Samþykktir Magister

Samþykktir Magister, félags kennaranema við Háskólann á Akureyri

 

I. Nafn, markmið og félagar.

1. gr. Félagið heitir Magister, félag kennaranema við Háskólann á Akureyri, með kennitöluna 620200-2550 og er aðildarfélag SHA. Lögheimili þess og varnarþing er á Akureyri.  

2. gr. Markmið félagsins er: 

  1. Að gæta hagsmuna kennaranema og vera málsvari þeirra innan skóla sem utan. 

  1. Að vinna að aukinni samheldni meðal stúdenta. 

  1. Að standa fyrir skemmtunum og gleðskap meðal kennaranema. 

  1. Að standa fyrir ýmiskonar fræðslu og sjá um kynningarferðir er tengjast kennarastarfinu. 

  1. Að stuðla að góðri samvinnu við önnur aðildarfélög innan skólans. 

  1. Að taka þátt í því að efla samræðu og samgang við önnur nemendafélög kennaranema á Íslandi. 

  1. Að efla samband við Kennarasamband Íslands. 

3. gr. Félagar eru innritaðir stúdentar kennaradeildar Hug- og félagsvísindasviðs við Háskólann á Akureyri, sem hafa greitt innritunargjald til skólans og skráð sig í Magister. 

1. Frestur til að skrá sig í félagið rennur út klukkan 23:59, 15. september ár hvert og ber félagsmönnum að uppfæra skráningar sínar árlega. 

 i.    Óski stúdent eftir að skrá sig í félagið að þeim tíma liðnum, fer það sérstaklega fyrir stjórn. 

ii.   Stjórn Magister hefur heimild til þess að rukka félagsgjöld eftir að skráningarfrestur rennur út. 

iii.  Stjórn Magister ákveður á hverju starfsári upphæð félagsgjalda.

2. Hver félagi getur skráð sig úr félaginu ef hann kýs, hvort sem hann skiptir um deild eða af öðrum ástæðum. 

4. gr. Nú leysist félagið upp og renna þá öll réttindi og skyldur til SHA. 

5. gr. Magister fylgir í einu og öllu þeim verklagsreglum sem SHA hefur í gildi um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan SHA. 

 

II. Stjórn 

6. gr. Í stjórn skulu sitja fimm aðilar sem gegna eftirfarandi embættum; formaður, varaformaður, gjaldkeri, samskiptafulltrú og fulltrúi fyrsta árs stúdenta. Auk ofangreindra embætta skal stjórn Magister skipa einn fulltrúa í eftirtaldar nefndir: Alþjóðanefnd, Kynninganefnd og Viðburðanefnd SHA. 

Fulltrúar SHA skulu ekki sitja í stjórnum deildarfélaga SHA. 

7. gr. Stjórn Magister tilnefnir námskeiðsmats fulltrúa. Nái stjórn ekki að manna stöðu námskeiðsmats fulltrúa, skal fulltrúi stjórnar Magister taka embættið að sér. 

Námskeiðsmats fulltrúinn skal tilnefna einn fulltrúa á hverju námsári í grunnnámi til þess að vinna að gerð og framkvæmd samtalsmiðaðs námskeiðsmats. Fulltrúarnir bera allir sameiginlega ábyrgð á gerð og framkvæmd námskeiðsmatsins í samvinnu við fulltrúa stúdenta í Gæðaráði HA sem og Gæðastjóra HA. 

Þessi grein er sett inn með fyrirvara um að yfirstjórn háskólans samþykki að þessi leið verði farin fyrir háskólann í heild. Ákvörðun mun liggja fyrir, fyrir haustmisseri. Fella má þennan lið úr samþykktum, utan aðalfundar. 

