Samþykktir Eirar

Samþykktir Eirar, félags heilbrigðisvísindanema við Háskólann á Akureyri 

 

I. Félagið og meðlimir þess 

1. gr. Félagið heitir Eir og er félag stúdenta við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri. Félagið er aðildarfélag SHA og er með kennitöluna 670291-1389. Aðsetur félagsins er í húsakynnum Háskólans á Akureyri og er varnarþing þess á Akureyri. 

 

2. gr. Stúdentar sem leggja stund á nám innan heilbrigðisvísindasviðs við Háskólann á Akureyri, sem greitt hafa innritunargjald skólans og skráð sig í Eir, teljast fullgildir meðlimir. 

2.1. Frestur til að skrá sig í félagið rennur út ár hvert þann 15. september kl. 23:59 

og ber meðlimum að uppfæra skráningar sínar í félagið árlega. 

2.2. Óski nemandi eftir því að skrá sig í félagið að þeim tíma liðnum getur sá aðili 

skráð sig í félagið hvenær sem er, með því skilyrði að greiða 5000 kr.- félagsgjald 

sem rennur til SHA. 

2.3. Einungis meðlimir félagsins hafa atkvæðisrétt á aðal- og félagsfundum. 

2.4. Meðlimum Eirar er ekki heimilt að vera skráðir í annað félag. 

2.5. Meðlimir Eirar geta alltaf skráð sig úr félaginu, sama hvaða ástæða liggur að 

baki. 

 

3. gr. Markmið félagsins eru:  

3.1. að gæta sameiginlegra hagsmuna stúdenta heilbrigðisvísindasviðs við 

Háskólann á Akureyri, innan skóla sem utan. 

3.2. að efla tengsl og samheldni meðal meðlima Eirar. 

3.3. að stuðla að góðri samvinnu við önnur aðildarfélög. 

3.3. að standa fyrir viðburðum s.s. ferðum, fræðslufundum og skemmtunum fyrir 

meðlimi sína.  

3.4. að efla samstarf við önnur félög heilbrigðisvísindanema, hér á landi sem og 

utan. 

3.5. að efla samstarf við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Iðjuþjálfafélag 

Íslands 
 

4. gr. Sitji enginn í stjórn félagsins leysist það upp. Leysist félagið upp renna öll réttindi og skyldur þess til SHA. 
 

5. gr. Eir fylgir SHA í einu og öllu hvað varðar verklagsreglur sem í gildi eru varðandi viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni, sem og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi. Meðlimir geta sent inn tilkynningu um slíkt inni á heimasíðu háskólans. 

 

II. Aðalfundur og kosningar  

 

6. gr. Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur skal haldinn minnst sjö dögum fyrir aðalfund SHA. Til þess að fundurinn teljist lögmætur þarf að boða til hans á tryggilegan hátt með auglýsingu á samfélagsmiðlum félagsins, með minnst sjö daga fyrirvara.  
 

7. gr. Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir: 

I.  Fundur settur 

II.  Skipun kjörnefndar  

III. Skýrsla fráfarandi stjórnar lesin upp  

IV. Reikningar lagðir fram  

V.  Samþykktabreytingar teknar fyrir 

VI. Kosning í stjórnarstöður:  

a.  Forseta 

b.  Varaforseta 

c.  Gjaldkera 

d.  Samskiptafulltrúa 

VII.  Kosning í önnur embætti:  

a.  Kosning fulltrúa í viðburðanefnd SHA  

b.  Kosning fulltrúa í kynninganefnd SHA  

c.  Kosning fulltrúa og varafulltrúa á deildarfundi f.h. hjúkrunarfræðinema, 

f.h. nema við BS nám í iðjuþjálfun og f.h. nema í starfsréttindanámi í 

iðjuþjálfun 

d.  Kosning varafulltrúa í náms- og matsnefnd þeirri deild sem 

samskiptafulltrúi er í, ásamt bæði fulltrúa og varafulltrúa í þeirri deild sem 

samskiptafulltrúi er ekki í. 

 

8. gr. Stjórnarmeðlimir, sem og fulltrúar annara embætta, eru kosnir í leynilegri kosningu á aðalfundi félagsins.  

