Samþykktir Þemis

 I. Nafn, aðsetur og tilgangur

 1. gr.

☐ Félagið heitir Þemis, félag laganema við Háskólann á Akureyri (e. Þemis, union of law students at the University of Akureyri) og er aðildarfélag SHA. Félagið hefur kennitöluna 500505-2730, og er aðsetur þess og varnarþing á Akureyri.

 

 2. gr. Meðlimir félagsins

☐Heimild til skráningar í félagið hafa þeir stúdentar sem skráðir eru til náms í lagadeild Háskólans á Akureyri.

☐Stjórn hefur heimild til þess að innheimta skrásetningargjald til félagsins.

(a.) Allir stúdentar við lagadeild Háskólans á Akureyri, sem greitt hafa skrásetningargjöld ár hvert og skráð sig í Þemis, eru fullgildir meðlimir.

    (b.) Félagsmenn einir hafa atkvæðisrétt á aðal- og félagsfundum.

☐ Frestur til þess að skrá sig í félagið rennur út þann 15. september kl. 23:59 ár hvert.

 

 3. gr.

Markmið félagsins eru:

☐ Að gæta sameiginlegra hagsmuna laganema og vera málsvari þeirra innan skóla sem utan.

☐ Að halda uppi öflugum tengslum við alla nemendur lagadeildar.

☐ Að vinna að aukinni samheldni meðal nemenda.

☐ Að stofna til samstarfs við félög og samtök laganema annarra skóla heima og erlendis.

☐ Að beita sér fyrir því og hvetja til þess að haldnar séu ráðstefnur og málþing um lagaleg málefni í Háskólanum á Akureyri.

☐ Að gefa út tímaritið Lögfræðing, hið minnsta eitt tölublað á hverju námsári.

☐ Að halda utan um Lögfræðiaðstoð Þemis.

 

 4. gr.

☐Nú leysist félagið upp og renna þá öll réttindi og skyldur til SHA.

 

II. Aðalfundur og kosningar

 5. gr.

☐Aðeins félagsmenn Þemis hafa atkvæðisrétt og kjörgengi í stjórn og aðrar stöður sem kosið er til á aðalfundi. Einfaldur meirihluti skal ráða niðurstöðum kosninga á aðalfundi.

 

 6. gr.

☐ Stjórn félagsins skal kosin leynilegri kosningu.

☐ Allir stjórnarmeðlimir skulu kosnir sérstakri kosningu.

 7. gr.

☐ Falli atkvæði jafnt við kjör skal endurtaka kosningu milli viðkomandi frambjóðenda og falli atkvæði enn jafnt ræður hlutkesti.

☐Sé aðeins einn frambjóðandi í kjöri telst hann þá sjálfkjörinn.

 

 8. gr.

☐ Kjörnefnd skal skipuð þremur nemendum á aðalfundi og er hennar hlutverk að annast skipulag og framkvæmd kosninga.

 

III. Stjórn

 9.gr.

☐ Í stjórn skulu sitja 7 aðilar sem gegna eftirfarandi stöðum; formaður, varaformaður, ritari, gjaldkeri, fulltrúi fjarnema, fulltrúi 1. árs nema og fulltrúi meistaranema.

☐ Allir stjórnarmeðlimir hafa jafnan atkvæðisrétt í öllum athöfnum stjórnar. Falli atkvæði jafnt skal kosið aftur, sé enn jafnt ræður atkvæði formanns úrslitum.

☐ Fulltrúi 1. árs nema situr í stjórn út skólaárið, nema hann sé kosinn í aðrar stöður innan stjórnar á aðalfundi.

☐ Sé fulltrúi 1. árs nema kosinn í stjórn Þemis á aðalfundi, skal ný stjórn sjá til þess að 1. árs nemar kjósi sér nýjan fulltrúa sem situr út skólaárið.

