Samþykktir Data

Lög Data, félags tölvunarfræðinema við Háskólann á Akureyri

 

I. Nafn, aðsetur og tilgangur

1. gr. Félagið heitir Data, kt. 600802-3560, félag tölvunarfræðinema við Háskólann
á Akureyri og er aðildarfélag SHA. Aðsetur þess er í húsakynnum Háskólans á
Akureyri.

2. gr. Meðlimir félagsins

2.1. Heimild til skráningar í félagið hafa þeir stúdentar sem skráðir eru í Háskólann á
Akureyri.
2.2. Stjórn hefur heimild til þess að innheimta skrásetningargjald til félagsins.
2.3. Allir stúdentar við Háskólann á Akureyri, sem greitt hafa skráningargjöld ár
hvert, eru fullgildir meðlimir.
2.4. Félagsmenn einir hafa atkvæðisrétt á aðal- og félagsfundum.

3. gr. Markmið félagsins

3.1. Að gæta sameiginlegra hagsmuna tölvunarfræðinema og vera málsvari þeirra
innan skóla sem utan.
3.2. Að halda uppi öflugum tengslum við alla nemendur tölvunarfræðideildar.
3.3. Að vinna að aukinni samheldni meðal nemenda.
3.4. Að standa fyrir ferðum, fræðslufundum og skemmtunum fyrir félagsmenn sína.

4. gr. Nú leysist félagið upp og renna öll renna þá öll réttindi og skyldur til SHA.

5. gr. Aðeins félagsmenn Data hafa atkvæðisrétt og kjörgengi í stjórn og önnur
embætti sem kosið er til á aðalfundi. Einfaldur meirihluti skal ráða niðurstöðum
kosninga á aðalfundi.

6. gr.

6.1. Stjórn félagsins skal kosin í leynilegri kosningu.
6.2. Allir stjórnarmeðlimir skulu kosnir í sérstakri kosningu.

7. gr.

7.1. Falli atkvæði jöfn við kjör skal endurtaka kosningu milli viðkomandi
frambjóðenda og falli atkvæði enn jafnt, ræður hlutkesti.
7.2. Sé aðeins einn frambjóðandi í kjöri telst hann sjálfkjörinn.

8. gr. Kjörnefnd skal skipuð þremur nemendum á aðalfundi og er hennar hlutverk að
annast skipulag og framkvæmd kosninga.

 

II. Stjórn

9. gr.

9.1. Í stjórn skulu sitja 5 eða 6 aðilar sem gegna eftirfarandi embættum: formaður,
varaformaður, ritari, gjaldkeri, landsbyggðarfulltrúi og fulltrúi 1. árs nema.
9.2. Allir stjórnarmeðlimir hafa jafnan atkvæðisrétt í öllum athöfnum stjórnar.
9.3. Fulltrúi 1. árs nema situr í stjórn út skólaárið, nema hann sé kosinn í önnur
embætti innan stjórnar á aðalfundi.
9.4. Sé fulltrúi 1. árs nema kosinn í stjórn Data á aðalfundi, skal ný stjórn sjá til þess
að 1. árs nemar kjósi sér nýjan fulltrúa sem situr út skólaárið.

10. gr. Hlutverk stjórnarmeðlima
Formaður
10.1. Formaður hefur yfirumsjón og ber ábyrgð á starfsemi stjórnar og stýrir
fundum, í forföllum hans varaformaður. Hann skal boða til félags- og stjórnarfunda
svo oft sem þess gerist þörf og verður hann þá fundarstjóri eða skipar annan aðila til
þeirra starfa. Formaður skal einnig sjá til þess að lög félagsins séu uppfærð í
samræmi við lagabreytingar sem samþykktar eru á aðalfundi.
10.2. Formaður ber ábyrgð á hagsmunamálum tölvunarfræðinema og situr
deildarfundi tölvunarfræðideildar, deildarráðs- og fræðasviðsfundi Viðskipta- og
raunvísindasviðs fyrir hönd nemenda og er fulltrúi Data í Stúdentaráði SHA.
10.3. Formaður skal boða forföll sín til varaformanns með hæfilegum fyrirvara, geti
hann ekki gengt áðurnefndum skyldum sínum.
Varaformaður
10.4. Varformaður skal vera formanni innan handar í öllum málum og gegna starfi
formanns í forföllum hans. Ef varaformaður getur ekki gengt því hlutverki skal annar
stjórnarmeðlimur taka hans stað. Varaformaður sér um að viðburðir séu haldnir
reglulega.
Ritari
10.5. Ritara ber að skrá fundargerðir og koma þeim í skjalamöppu SHA. Einnig
gegnir hann stöðu ritara á aðalfundi félagsins.
10.6. Ritari skrifar ársskýrslu félagsins og skilar til framkvæmdastjórnar SHA áður en
aðalfundur Data er haldinn.
10.7. Ritari hefur yfirumsjón með Facebook síðu félagsins.
Gjaldkeri
10.8. Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjárreiðum allra nefnda og ráða á vegum
félagsins, einnig hefur hann umsjón með öllum fjárreiðum félagsins sem og
styrkbeiðnir í samráði við stjórn og undirfélög. Þarf hann að standa skil á fjárreiðum
félagsins á aðalfundi þess.
Landsbyggðarfulltrúi
10.9 Landsbyggðarfulltrúi er valkvæð staða innan stjórnar félagsins. Hlutverk hans
er að efla tengsl og samskipti nemenda á landsbyggðinni við staðarnema.
Fulltrúi 1. árs nema
10.10. Fulltrúi 1. árs nema er kosinn af 1. árs nemum tölvunarfræðideildar fyrir lok
september hvers skólaárs. Skal hann halda uppi öflugum og góðum tengslum milli
stjórnar Data og nema á 1. ári.