8. gr. Í stjórn sitja: 

Formaður

i. Formaður kemur fram fyrir hönd stúdenta út á við. Hann skal boða til félags- og stjórnarfunda svo oft sem þess gerist þörf og verður þá eða skipar fundarstjóra. Sér einnig til þess að hin ýmsu störf dreifist á alla stjórnarmenn. 

ii. Formaður skal sjá til þess að samþykktir félagsins séu uppfærð í samræmi við samþykktabreytingar sem samþykktar eru á aðalfundi. 

iii. Formaður situr deildarfundi kennaradeildar, deildarráðsfundi og fræðasviðsfundi Hug- og félagsvísindasviðs fyrir hönd stúdenta og er fulltrúi Magister í Stúdentaráði SHA. 

iv. Fulltrúi formanns situr í náms- og matsnefndum kennaradeildar fyrir hönd stúdenta. Ef enginn býður sig fram í þær nefndir er það hlutverk varaformanns að vera fulltrúi formanns. 

v. Hætti formaður störfum skal varaformaður taka við störfum hans. 

Varaformaður. 

i. Varaformaður skal vera formanni innan handar í öllum málum og gegna starfi formanns í forföllum hans. 

ii. Ef varaformaður getur ekki gegnt því hlutverki af einhverjum ástæðum skal annar stjórnarmeðlimur taka hans stað. 

iii. Varaformaður gegnir starfi ritara sem felur í sér að rita fundargerðir stjórnarfunda. 

iv. Varaformaður skal færa fundargerðir inn á skjalasvæði SHA. 

v.  Varaformaður er umsjónarmaður samfélagsmiðla félagsins og sér um allt sem tengist því 

vi. Varaformaður sér um gerð árskýrslu ásamt gjaldkera. 

Gjaldkeri. 

i.  Gjaldkeri sér um fjármál félagsins og sér til þess að yfirlit um fjármál félagsins sé reiðubúið og skilað til SHA sé þess óskað. 

ii. Gjaldkeri sér um gerð árskýrslu ásamt varaformanni. 

Samskiptafulltrúi. 

i. Samskiptafulltrúi sér um að halda uppi reglulegum samskiptum við Kennarasamband Íslands. 

ii. Samskiptafulltrúi sér um samskipti við nemendafélög kennarafræðinema við Háskóla Íslands og Listaháskóla Íslands. 

iii. Samskiptafulltrúi sér um samskipti við nemendafélög kennarafræðinema erlendis.  

iv. Samskiptafulltrúi er áheyrnafulltrúi MA og ME.d. stúdenta. 

Fulltrúi fyrsta árs stúdenta. 

v. Samskiptafulltrúi er tengiliður stjórnar Magister við fjarnema. 

i. Fulltrúi fyrsta árs stúdenta skal vera tengiliður stjórnar Magister við stúdenta á sínu fyrsta ári í kennaranámi við HA. 

ii. Skal hann halda uppi öflugum og góðum tengslum milli stjórnar Magister og stúdenta á fyrsta ári. 

iii. Einnig aðstoðar fulltrúi fyrsta árs stúdenta við undirbúning og skipulagningu félagsstarfs ásamt öðrum stjórnameðlimum. 

iv.  Fulltrúi stúdenta er kosinn í upphafi haustannar hvert ár og skal hann starfa með stjórn félagsins til lok vorannar.

10. gr. Vantraust á meðlim stjórnar

Á félagsfundi getur félagsmaður borið upp vantraust á meðlim eða meðlimi stjórnar. Tillaga hans þarf að hljóta samþykki 2/3 fundarmanna til að hún nái fram að ganga enda sé a.m.k. 1/10 félagsmanna á félagsfundinum. 

 

III. Aðalfundur 

11. gr. Aðalfundur skal haldinn hið minnsta viku fyrir aðalfund SHA. Fundinn skal auglýsa með minnst 7 daga fyrirvara á samfélagsmiðlum félagsins. Aðalfundur telst löglegur sé ofangreindum skilyrðum fullnægt. Tillögur um samþykktabreytingar berist minnst tveimur dögum fyrir aðalfund. Tillögur um framboð og tilnefningar má koma með á aðalfundinum sjálfum ef ekkert framboð hefur borist í tiltekna stöðu. 