☐ Falli stjórnarmeðlimur frá á miðju stjórnartímabili, segi sig úr stjórn, eða hættir námi við Háskólann á Akureyri, fellur það í verkahring eftirsitjandi stjórnar fylla í þá stöðu sem losnað hefur.

☐ Nú una félagsmenn ekki niðurstöðu sitjandi stjórnar um skipun stjórnarmeðlims skal efnt til kosningarfélagsfundar ef 2/3 félagsmanna óska þess.

 

 10. gr.

☐Formaður

1.  Formaður hefur yfirumsjón og ber ábyrgð á starfsemi stjórnar og stýrir fundum, í forföllum hans varaformaður. Hann skal boða til félags- og stjórnarfunda svo oft sem þess gerist þörf og verður hann þá fundarstjóri eða skipar annan aðila til þeirra starfa. Formaður skal einnig sjá til þess að samþykktir félagsins séu uppfærð í samræmi við samþykktabreytingar sem samþykktar eru á aðalfundi.

2. Formaður ber ábyrgð á hagsmunamálum laganema og  situr deildarfundi lagadeildar, deildarráðs- og fræðasviðsfundi Hug- og Félagsvísindasviðs fyrir hönd nemenda og er fulltrúi Þemis í Stúdentaráði SHA.

3. Formaður skal boða forföll sín til varaformanns með hæfilegum fyrirvara, geti hann ekki sinnt áðurnefndum skyldum sínum.

4. Formaður hefur prókúru félagsins og ritar firma þess ásamt gjaldkera.

 

☐ Varaformaður

1. Varaformaður skal vera formanni innan handar í öllum málum og gegna starfi formanns í forföllum hans. Ef varaformaður getur ekki gegnt því hlutverki skal annar stjórnarmeðlimur taka hans stað.

2. Varaformaður sér til þess að viðburðir séu haldnir reglulega.

3. Takist ekki að manna stöðu fulltrúa Þemis í viðburðanefnd á aðalfundi og takist stjórn ekki að skipa í stöðuna tveim vikum frá aðalfundi skal varaformaður vera fulltrúi Þemis í viðburðanefnd SHA.

4. Ef ekki næst að manna stöðu varaformanns tveim vikum eftir aðalfund félagsins, skal ritari sem kjörin er á aðalfundi taka stöðu varaformanns og gegna báðum stöðum út skólaárið.

 

☐ Ritari

1. Ritara ber að skrá niður fundargerðir félagsins og færir þær inn á skjalasvæði SHA. Óski félagsmaður í Þemis eftir aðgangi að fundargerðum félagsins skulu þær gerðar aðgengilegar þeim sem óskar þess.

2. Ritari skal hafa yfirumsjón með öllum samfélagsmiðlum Þemis.

3. Náist ekki að manna stöðu ritara á aðalfundi eða að honum tveim vikum liðnum skal varaformaður taka hlutverk ritara að sér og gegna báðum stöðum.

 

☐ Gjaldkeri

1. Gjaldkeri hefur yfirumsjón með fjárreiðum allra nefnda og ráða á vegum félagsins, einnig hefur hann umsjón með öllum fjárreiðum félagsins sem og styrkbeiðnir í samráði við stjórn og undirfélög. Þarf hann að standa skil á fjárreiðum félagsins á aðalfundi þess.

2. Gjaldkeri sér um fjármál Lögfræðings í samráði við ritstjórn þess.

3. Gjaldkeri hefur prókúru félagsins og ritar firma þess ásamt formanni félagsins.

 

☐ Fulltrúi fjarnema

1. Fulltrúi fjarnema skal kosinn á aðalfundi ár hvert. Skal hann halda uppi öflugum tengslum milli stjórnar Þemis og fjarnema sem tilheyra félaginu. Þá skal fulltrúi fjarnema í störfum sínum hafa hagsmuni fjarnema í hvívetna.

2. Skal fulltrúi fjarnema vera stjórn Þemis innan handa við skipulagningu nýnemadaga ásamt staðarlotum fjarnema á haust- og vormisseri.

