30 ára afmæli Háskólans á Akureyri

30 ára afmæli Háskólans á Akureyri
Þann 5. september síðastliðinn varð skólinn okkar þrjátíu ára. Að því tilefni var blásið til veislu og var það í höndum afmælisnefndar nemenda og framkvæmdastjórnar FSHA að skipuleggja daginn. Úr varð skemmtileg dagskrá sem hófst klukkan 11 að morgni og stóð fram á kvöld. Fyrri part dags fóru fram leikar á milli starfsfólks og nemenda, þar sem keppt var í  spurningakeppni, ásadansi, kappáti og reiptogi en nemendur sigruðu leikana með einu stigi. Að leikum loknum tók við samræðufundur nemenda og starfsfólks um framtíðarsýn Háskólans á Akureyri, frá sjónarhorni nemenda. Um kvöldið var blásið til samkvæmis í hátíðarsal skólans, þar sem nemendur skemmtu sér saman, tóku þátt í leikjum og sungu undir stjórn Magna Ásgeirssonar. 

Framtíðarsýn Háskólans á Akureyri. Hvaða breytingar vilja nemendur sjá er varða skólann?
Samræðufundurinn fór fram með þeim hætti að starfsfólki og nemendum var skipt í hópa og fékk hver hópur viðfangsefni. Hóparnir fengu góðan tíma til þess að ræða viðfangsefnin sín á milli og var þeim gert að setja upp áætlanir og kynna niðurstöður sínar fyrir rektor. Þegar hvert viðfangsefni hafði verið kynnt, tók rektor til máls, svaraði vangaveltum nemenda, spurði nánar út í niðurstöðurnar og velti upp spurningum varðandi ábyrgð skólans og hvort að áætlanir hópanna væru yfir höfuð gerlegar. Starfsfólk og nemendur tóku virkan þátt í þessu samtali við rektor og sköpuðust áhugaverðar umræður sem hægt verður að byggja á, til þess að gera háskólasamfélagið okkar betra. 

Málefnin sem tekin voru fyrir voru: 

  • Árshátíð FSHA haldin í hátíðarsal skólans.
    Frá því að nýjasta bygging HA var tekin til notkunar hafa nemendur óskað eftir því að fá að halda árshátíð FSHA í hátíðarsal skólans. Ástæður þess eru margar en einna helst ber að nefna þá staðreynd að nemendum finnst ósanngjarnt að ekki gildi sömu reglur um afnot af salnum fyrir starfsfólk og nemendur, skólinn er skólinn okkar allra og því ættu sömu reglur að gilda fyrir nemendur og starfsfólk. Hátíðarsalurinn er glæsilegur samkomustaður sem hentar árshátíð nemenda einstaklega vel, sé horft á stærð og staðsetningu. Framkvæmdastjórn FSHA hefur einnig tekið saman fjárhæðir sem myndu sparast við það að halda hátíðina í hátíðarsalnum en gríðarlegur kostnaður fylgir því að leigja húsnæði út í bæ, ásamt hljóðkerfi og öllu tilheyrandi. Auk þess er framkvæmdastjórn þeirrar skoðunar að það sé óþolandi að þurfa alltaf að leita út fyrir skólann þegar kemur að þessari hátíð, sérstaklega þegar fullkomin staðsetning er innan veggja skólans.
    Tveim hópum var gert að taka þetta viðfangsefni fyrir. Úr urðu gagnlegar hugmyndir og þótti framkvæmdastjórn sérstaklega ánægjulegt að heyra raddir starfsfólks sem komu að hugmyndavinnunni og vonar framkvæmdastjórn að jákvæð svör muni berast frá stjórn skólans þegar fyrirhuguð tillaga verður lögð fyrir. Félags- og menningarlífsnefnd mun taka það að sér að vinna að tillögu út frá niðurstöðum hópanna og mun framkvæmdastjórn hafa yfirumsjón með því ferli.  

  • Fjöldatakmarkanir við HA.
    Sé litið á framtíðarsýn Háskólans á Akureyri er ljóst að nemendum skólans fjölgar of ört, sé miðað við viðmiðunar fjölda og markmið til lengri tíma litið. Einn hópur fékk því það hlutverk að ræða þetta. Hópnum var gert að taka fram með hvaða hætti væri hægt að standa að fjöldatakmörkunum og hvaða leiðir væri hægt að fara. Úr urðu miklar og líflegar umræður þar sem nemendur voru með mismunandi skoðanir. Framkvæmdastjórn mun taka saman þær niðurstöður sem fengust í þessum hóp ásamt umræðum úr sal og koma niðurstöðunum til háskólaráðs.

  • Sálfræðiþjónusta í boði fyrir nemendur og starfsfólk HA.
    Í Háskóla Íslands, mörgum framhaldsskólum landsins og víða erlendis stendur nemendum og starfsfólki til boða sálfræðiþjónusta, sér að kostnaðarlausu. Einn hópanna ræddi þetta og velti því fyrir sér hvort að slík þjónusta væri ábyrgð skólans, ábyrgð heilbrigðiskerfisins ásamt kostum og göllum við slíka þjónustu. Hópurinn kom einungis fram með kosti og ávinning sem myndi vinnast af því ef sálfræðiþjónusta væri í boði innan veggja skólans. Tekin voru fram atriði eins og álag kennara, kvíði og annað sem hrjáir nemendur í daglegu lífi. Hópurinn var einnig á þeirri skoðun að fleiri og sterkari nemendur myndu útskrifast frá skólanum, fengju þeir sem þurfa, viðeigandi aðstoð og samtal við fagaðila. Rektor svaraði hugmyndum hópsins á þann veg að ekki væri nægilegt fjármagn til, til þess að standa straum af slíkum kostnaði. 
     