8.1. Fráfarandi stjórn skal funda með nýrri stjórn félagsins innan við viku frá 
aðalfundi. Á þeim fundi skal fráfarandi stjórn skila af sér öllum gögnum, sem og 
eigum félagsins, ásamt því að setja nýja stjórn inn í mál félagsins. 

8.2. Allir meðlimir félagsins hafa bæði kosningarétt og rétt til að bjóða sig fram. Þess ber að geta að þeir aðilar sem mæta á aðalfund en eru utan félagsins hafa ekki kosningarétt. Framboð til þeirra embætta sem kosið er um á aðalfundi skulu berast stjórn Eirar eigi síðar en á miðnætti fyrir aðalfund félagsins. 

8.3. Skipa skal þriggja nemenda kjörnefnd á aðalfundi til að annast skipulag og framkvæmd kosninga. Kjörnefndin skal setin af þremur meðlimum félagsins og skal a.m.k. einn þeirra vera utan stjórnar Eirar.   

8.4. Falli atkvæði jafnt við kjör skal endurtaka kosningu milli þeirra frambjóðenda. Sé aðeins einn frambjóðandi í kjöri er viðkomandi sjálfkjörinn. 

8.5. Einfaldur meirihluti ræður niðurstöðum kosninga á aðalfundi félagsins. 

8.6. Berist ekki nægilega margar framboðsyfirlýsingar til að fullmanna öll embætti félagsins er heimilt að opna fyrir framboð á aðalfundi. Standi embætti enn laust að loknum aðalfundi færist ábyrgð þess embættis á stjórnarmeðlim sem forseti velur þar til framboð berst. 

 

III.      Stjórn  

9. gr. Stjórn félagsins skal setin af fimm nemendum sem allir eru skráðir til náms við heilbrigðisvísindasvið Háskólans á Akureyri. Embætti innan stjórnar Eirar eru eftirfarandi:  

I. Forseti 

II. Varaforseti  

III. Gjaldkeri 

IV. Samskiptafulltrúi 

VI. Nýnemafulltrúi 

 

a)  Stjórn Eirar fer með æðsta ákvörðunarvald félagsins á milli aðalfunda. 

b) Stjórn félagsins situr stjórnarfundi en stjórninni er heimilt að boða aðila sem ekki sitja í stjórn félagsins á stjórnarfund ef þörf þykir. Þessir aðilar hafa málfrelsi og tillögurétt en hafa þó ekki atkvæðisrétt.  

c)  Stjórnarmeðlimir eru bundnir trúnaði varðandi þau mál sem snerta einstaka nemendur sem þeir kunna að heyra um í starfi sínu.  

d) Fulltrúar félagsins sem sitja í nefndum og ráðum skulu miðla upplýsingum til stjórnar Eirar.  

 

10. gr. Hlutverk stjórnarmeðlima eru eftirfarandi:  

Forseti 

  1. Forseti Eirar er fulltrúi félagsins í Stúdentaráði SHA. Ásamt því er forseti Eirar í forsvari fyrir félagið og kemur fram fyrir hönd þess út á við. Forseti ber endanlega ábyrgð á málefnum félagsins ásamt því að vera málsvari Eirar. 

  1. Forseti boðar til félags- og stjórnarfunda svo oft sem þörf krefur. Forseti er fundarstjóri á slíkum fundum nema annað sé ákveðið, en er það þá í verkahring forseta að skipa fundarstjóra. 

  1. Forseti úthlutar verkefnum til meðlima stjórnarinnar og geta stjórnarmeðlimir ekki skorast undan þeim nema með leyfi forseta.  

  1. Forseti skal sjá til þess að samþykktir Eirar séu uppfærðar í samræmi við þær breytingar sem samþykktar hafa verið á aðalfundi félagsins. Forseti sér einnig um að kynna samþykktir Eirar, sem og samþykktir SHA, fyrir stjórnarmeðlimum sínum. Þetta skal gert innan sjö daga frá stjórnarskiptum.  

  1. Forseti hefur yfirumsjón með netfangi félagsins, en ef þörf þykir getur forseti óskað eftir aðstoð frá öðrum stjórnarmeðlim.  