3. Æskilegt er að fulltrúi fjarnema mæti á nýnemadaga á haustmisseri sem og í staðarlotur á haust- og vormisseri ár hvert.

4. Fulltrúi fjarnema hefur atkvæðisrétt innan stjórnar Þemis

 

☐ Fulltrúi 1. árs nema

1. Fulltrúi 1. árs nema er kosinn af 1. árs nemum lagadeildar fyrir lok september hvers skólaárs. Skal hann halda uppi öflugum og góðum tengslum milli stjórnar Þemis og nema á 1. ári.

2. Heimilt er að kjósa fulltrúa fyrsta árs nema rafrænni kosningu svo fremur að hún sé nafnlaus.

 

☐ Fulltrúi meistaranema

Fulltrúi meistaranema situr stjórnarfundi Þemis fyrir hönd meistaranema. Honum ber að halda stjórn Þemis upplýstri um hagsmuni og verkefni meistaranema. Hann heldur utan um verkferla starfsnámssamninga við deildina í samvinnu við formann Þemis og brautarstjóra ML- stigs. 

 

☐ Aðrar stöður og fulltrúar

Þemis skal eiga sér fulltrúar í eftirfarandi fastanefndum SHA og skulu þeir kosnir á aðalfundi félagsins ár hvert.

i. Viðburðanefnd.

ii. Kynningarnefnd.

iii. Alþjóðanefnd.

Skulu fulltrúar þessir gæta hagsmunamuna Þemis innan sinna nefnda og vera tengiliðir stjórnar við þær. Þá er æskilegt að stjórn sé vel upplýst um málefni sem heyra til hverrar nefndar fyrir sig.

 

☐ Náms- og matsnefnd

Formaður Þemis skal sitja í náms- og matsnefnd lagadeildarinnar, óski formaður lagadeildarinnar eftir aðkomu hans. 

 

 11. gr. Vantraust á meðlimi stjórnar

☐ Á félagsfundi getur félagsmaður borið upp vantraust á meðlim eða meðlimi stjórnar. Tillaga hans þarf að hljóta samþykki 2/3 fundarmanna til að hún nái fram að ganga enda sé a.m.k. þriðjungur félagsmanna á félagsfundinum.

☐ Sé samþykkt vantraust á formann félagsins skal öll stjórnin segja af sér og boðað skal til aðalfundar þar sem ný stjórn er kosin.

☐ Boða skal til félagsfundar, þar sem félagsmönnum Þemis gefst kostur á að kjósa á milli nýrra frambjóðenda.

 12. gr.

☐ Stjórn Þemis fylgir í einu og öllu verklagsreglum um aðildarfélög SHA.

 

 IV. Félagið Lögfræðingur

 13.gr. 

Félagið Lögfræðingur  gefur út tímaritið Lögfræðing ásamt því að halda utan um málfundastarf innan lagadeildar Háskólans á Akureyri.

 14. gr Hlutverk félagsins.

☐ Félagið skal halda utan um og annast útgáfu Lögfræðings, tímarits laganema við Háskólann á Akureyri.

1. Lögfræðingur er fræðirit sem starfar samkvæmt þeim kröfum sem stigamatskerfi kennara við opinbera háskóla gerir til slíkra rita.

☐ Hvetja nemendur til þáttöku í alþjóðlegum málflutningskeppnum og vera þeim innan handar við undirbúning fyrir slíkar keppnir. Sé engin kosin í stjórn lögfræðings á aðalfundi skal hlutverk þetta færast til stjórnar Þemis.

☐ Stuðla að því að nemendur hafi kost á því að æfa og auka færni sína í málflutningi og ræðumennsku. Sé engin kosin í stjórn lögfræðings á aðalfundi skal hlutverk þetta færast til stjórnar Þemis.

☐ Afla fjármagns til að halda uppi öflugu starfi félagsins.

☐ Að halda úti heimasíðu Lögfræðings á logfraedingur.unak.is

 

 15. gr.