  • Samgöngumál er varða nemendur og starfsfólk HA.
    Einn hópurinn fékk það verkefni að ræða samgöngumál og kom ýmislegt áhugavert fram í umræðum varðandi þetta tiltekna málefni. Sérstaklega var rætt um bílastæði við húsnæði skólans, sem gjarnan eru ansi þétt setin.  Til þess að bregðast við þétt setnum bílastæðum komst hópurinn að þeirri niðurstöðu að í fyrsta lagi þyrfti að bæta samgöngur á Akureyri, er varða strætó. Strætóferðir á Akureyri eru í engu samræmi við skólann og þurfa nemendur sem búa á stúdentagörðum gjarnan að taka vagn sem fer fyrst í miðbæ áður en nemendur komast í skólann. Það hefur í för með sér ansi langa strætóferð og verður til þess að nemendur kjósa frekar að fara á einkabíl í skólann, hafi þeir tök á því. Hópurinn telur einnig mikilvægt að rukka einhverskonar gjald fyrir bílastæði skólans, sérstaklega í umhverfisskini, til þess að auka hvata nemenda og starfsfólks fyrir því að nota umhverfisvænni máta til þess að koma til skóla eða vinnu. Áhugaverðar umræður sköpuðust og hugmyndir hópsins verða notaðar í nýjum starfshóp sem framkvæmdastjórn hefur skipið og mun koma að samgöngumálum.

  • Samkomustaður nemenda.
    Nemendur eiga engan sérstakan samkomustað innan veggja skólans. Þegar nemendur kjósa að hittast utan skólatíma og þegar aðildarfélög FSHA halda skemmtikvöld þurfa nemendur alltaf að leita út fyrir skólann. Nemendur telja mikilvægt að eiga einhvern samkomustað innan veggja skólans, í líkingu við Stúdentakjallarann sem nemendur HÍ hafa aðgang að. Slíkur samkomustaður myndi hafa í för með sér meiri festu og vera hvetjandi staður fyrir fjarnema til þess að hittast og kynnast öðrum fjarnemum og staðarnemum. Tveir hópar fengu þetta viðfangsefni og kannaði annar hópurinn aðstöðu í kjallara skólans en sá staður er þó ekki hentur vegna öryggisástæðna. Báðir hópar komust að þeirri niðurstöðu að í náinni framtíð þyrfti að byggja við lóð skólans stúdentagarða og að þar væri nauðsynlegt að gera ráð fyrir samkomustað nemenda. Ýmsar hugmyndir komu upp varðandi rekstur slíks samkomustaðs en ofarlega stóð að FÉSTA myndi reka slíka starfsemi líkt og félagsstofnun stúdenta gerður með Stúdentakjallarann HÍ.
    Tilraunastarfsemi varðandi samkomustað nemenda mun fara fram á næstu vikum þegar framkvæmdastjórn mun opna óvæntan og skemmtilegan samkomustað fyrir nemendur eitthvert kvöld í staðarlotu.

  •  Stúdentagarðar.
    Tveir hópar fengu það verkefni að ræða stúdentagarða. Núverandi fyrirkomulag var rætt og var áhugavert að báðir hóparnir komust að þeirri niðurstöðu að það þyrfti að fara að huga til framtíðar og færa stúdentagarðana á eitt svæði, nær skólanum. Báðir hóparnir nefndu lóðir sem eru á skólasvæðinu og eru í eigu skólans. Draumur beggja hópa er að byggja íbúðir á þessu svæði, með það að markmiði að háskólasvæðið yrði í raun eitt samfélag. Þar væri einnig samkomustaður nemenda, sambærilegur þeim sem aðrir ræddu og nauðsynlegt væri að hugsa til dæmis að leikskóla og einhverjum þjónustukjarna á svæðinu. Stúdentar eiga 2 aðalfulltrúa og 2 varafulltrúa sem sitja í stjórn FÉSTA og verður framtíðarsýn stúdentagarðanna eitt þeirra málefna sem þessir fulltrúar hafa hugsað sér að bera inn á borð FÉSTA og munu hugmyndir hópanna tveggja að fyrirkomulaginu því koma að góðum notum.

  

Í þessari umfjöllun hefur einungis verið stiklað á stóru varðandi þau málefni sem nemendur og starfsfólk áttu samtal um á afmælisdeginum. Samræðan og hugmyndavinnan fór fram úr björtustu vonum skipuleggjenda og var afar ánægjulegt að sjá hversu virkan þátt allir tóku í umræðunum. Þessi hugmyndavinna mun nýtast framkvæmdastjórn afar vel og vera grunnur að þeirra hlutverki í því að efla og gera háskólasamfélagið okkar allra betra.

Framkvæmdastjórn vill þakka öllum sem tóku þátt í frábærum afmælisdegi. Sérstakar þakkir fær afmælisnefnd nemenda, fyrir óeigingjarnt starf.