsins sem tilgreind eru í samþykktum þessum er þá heimilt að opna fyrir framboð á aðalfundi, á þetta við um embætti í framkvæmdastjórn, formenn fastanefnda og önnur embætti.
Fari svo að rafræn kosning spillist, eyðileggist eða fari forgörðum á nokkurn hátt verður kosið á aðalfundi og hafa fundarmenn atkvæðisrétt.

32. Á aðalfundi eru að auki kosnir fulltrúar í eftirfarandi embætti:

  1. Skoðunarmaður reikninga Stúdentafélags Háskólans á Akureyri til eins árs.
  2. Einn fulltrúi í stjórn Félagsstofnun stúdenta á Akureyri til tveggja ára og tvo til vara.
  3. Tvo fulltrúa í jafnréttisráð Háskólans á Akureyri til eins árs og tvo til vara.
  4. Einn fulltrúa í gæðaráð Háskólans á Akureyri til tveggja ára og einn til vara.
  5. Einn fulltrúa í vísindaráð Háskólans á Akureyri til eins árs og einn til vara.
  6. Tveir fulltrúar í umhverfisráð Háskólans á Akureyri til eins árs og tveir til vara.
  7. Sex fulltrúa á háskólafund Háskólans á Akureyri til eins árs og sex til vara.

Hafi ekki nægilega mörg framboð borist á aðalfundi SHA hefur stúdentaráð heimild til þess að skipa aðila til setu í þau embætti sem vantar.
Aðrar kosningar skulu fara fram með handauppréttingum.

33. Framboðsyfirlýsingar skulu berast kjörstjórn á netfangið kjorstjorn@sha.is.
Framboðsfrestur rennur út þremur sólarhringum fyrir aðalfund.
Þegar framboðsfresti er lokið, skal tilkynna þau framboð sem borist hafa á heimasíðu og samfélagsmiðlum félagsins.
Kjörseðill verður útbúinn eins fljótt og auðið er. Opna skal fyrir kosningar í þau embætti sem fleiri en eitt framboð hefur borist í.
Kosningar skulu standa í minnst sólarhring og lýkur þeim sama dag og aðalfundur er haldinn.

34. Skipun kjörstjórnar og stjórnarhættir.
Kjörstjórn skal skipuð þremur fulltrúum, tilnefndum af stúdentaráði. Stúdentaráð skipar formann kjörstjórnar.
Kjörstjórn skal skipuð áður en boðað er til aðalfundar félagsins. Formaður kjörstjórnar hefur umsjón með netfangi kjörstjórnar.
Kjörstjórn skal sjá til þess að framboðsyfirlýsingar séu birtar á vef félagsins, innan sólarhrings eftir að framboðsfrestur rennur út.
Kjörstjórn skal birta framboðsyfirlýsingar í embætti sem kosið er um í rafrænum kosningum eins fljótt og auðið er á samfélagsmiðlum og á vefsíðu félagsins.
Kjörstjórn sér til þess að kjörseðlar og kjörkassi séu til reiðu á aðalfundi.

35. Fulltrúi stúdenta í Háskólaráði Háskólans á Akureyri
Í lok ágúst, annað hvert ár, skal boða til kosninga í embætti fulltrúa stúdenta í Háskólaráð Háskólans á Akureyri til tveggja ára í senn og einn til vara. Kosning skal fara fram með rafrænum hætti og skal fylgja samþykktum þessum er varðar framkvæmd kosninga.

VIII. Kafli – Ýmis ákvæði

36. Nú leysist félagið upp og renna þá öll réttindi og skyldur þess til Háskólans á Akureyri.

37. Gildistaka.


Samþykktir þessar öðlast gildi við samþykkt á aðalfundi SHA, 28. mars 2023.