 

☐ Stjórn Lögfræðings, samanstendur af ritstjóra og aðstoðarritstjóra og ritstjórnarfulltrúa.

 

☐ Ritstjórn hefur heimild til þess að bæta við sig að hámarki tveimur ritstjórnarfulltrúum og skal slíkt gert á sérstökum ritstjórnarfundi.

☐ Ritstjóri og aðstoðarritstjóri þurfa báðir að vera samþykkir því að bæta skuli inn auka fulltrúa/fulltrúum í ritstjórn. Stjórn Lögfræðings setur sér verklagsreglur í samræmi við hlutverk félagsins.

 

 16. gr. Ritstjóri:

☐ Ritstjóri stýrir útgáfu Lögfræðings, sem kemur út einu sinni á ári. Ritstjóri er jafnframt ábyrgðarmaður útgáfunnar með þeim réttindum og skyldum sem því fylgir.

☐ Ritstjóri er í fyrirsvari fyrir ritstjórn og hefur umsjón með daglegum störfum útgáfunnar.

☐ Ritstjóri skal skipa fulltrúa úr röðum kennara við lagadeild háskólans með það að hlutverki að virkja tengsl ritstjórnar Lögfræðings við tilvonandi greinarhöfunda.  ef því verður ekki við komið er heimilt að skipa annan einstakling sem lokið hefur framhaldsprófi í lögfræði. Ritstjóri skal í samráði við fulltrúa skipa fræðilega ritstjórn Lögfræðings.

 

 17. gr. Aðstoðarritstjóri:

☐ Er ritstjóra innan handar í öllum málum sem snúa að útgáfunni og starfi í kringum málfundi. Ef ritstjóri eða ritstjórnarfulltrúar geta ekki sinnt starfi sínu skal aðstoðarritstjóri ganga í þeirra stað.

 

 18. gr. Ritstjórnarfulltrúar:

☐ Eru ritstjórn innan handar í öllum málum sem snúa að útgáfunni og málfundastarfi. Ef ritstjóri eða aðstoðarritstjóri geta ekki sinnt starfi sínu skulu ritstjórnarfulltrúar ganga í þeirra stað.

 

 19. gr. Kosningar

☐ Stjórnarmeðlimir Lögfræðings skulu kosnir einstaklega í sérstakri kosningu á aðalfundi félagsins.

☐ Kosið skal í hverja stöðu fyrir sig.

☐ Náist ekki að fullmanna stjórn á aðalfundi, skal stjórn Þemis skipa í þær stöður sem ekki verða mannaðar.

 20. gr. Starfstími

☐ Stjórnarskipti skulu vera eigi síðar en 1. september, en heimilt er að hafa þau fyrr eftir tillögu sitjandi stjórnar

 21. gr.

☐ Náist ekki að manna ritstjórn Lögfræðings fellur niður sú krafa sem kemur skýrt fram í samþykktum þessum um árlega útgáfu.

 

V. Lögfræðiaðstoð Þemis

 

 22. gr.

☐ Í lögfræðiaðstoð Þemis starfar þriggja manna stjórn, sem samanstendur af þremur stjórnarfulltrúum.

☐ Stjórnarfulltrúar lögfræðiaðstoðar Þemis bera jafna ábyrgð á störfum lögfræðiaðstoðarinnar.

☐ Stjórn lögfræðiaðstoðar skal kosin á aðalfundi Þemis.

☐ Stjórnarskipti skulu vera eigi síðar en 1. september, en heimilt er að hafa þau fyrr eftir tillögu sitjandi stjórnar.

 

 23. gr.

☐ Stjórnarfulltrúar Lögfræðiaðstoðar eru laganemar sem lokið hafa BA námi í lögfræði og stunda meistaranám í lögfræði við Háskólann á Akureyri.

☐ Allir stjórnarfulltrúar eru bundnir þagnarskyldu og gildir trúnaður um öll málefni er nemandi kann að komast að í gegnum starf sitt við ráðgjöfina.