  1. Forseti situr þá fundi sem skrifstofustjóri óskar eftir í byrjun starfsársins. Þetta getur verið breytilegt frá ári til árs en dæmi um þetta geta t.d. verið fræðasviðsfundir Heilbrigðis-, Viðskipta- og Raunvísindasviðs, Stjórnarfundir HVR, deildarráðsfundir og deildarfundir.  

  1. Hætti forseti í stjórn Eirar skal varaforseti taka við embættinu. 

 

Varaforseti  

  1. Varaforseti skal vera forseta innan handar í öllum málum og gegna starfi forseta í forföllum hans. Ef varaforseti getur af einhverjum ástæðum ekki gegnt því hlutverki skal annar stjórnarmeðlimur taka við embættinu.  

  1. Varaforseti gegnir starfi ritara sem felur m.a. í sér að skrá fundargerðir stjórnarfunda. Varaforseti skal hefja alla stjórnarfundi á því að leggja fram fundargerð síðasta fundar til samþykktar. Fundargerðir skulu teknar saman jafnóðum og færðar inn á Teams svæði stjórnarinnar. Fyrir stjórnarskipti skal varaforseti sjá til þess að allar fundargerðir fráfarandi stjórnar séu inni á Teams svæði Eirar.  

  1.  Varaforseti sér um gerð ársskýrslu ásamt gjaldkera. 

  1. Er það í höndum varaforseta að halda utan um og skipuleggja viðburði sem félagið heldur. Varaforseti úthlutar verkefnum til annara stjórnarmeðlima og sér til þess að verkaskipting sé eins jöfn og mögulegt er.   

 

Gjaldkeri 

  1. Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjármálum félagsins. Þá sér gjaldkeri einnig til þess að yfirlit um fjármál félagsins liggi fyrir öllum stundum.  

  1. Gjaldkeri þarf að standa skil á fjárreiðum félagsins á aðalfundi þess. 

  1.  Gjaldkeri sér um gerð ársskýrslu ásamt varaforseta.  

 

Samskiptafulltrúi 
 

  1. Samskiptafulltrúi hefur yfirumsjón með samfélagsmiðlum félagsins og ber m.a. ábyrgð á því að viðburðir séu auglýstir með góðum fyrirvara. 

  1. Samskiptafulltrúi sér til þess að haldinn sé a.m.k. einn viðburður á önn fyrir hvert ár innan hverrar námsgreinar.  

  1.  Samskiptafulltrúi sér um samskipti við fyrirtæki í sambandi við vísindaferðir og hefur yfirumsjón með skipulagningu slíkra ferða. 

  1.  Samskiptafulltrúi sér um samskipti við önnur nemendafélög heilbrigðisvísindanema, hér á landi sem og utan. 

  1. Er það í höndum samskiptafulltrúa að halda uppi reglulegum samskiptum við Félag íslenskra hjúkrunarfræðinga og Iðjuþjálfafélag Íslands ásamt því að efla samskipti við félögin. 

  1.  Samskiptafulltrúi situr í náms- og matsnefnd sinnar deildar.  

  2.  Samskiptafulltrúi tekur þátt í undirbúningi og skipulagningu félagsstarfs ásamt öðrum stjórnarmeðlimum. 

      

Nýnemafulltrúi 

  1. Fulltrúi nýnema skal vera kosinn með leynilegum hætti á sérstökum nýnemadegi, sem haldinn skal fyrir síðustu vikuna í september. Nýnemafulltrúi þessi situr í stjórn félagsins til loka vorannar. Ef fulltrúi nýnema getur af einhverjum ástæðum ekki sinnt starfi sínu skal auglýsa eftir nýjum nýnemafulltrúa eins fljótt og unnt er. 

  1. Nýnemafulltrúi skal leggja sig fram við að halda öflugum og góðum tengslum milli stjórnarinnar og fyrsta árs stúdenta. 

  1.  Fulltrúi nýnema skal sjá til þess að samnemendur sínir séu vel upplýstir um það sem er á döfinni s.s. viðburðir og upprifjunarnámskeið. 