12. gr. Dagskrá aðalfundar er: 

1. Fundur settur. 

2. Kosning fundarstjóra. 

3. Kosning fundarritara. 

4. Skipun kjörnefndar. 

5. Skýrsla formanns. 

6. Skýrsla gjaldkera og afgreiðsla reikninga. 

7. Samþykktabreytingar. 

8. Kosning fulltrúa í fastanefndir SHA og 5 fulltrúa í stjórn Magister. 

       8.1. Fulltrúi Magister í: Alþjóðanefnd, Kynninganefnd og Viðburðanefnd. 

       8.2. Stjórn Magister: Formaður, varaformaður, gjaldkeri, samskiptafulltrúi og fulltrúi fjarnema. 

9. Önnur mál. 

10. Fundi slitið. 

 

IV. Kosningar 

13. gr. Hver félagsmaður hefur atkvæðisrétt og kjörgengi. Einfaldur meirihluti skal ráða niðurstöðum kosninga á aðalfundi. 

14. gr. Stjórn skal kosin með leynilegri kosningu eða með handaupplyftingu og sitja í eitt ár, til næsta aðalfundar. Í kosningu gildir meirihluti atkvæða. Falli atkvæði jafnt við kjör skal endurtaka kosningu milli viðkomandi frambjóðenda og falli atkvæði enn jafnt ræður hlutkesti. Sé aðeins einn frambjóðandi í kjöri telst hann sjálfkjörinn án leynilegrar kosningar. Sé kosið í embætti er kosið í þeirri röð er fram kemur í dagskrárlið 8.1. og 8.2. í 10. gr. 

15. gr. Kjörnefnd skipuð 3 stúdentum á aðalfundi skal annast skipulag og framkvæmd kosninga. 

 

V. Ýmislegt 

16. gr. Reikningar félagsins miðast við aðalfund Magister ár hvert. 

Lausafjárstaða félagsins skal ekki vera minni en sem nemur 150.000.- kr. við stjórnarskipti. Einnig skal lausafjárstaða félagsins ekki vera hærri en því sem nemur 600.000.- kr. við stjórnarskipti. Ef lausafjárstaða er hærri en sem nemur 600.000.- kr. við stjórnarskipti getur stjórn óskað eftir undanþágu til SHA, um að fjárframlag frá SHA falli ekki niður næsta skólaár, ef sérstakar ástæður liggja þar að baki. Sjá nánar í samþykktum SHA. 

17. gr. Stjórn Magister er heimilt að greiða út umbun fyrir störf í þágu félagsins og skóla. Umbunin nemur að hámarki andvirðis aðgöngumiða á árshátíð SHA. Þeir stúdentar sem eiga tilkall til umbunar er fráfarandi stjórn félagsins. Fráfarandi fulltrúar félagsins í alþjóðanefnd, kynninganefnd, námsnefnd og matsnefnd eiga tilkall til umbunar sem nemur að hámarki hálfs andvirðis aðgöngumiða á árshátíð SHA. 

18. gr. Fráfarandi stjórn skal funda með nýrri stjórn Magister innan við viku frá aðalfundi félagsins. 

19. gr. Félagsfund ber að halda hvenær sem stjórnin álítur nauðsynlegt. Þá skal halda fund ef fimm eða fleiri félagsmenn óska þess. Fundi skal að jafnaði boða með viku fyrirvara og aldrei með minna en sólarhrings fyrirvara. 

20. gr. Stangist samþykktarákvæði í samþykktum Magister á við samþykktir SHA skulu samþykktir SHA ráða. Gera skal viðeigandi lagaúrbætur á næsta aðalfundi. 

21. gr. Samþykktir þessar öðlast þegar gildi og verður aðeins breytt á aðalfundi. 

 

  

Samþykktir þessar voru samþykkt á aðalfundi Magister 10. febrúar 2021.