Breytum ekki konum - breytum samfélaginu.

Dagurinn er runninn upp, 24. október - Kvennafrídagurinn. Dagurinn sem ég er þakklát fyrir þær hörku duglegu og ákveðnu konur sem komu á undan mér og hreyfðu við samfélaginu og kröfðust breytinga. Í dag er ég líka hugsi, hugsi yfir því hvers vegna í ósköpunum við séum ekki komin lengra. Af hverju búum við enn í samfélagi þar sem konur frá lægri laun en karlar?

Samkvæmt nýjustu tölum Hagstofu Íslands um launamun kynjanna voru meðalatvinnutekjur kvenna 74% af meðalatvinnutekjum karla. Konur eru því með 26% lægri atvinnutekjur að meðaltali. Samkvæmt því hafa konur unnið fyrir launum sínum eftir 5 klukkustundir og 55 mínútur miðað við fullan vinnudag frá 9-17. Daglegum vinnuskyldum kvenna er því lokið klukkan 14:55. Því göngum við konur, út klukkan 14:55 í dag.  

Þá hafa á jafnréttisparadísinni Íslandi fjöldi kvenna stigið fram með frásagnir sínar af áreiti, ofbeldi og misrétti á vinnustöðum. Þær frásagnir undirstrika það hversu brýnt það sé að tryggja öryggi kvenna og jaðarsettra hópa á vinnumarkaði. 

Í dag höfum við tækifæri til þess að hafa hátt. Okkur á ekki að vera sama. Krefjumst jafnra kjara og öryggis á vinnustað. Göngum út klukkan 14:55 í dag og höfum hátt - saman á Ráðhústorgi klukkan 15:15. 

Metinn skal maðurinn,
manngildi er hugsjónin. 
Enginn um ölmusu biður. 
Hljómar um fjöll og fjörð: 
Frelsi skal ríkja á jörð, 
jafnrétti, framþróun, friður. 
Texti: Valborg Bentsdóttir

Breytum ekki konum, breytum samfélaginu og gerum það saman. Fjölmennum á Ráðhústorgi á Akureyri klukkan 15:15 í dag. 

Sólveig María Árnadóttir
Formaður Stúdentafélags Háskólans á Akureyri