Samþykktir Stafnbúa

Samþykktir Stafnbúa, félags auðlindafræðinema við Háskólann á Akureyri 

  

I. Félagið og meðlimir 

  

1. gr. Félagið heitir Stafnbúi og er félag nema í auðlindafræðum við Háskólann á Akureyri. Kennitala félagsins er 650590-2529 og lögheimili þess og varnarþing er á Akureyri. 

  

2. gr. Markmið félagsins er 

a.  Að gæta hagsmuna nemenda í auðlindafræðum og vera málsvari þeirra innan Háskólans og utan. 

b. Að efla fræðslu og auka kynni meðal nemenda deildarinnar. 

c. Að efla samskipti við aðrar innlendar og erlendar stofnanir er stunda rannsóknir og/eða kennslu á þeim sviðum er tengjast greininni. 

d. Að efla tengsl nemenda við auðlindatengd fyrirtæki og standa fyrir kynningu á auðlindafræðum þó einkum meðal fyrirtækja sem tengjast auðlindamálum til dæmis með útgáfu tímarits og viðgangi vefsíðu. 

e. Að standa fyrir ferðum, fræðslufundum og skemmtunum fyrir félagsmenn sína. 

  

3. gr.  Félagsmenn eru innritaðir nemendur auðlindadeildar Heilbrigðis- , viðskipta og raunvísindasvið við Háskólann á Akureyri, sem hafa greitt innritunargjald til skólans og skráð sig í Stafnbúa. 

a. Frestur til að skrá sig í félagið rennur út 15. september kl 23:59 ár hvert. 

b. Hver félagi getur skráð sig úr félaginu ef hann kýs, hvort sem hann skiptir um deild eða af öðrum ástæðum. 

  

II. Kosningaréttur og kjörgengi 

  

4. gr. Kosningarétt hafa allir meðlimir félagsins. Kjörgengi til embætta hafa allir meðlimir félagsins, þó skulu þeir ekki sitja í framkvæmdastjórn SHA. 

  

5. gr. Kosið skal til embætta með leynilegri atkvæðagreiðslu er fari fram á aðalfundi. 

  

6. gr.  Starfandi æðstaráð annist undirbúning kosninga. 

  

7. gr.  Falli atkvæði jafnt við kjör skal endurtaka kosningu milli viðkomandi frambjóðenda og falli atkvæði enn jafnt ræður atkvæði fráfarandi formanns. Sé aðeins einn frambjóðandi í kjöri skoðast hann sem sjálfkjörinn án leynilegrar kosningar. 

  

8. gr.  Á aðalfundi skal kjósa fulltrúa félagsins í viðburðanefnd, kynninganefnd og alþjóðanefnd SHA og fulltrúa í náms- og matsnefnd auðlindadeildar. 

  

III. Æðstaráðið 

  

9. gr.  Æðstaráð félagsins skal skipað forseta, varaforseta, aðalritara, fjármálastjóra og einum meðstjórnanda. Meðstjórnandinn skal vera úr hópi nýnema á komandi hausti og skulu þeir sjá um kosningu hans innan fjögurra vikna frá upphafi haustannar. 

  

10. gr. Meðlimir æðstaráðs 

a. Meðlimir æðstaráðsins skulu sitja æðstaráðsfundi sem fara með æðsta ákvörðunarvald félagsins á milli aðalfunda. 

b. Forseti boðar félags- og æðstaráðsfundi og stýrir þeim. Einnig skal yfirstjórn á daglegum rekstri vera í hans höndum. Forseti skal jafnframt vera fulltrúi félagsins á fræðasviðsfundum, á deildaráðsfundum, á deildarfundum og í stúdentaráði SHA.  

c. Varaforseti gegnir starfi forseta í hans fjarveru. Auk þess skal hann sjá um almenna kynningu námsins út á við og á starfsemi félagsins, ásamt því að vera tengiliður við erlenda nemendur félagsins ef ekki næst að manna fulltrúa alþjóðanefndar ásamt því að sitja í alþjóðanefnd. 

d. Aðalritari ritar allar fundargerðir og sér um heimasíðu og samfélagsmiðla félagins. 

e. Fjármálastjóri skal annast dagleg fjármál félagsins í samvinnu við forseta. 

f. Meðstjórnandi hefur almenna stjórnarsetu og er tengiliður æðstaráðs við 1. árs nema ásamt fjarnemum.  

g. Æðstaráðinu er heimilt að kalla á sinn fund fulltrúa Stafnbúa í nefndum og ráðum. Fulltrúar þessir hafa ekki atkvæðisrétt á æðstaráðsfundum, en hafa þó málfrelsi og tillögurétt. 

h. Fulltrúi úr líftækni og fulltrúi í sjávarútvegsfræði skulu sitja deildarfundi og deildarráðsfundi, einnig þarf að skipa tvo varafulltrúa, einn af hvorri námsleið. 