☐ Stjórnarfulltrúar reyna eftir bestu getu að veita fólki fullnægjandi upplýsingar um réttarstöðu þess og aðrar lögfræðilegar leiðbeiningar.

☐ Einungis er um aðstoðað ræða og er hún endurgjaldslaus.

☐ Stjórnarfulltrúar bera ekki ábyrgð á þjónustu sinni.

☐ Stjórnarfulltrúum lögfræðiaðstoðar Þemis er heimilt að setja nánari reglur um verkferla og ábyrgð lögfræðiaðstoðar

 

VI. Kafli Kosningar, aðalfundur og félagsfundur

 

 24. gr.

☐ Aðalfundur hefur æðsta vald í málefnum félagsins. Aðalfundur skal haldinn eigi síðar en viku fyrir aðalfund SHA. Á fundinum eiga rétt til setu allir skráðir félagsmenn í Þemis. Til aðalfundar skal boða með minnst 7 daga fyrirvara á heimasíðu félagsins, telst hann þá löglegur. Framboð til stjórnar skuli tilkynnt stjórn að lágmarki tveimur sólarhringum fyrir aðalfund. Berist ekki framboð í ákveðin embætti í stjórn má bjóða sig fram í þau á aðalfundi. 

 25. gr.

☐ Ef aðalfundur telst ekki löglegur skal boða til nýs aðalfundar að viku liðinni og telst sá fundur þá löglegur.

 

 26. gr.

☐ Dagskrá aðalfundar skal vera sem hér segir:

1. Fundur settur.

2. Kosning fundarstjóra.

3. Kosning fundarritara.

4. Skipun kjörnefndar.

5. Skýrsla formanns.

6. Skýrsla gjaldkera og afgreiðsla reikninga.

7. Samþykktabreytingar.

8. Kosninga fimm nemenda í stjórn.

8.1 Kosning formanns

8.2 Kosning varaformanns

8.3 Kosning gjaldkera

8.4 Kosning ritara

8.5 Kosning fulltrúa fjarnema

8.6 Kosning áheyrnarfulltrúa M.L nema

9. Kosning í aðrar stöður

9.1 Kosning ritstjóra Lögfræðings

9.2 Kosning aðstoðarritstjóra Lögfræðings

9.3 Kosning ritstjórnarfulltrúa Lögfræðings

9.4 Kosning þriggja stjórnarmeðlima lögfræðiaðstoðar

9.5 Kosning fulltrúa Þemis í náms- og matsnefnd lagadeildar

9.6 Kosning fulltrúa Þemis í Viðburðanefnd SHA

9.7 Kosning fulltrúa Þemis í Kynningarnefnd SHA

9.8 Kosning fulltrúa Þemis í Alþjóðanefnd SHA

9.9 Kosning skoðunarmanns reikninga

10. Ný stjórn tekur við og vottar Þemis, réttlætisgyðju Grikkja, virðingu sína

11. Fundi slitið

 

 27. gr.

☐ Eftir aðalfund skal fráfarandi stjórn boða nýja stjórn til stjórnarskiptafundar.

☐ Eftir stjórnarskipti skal ný stjórn boða allar stjórnir undirfélaga og fulltrúa á vegum Þemis til Stórráðsfundar.

 

 28. gr.

☐ Reikningar félagsins skulu miðast við aðalfund ár hvert.

 

 29. gr.

☐ Reikningar skulu yfirfarnir af skoðunarmanni reikninga sem kjörinn er á aðalfundi.

 

 30. gr.

☐ Félagsfund ber að halda hvenær sem stjórnin álítur nauðsynlegt. Þá skal halda félagsfund er tíundi hluti félagsmanna óska þess.

☐ Undirfélög Þemis geta óskað eftir fundum með stjórn Þemis, eða öðrum starfandi stjórnum innan félagsins, hvenær sem þurfa þykir.

 

 31. gr.

