Aðgengi að háskólanámi á komandi árum

Síðustu áratugi hefur Háskólinn á Akureyri þróað fjarnám við skólann og er kominn skrefinu lengra með svokölluðu sveigjanlegu námsfyrirkomulagi. Með því fyrirkomulagi geta stúdentar á landsvísu sótt sér háskólamenntun óháð búsetu. Fyrirkomulagið hefur jákvæð áhrif á eflingu byggða og ritrýndar rannsóknarniðurstöður hafa sýnt fram á að stúdentar sem geta stundað nám í sinni heimabyggð eru mun líklegri til að starfa þar fimm árum eftir útskrift. Það er því afar augljóst að samfélagsleg ábyrgð Háskólans á Akureyri er mikil þegar kemur að jöfnu aðgengi að háskólanámi.

Nú liggur fyrir frumvarp mennta- og menningarmálaráðherra Íslands um breytingu á lögum um háskóla, nr. 63/2006 og lögum um opinbera háskóla, nr. 85/2008. Það er afar ánægjulegt að sjá frumvarp þar sem markmiðið er að auka aðgengi að háskólastiginu með því að breyta aðgangskröfum þannig að nemendur sem hafa lokið námi á þriðja þrepi geti sótt um nám á háskólastiginu. Ekki einungis þeir sem hafa lokið stúdentsprófi. Ef þetta frumvarp verður að lögum er ljóst að auka þarf fjármagn til háskólakerfisins til þess að varðveita gæði náms og kennslu. 

Síðustu ár hefur umsóknum við Háskólann á Akureyri fjölgað verulega. Þessari fjölgun umsókna hefur hins vegar ekki fylgt aukið fjármagn frá stjórnvöldum. Einnig er vert að taka fram að yfirvöld óskuðu eftir því, að opinberu háskólarnir tækju inn fleiri umsækjendur vegna Kórónuveirufaraldursins á næsta skólaári og er því mikilvægt að yfirvöld standi við loforð sitt um aukningu á fjárframlögum til háskólakerfisins. Það er greinilegur vilji menntamálaráðherra að gefa fleirum tækifæri til þess að sækja sér menntun til opinberu háskólanna. Því þarf að auka fjárframlög til háskólakerfisins svo allur þessi fjöldi geti sótt sér háskólanám, þar sem gæði náms og kennslu eru í fyrirrúmi. 

Þegar Háskólinn á Akureyri var stofnaður fyrir rúmum 30 árum var megin tilgangur skólans að sjá landsbyggðinni fyrir kennurum og hjúkrunarfræðingum. Í dag er myndin orðin enn stærri. Háskólinn á Akureyri menntar enn hjúkrunarfræðinga og kennara ásamt því að bjóða upp á fleiri fjölbreyttar námsgreinar sem hafa í gegnum tíðina stækkað og dafnað. Þar að auki býður HA upp á námsframboð sem aðrir háskólar bjóða ekki upp á, sjávarútvegsfræði, líftækni og iðjuþjálfunarfræði svo dæmi sé tekin. Sífellt fleiri nemendur vilja stunda nám við Háskólann á Akureyri og aðsókn síðustu ára undirstrikar mikilvægi hans. Námsframboðið og það sveigjanlega námsfyrirkomulag sem háskólinn stendur fyrir, spilar þar stórt hlutverk. Háskólinn á Akureyri er því mikilvæg undirstaða að jafnara aðgengi að háskólanámi fyrir allt landið. Hvenær ætla stjórnvöld að viðurkenna það, til þess að Háskólinn á Akureyri fái raunveruleg tækifæri til að vaxa og blómstra? 

Steinunn Alda Gunnarsdóttir, formaður Stúdentafélags Háskólans á Akureyri