11. gr. Verksvið æðstaráðs er að annast alla almenna stjórn félagsins. Æðstaráði er skylt að kynna jafnan öllum nýjum félögum starf og samþykktir félagsins. 

12. gr. Verði meðlimur æðstaráðsins að hverfa frá störfum einhverra hluta vegna, skal boðaður félagsfundur við fyrsta tækifæri og nýr félagi kosinn í hans stað. 

  

13. gr. Æðstaráð skal skipa tengilið fjarnema, ekki seinna en fyrir fyrstu fjarnemaviku skólaársins. Hann skal vera fjarnemi og vera æðstaráði innan handar til að skipuleggja viðburði og annað tengt fjarnemavikum.  

  

14. gr. Æðstaráð gefur sér rétt til að rukka félagsgjöld í félagið við skráningu. 

  

IV. Félagsfundir 

  

16. gr. Aðalfundur 

a. Aðalfundur skal haldinn með minnst sjö daga fyrirvara fyrir aðalfund SHA ár hvert. Fundinn skal auglýsa á samfélagsmiðlum félagsins með að minnsta kosti sjö daga fyrirvara, einnig skal dagskrá aðalfundar koma fram í fundarboði og hvaða stöður verða til kosninga. 

b. Tillögur um framboð og tilnefningar skulu berast æðstaráði minnst sólarhringsfyrirvara á netfang Stafnbúa fyrir aðalfund. Nú hafa ekki nægilega margar framboðsyfirlýsingar borist til að fullmanna megi embætti innan Stafnbúa sem tilgreind eru í samþykktum þessum og er þá heimilt að opna fyrir framboð á aðalfundi. Tillögur um breytingar á samþykktum félagsins skulu teknar fyrir á aðalfundi og hafa borist til æðstaráðs á netfang Stafnbúa með minnst fjögurra daga fyrirvara fyrir aðalfund. Samþykktabreytingar þurfa 2/3 fundarmanna að samþykkja til að öðlast gildi. 

c. Aðalfundur telst löglegur sé löglega til hans boðað. 

  

17. gr. Dagskrá aðalfundar er: 

a. Skipaður fundarstjóri er stýrir fundi og kosningum. 

b. Fundarstjóri skipar fundarritara 

c. Skýrsla fráfarandi æðstaráðs lesin upp. 

d. Reikningar lagðir fram. 

e. Breytingar á samþykktum félagsins. 

f. Kosning í æðstaráð og nefndir SHA. 

g. Kosning á fulltrúa í náms- og matsnefnd auðlindadeildar. 

h. Önnur mál. 

i. Nýkjörið æðstaráð tekur við störfum. 

  

18. gr.  Reikningar félagsins miðast við aðalfund SHA. 

  

19. gr.  Félagsfund ber að halda hvenær sem æðstaráð álítur nauðsynlegt. Þá skal halda fund ef fimm eða fleiri félagsmenn æskja þess. Fundinn skal boða með þokkalegum fyrirvara. 

  

V. Fjármál félagsins 

  

20. gr. Fjármálastjóri skal hafa yfirumsjón með öllum fjármálum félagsins og gegnir Forseti því starfi í hans fjarveru. Fjármálastjóri og forseti skuli báðir og einir hafa prókúru á reikningum félagsins. 

  

21. gr. Fjármálastjóri skal skila uppgjöri til SHA sé eftir því óskað. 

  

22. gr. Fjármálastjóra er skylt að skila nýju æðstaráði löglegu bókhaldi á kynningarfundi með nýjum fjármálastjóra. 

  

23. gr. Við aðalfund SHA skal lausafé félagsins vera að lágmarki 150.000 kr. Jafnframt skal lausafé félagsins eftir að skólaárinu lýkur vera að lágmarki 100.000 kr. 

  

  

VII. Ýmislegt 

  

26. gr. Stafnbúi fylgir í einu og öllu þeim verklagsreglum sem SHA hefur í gildi um viðbrögð við kynbundinni og kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan SHA. 

  

27. gr. Samþykktir þessi öðlast þegar gildi og verður aðeins breytt á aðalfundi eða samþykktabreytingafundi. Gilda sömu samþykktir um boðun aðalfundar og samþykktabreytingarfundar 

  

28. gr. Stangist samþykktarákvæði í samþykktum Stafnbúa á við samþykktir SHA skulu samþykktir SHA ráða. Gera skal viðeigandi samþykktaúrbætur á næsta aðalfundi eða boða til samþykktabreytingarfundar. 

Verði samþykktum SHA breytt á þann veg að það hafi áhrif á starfsemi Stafnbúa skal stjórn Stafnbúa gera viðeigandi ráðstafanir til að mæta viðkomandi breytingum. Gera skal viðeigandi samþykktaúrbætur á næsta aðalfundi eða boða til samþykktabreytingarfundar. 

  

  

Samþykkt 21.03.2023