☐ Kynningarkvöld fyrir 1. árs nema skal haldið á haustdögum við upphaf skólaárs. Aðalmarkmið þess er að kynna námið, stjórn félagsins og starfsemi þess.

☐ Á kynningarkvöldi skal hlutverk fulltrúa 1. árs nema, í stjórn Þemis, kynnt og óskað eftir framboðum.

 

 32. gr.

☐ Lausafjárstaða Þemis skal eigi vera minni en sem nemur 150.000 krónum við stjórnarskipti.

 

 33. gr.

☐ Sé lausafjárstaða Þemis meiri en nemur 800.000 krónum við stjórnarskipti fær félagið ekki árlegt framlag SHA á komandi skólaári.

☐ Liggi sérstök ástæða að baki svo hárri lausafjárstöðu Þemis má senda skriflega beiðni til stúdentaráðs um undanþágu sbr. 21. lið. samþykkta SHA.

 VII. Samþykktabreytingar

 34. gr.

☐ Samþykktabreytingar skulu eingöngu eiga sér stað á aðalfundi. Til að samþykktabreyting öðlist gildi þarf hún að vera samþykkt af a.m.k. 2/3 hluta skráðra félaga Þemis sem mættir eru á löglegan aðalfund. Tillögur að samþykktabreytingum frá stjórn skulu auglýstar samhliða tilkynningu um aðalfund. Tillögur að samþykktabreytingum skulu sendar stjórn að lágmarki tveimur sólarhringum fyrir aðalfund. Stjórn skal birta tillögurnar um leið og þær berast. 

VIII. Önnur ákvæði

 35. gr.

☐ Þemis fylgir verklagsreglum SHA um viðbrögð við kynferðislegri áreitni og kynbundnu og kynferðislegu ofbeldi innan SHA. 

 36. gr.

☐ Félagið getur kosið heiðursfélaga úr hópi lögfræðinga og lögmanna, innlenda sem erlenda skv. tillögu frá stjórn félagsins og telst það æðsta viðurkenning félagsins. Tillaga um slíkt kjör skal borin fram á fundi í félaginu, hvort sem félags- eða aðalfund að ræða. Telst tillaga samþykkt ef ¾ hlutar fundarmanna greiða henni atkvæði. Skal stjórn Þemis halda skrá yfir heiðursfélaga og afhenda þeim skjal til staðfestingar.

☐ Stjórn félagsins er heimilt að sæma þá aðila, innlenda sem erlenda, sem sýnt hafa sérstakan áhuga hagsmunum laganema við Háskólann á Akureyri, barmmerki félagsins.

 37. gr.

☐ Stjórn félagsins skal hafa til umráða líkneskii af Þemis, réttlætis-gyðju Grikkja til forna. Skal líkneski þetta vera sýnilegt á öllum stjórnarfundum, aðalfundum og félagsfundum Þemis. Hafi stjórn félagsins ekkert líkneski af Þemis til umráða skal hún verða sér úti um það.

 38. gr.

☐ Stjórn Þemis skal bjóða meðlimum sínum barmmerki félagsins við brautskráningu, endurgjaldslaust. Þá getur stjórn Þemis einnig boðið öðrum laganemum barmmerki félagsins til kaups.

 39. gr.

☐ Stangist samþykktarákvæði í samþykktum Þemis á við samþykktir SHA skulu samþykktir SHA ráða. Gera skal viðeigandi samþykkta úrbætur á næsta aðalfundi.


☐ Verði samþykktum SHA breytt á þann veg að það hafi áhrif á starfsemi Þemis skal stjórn Þemis gera viðeigandi ráðstafanir til að mæta viðkomandi breytingum.

☐ Gera skal viðeigandi samþykktaúrbætur á næsta aðalfundi.

 

Samþykktir þessar voru fyrst sett 24. mars 2004.

 

Nafn félagsins var ákveðið á aðalfundi félagsins 8. mars 2005.

 

Samþykktir þessar taka gildi frá samþykkt þeirra, þann 14. mars 2023