III. Vantraust á meðlimi stjórnar

11. gr.

11.1. Á félagsfundi getur félagsmaður borið upp vantraust á meðlim eða meðlimi
stjórnar. Tillaga hans þarf að hljóta samþykki 2/3 fundarmanna til að hún nái fram
að ganga enda sé a.m.k. þriðjungur félagsmanna á félagsfundinum.
11.2. Segi stjórnarmaður af sér eða ef samþykkt er vantraust á stjórnarmann skal
stjórn þegar tilkynna um forföll fráfarandi stjórnarmanns og auglýsa eftir nýjum aðila
innan deildarinnar til að gegna stöðunni fram að næsta aðalfundi. Sé samþykkt
vantraust á formann félagsins skal öll stjórnin segja af sér og boða skal til aðalfundar
þar sem ný stjórn er kosin.
11.3. Boða skal til félagsfundar, þar sem félagsmönnum Data gefst kostur á að kjósa
á milli nýrra frambjóðenda.
11.4. Komi sú staða upp að enginn bjóði sig fram, skal stjórn skipa einstakling úr
röðum félagsmanna til að taka við stöðunni.

 

IV. Kafli Félagafundir

12. gr. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur skal haldinn

eigi síðar en viku fyrir aðalfund SHA. Á fundinum eiga rétt til setu allir skráðir
félagsmenn Data. Til aðalfundar skal boða með minnst 7 daga fyrirvara á
samfélagsmiðlum félagsins, telst hann þá löglegur.

13. gr. Ef aðalfundur telst ekki löglegur skal boða til nýs aðalfundar að viku liðinni
og telst sá fundur þá löglegur.

14. gr. Dagskrá fundarins skal vera sem hér segir:
1. Fundur settur.
2. Kosning fundarstjóra og fundarritara.
3. Skipun kjörnefndar.
4. Lagabreytingar.
5. Skýrsla fráfarandi stjórnar.
6. Skýrsla gjaldkera og afgreiðsla reikninga.
7. Kosning 4 nemenda í stjórn.
7.1. Kosning formanns.
7.2. Kosning varaformanns.
7.3. Kosning gjaldkera.
7.4. Kosning ritara.
8. Kosning í fastanefndir.
8.1. Kosning fulltrúa Data í Viðburðanefnd SHA.
8.2. Kosning fulltrúa Data í Kynninganefnd SHA.
9. Önnur mál.
10. Fundi slitið.

15. gr. Eftir aðalfund skal fráfarandi stjórn boða nýja stjórn til stjórnarskiptarfundar.

16. gr. Reikningar félagsins skulu miðast við aðalfund ár hvert.

17. gr. Félagsfund ber að halda hvenær sem stjórnin álítur nauðsynlegt. Þá skal
halda félagsfund ef tíundi hluti félagsmanna óskar þess.

18. gr.

18.1. Kynningarkvöld fyrir 1. árs nema skal haldið á haustönn við upphaf skólaárs.
Aðalmarkmið þess er að kynna námið, stjórn félagsins og starfsemi þess.
18.2. Á kynningarkvöldi skal hlutverk fulltrúa 1. árs nema, í stjórn Data kynnt og
óska skal eftir framboðum.

19. gr. Lausafjárstaða Data skal eigi vera minni en sem nemur 100.000 krónum við
stjórnarskipti.

20. gr. Sé lausafjárstaða Data meiri en sem nemur 600.000 krónum við
stjórnarskipti fær félagið ekki árlegt framlag SHA á komandi skólaári.

21. gr. Liggi sérstök ástæða að baki svo hárri lausafjárstöðu Data má senda
skriflega beiðni til SHA um undanþágu á ákvæði 20. gr.

22. gr. Lagabreytingar skulu eingöngu eiga sér stað á aðalfundi. Til að lagabreyting
öðlist gildi þarf hún að vera samþykkt af a.m.k. 2/3 hluta skráðra félaga Data sem
mættir eru á löglegan aðalfund. Tillögur að lagabreytingum frá stjórn skulu auglýstar
samhliða tilkynningu um aðalfund.

23. gr. Stangist lagaákvæði í lögum Data á við lög SHA skulu lög SHA ráða. Gera
skal viðeigandi lagaúrbætur á næsta aðalfundi. Verði lögum SHA breytt á þann veg
að það hafi áhrif á starfsemi Data skal stjórn Data gera viðeigandi ráðstafanir til að
mæta viðkomandi breytingum.

 

Lög þessi voru samþykkt á aðalfundi Data 14. mars 2023