  1.  Nýnemafulltrúi tekur þátt í undirbúningi og skipulagningu félagsstarfs ásamt öðrum stjórnarmeðlimum. 

 

11. gr. Á félagsfundi geta meðlimir Eirar borið upp vantraust á meðlim félagsins eða stjórnarmeðlim. Tillagan þarf að hljóta samþykki 2/3 viðstaddra á fundinum til að hún nái fram að ganga, lágmarksfjöldi viðstaddra þarf að vera í samræmi við samþykktir SHA. 

 

12. gr. Segi stjórnarmeðlimur af sér, eða ef vantraust á stjórnarmeðlim er samþykkt, skal stjórn Eirar óska eftir framboðum í stöðuna. Stjórnarmeðlimir kjósa svo um hvaða frambjóðandi sé hæfastur til að taka við embættinu. Meirihluti atkvæða ræður úrslitum en séu atkvæði jöfn ræður atkvæði forseta úrslitum.  

 

13. gr. Segi þrír eða fleiri stjórnarmeðlimir af sér, eða vantraust á þrjá eða fleiri stjórnarmeðlimi er samþykkt, telst stjórnin vanhæf. Í því tilfelli skal boða til félagsfundar innan sjö daga þar sem ný stjórn er kosin.  

 

IV.      Félags- og stjórnarfundir  
 

14. gr. Ef meirihluti stjórnar eða tíundi hluti meðlima fer skriflega fram á félagsfund skal halda slíkan innan sjö daga. Stjórninni ber að boða til fundarins með tryggilegum hætti með a.m.k. tveggja daga fyrirvara. 
 

15. gr. Samþykktabreytingar skulu eingöngu eiga sér stað á aðalfundi. Til að slík breyting öðlist gildi þarf hún að hljóta samþykki af einföldum meirihluta þeirra meðlima sem mættir eru á aðalfund. Tillögur stjórnar af breytingum á samþykktum félagsins skulu kynntar á sama vettvangi og fundarboð aðalfundar, ásamt því að vera kynntar sérstaklega á fundinum sjálfum. Breytingartillögur annarra meðlima má bera fram á aðalfundinum sjálfum. 

 

VI.      Fjármál  

 

16. gr. Stjórn félagsins hefur heimild til þess að leita fjármagns utan veggja háskólans, bæði í formi styrkja og samninga. 
 

17. gr. Reikningar félagsins skulu miðast við aðalfund ár hvert. Lausafjárstaða félagsins skal ekki vera minni en því sem nemur 150.000 kr. við stjórnarskipti. Þá skal stjórn Eirar ganga úr skugga um að lausafjárstaða félagsins við stjórnarskipti sé ekki hærri en samþykktir SHA segja til um. Ef lausafjárstaðan er hærri en samþykktirnar segja til um og sérstakar ástæður liggja þar að baki skal fráfarandi stjórn Eirar sækja um undanþágu til SHA, til þess að fjárframlag frá SHA falli ekki niður næsta skólaár. 

 

18. gr. Ef tækifæri gefst til að senda fulltrúa fyrir hönd félagsins á ráðstefnur, s.s. NSSK og ENSA, skal stjórn félagsins reyna eftir fremsta megni að útvega styrki til þess að greiða fyrir stjórnarmeðlim að sækja slíka ráðstefnu.  

 

19. gr. Stjórn Eirar er heimilt að umbuna fráfarandi stjórnarmeðlimi fyrir vel unnin störf í þágu félagsins og/eða skóla. Umbunin getur t.d. verið andvirði aðgöngumiða á árshátíð SHA eða annað sem stjórnarmeðlimir sammælast um. Forseti hefur vald til þess að umbuna aðeins hluta stjórnar, t.d. ef einhverjir stjórnarmeðlimir hafa ekki sinnt embætti sínu sem skyldi.  

 

VII.      Önnur ákvæði  

 

20. gr. Stangist samþykktaákvæði í samþykktum Eirar á við samþykktir SHA skulu samþykktir SHA ráða. Gera skal viðeigandi samþykktarúrbætur á næsta aðalfundi.  

 

21. gr. Samþykktir þessar öðlast þegar gildi og verður aðeins breytt á aðalfundi. 

 

Þessar samþykktir voru samþykktar á aðalfundi félagsins 16. mars 2023