Byggjum upp sterkara og öflugra námssamfélag við Háskólann á Akureyri


Gleðilega hátíð.  

Ég er stolt og meyr yfir öllum þeim verkefnum sem ég hef fengið að taka þátt í að vinna fyrir hönd stúdenta síðastliðin fjögur ár. Á þessum árum hef ég séð margt breytast og þróast á jákvæðan hátt en einnig eru enn verkefni til staðar sem þörf er á að ræða og munu eflaust alltaf þarfnast áframhaldandi vinnu. 

 

Það hefur sýnt sig að þátttaka stúdentatúdenta í starfi skólans  er mikilvæg innan skólans og  ekki alls fyrir löngu var send könnun á stúdenta tengd stefnu Háskólans á Akureyri. Svör stúdenta voru vel ígrunduð og ítarleg og við teljum að þau geti gagnast vel í þeirri vinnu sem háskólinn er í varðandi stefnumótun. Í könnunni komu fram mikilvæg svör tengd málefn sem við í Stúdentaráði teljum að þurfi að einblína meira á, sem eru loturnar við skólann.  

Allar deildir innan HA bjóða upp á staðlotur en þó er mismunandi eftir deildum hvort í þær sé valfrjáls mæting eða skyldumæting. Samkvæmt könnun SHA telja 68% stúdenta mikilvægt að allar deildir hafi skyldumætingu í lotu að minnsta kosti einu sinni á misseri. Þá komu stúdentar einnig með góð ráð og ábendingar sem gætu aðstoðað deildir við að bæta lotur ogaðstæðurnar sem þeim tengjast, með það að markmiði að hagnýta og bæta námsupplifun stúdenta. Stúdentaráð telur mikilvægt að deildir háskólans fari í vinnu við það að efla og styrkja loturnar, gera þær bæði metnaðarfullar og eftirsóknarverðar þannig að stúdentar sjái hag sinn í því að mæta og taka þátt í þeim. Stór hluti af því að vera í háskóla er að tilheyra samfélagi. Í HA hefur ríkt einstakt og gott námssamfélag en þó sýnir nýjasta gæðaúttektin að það þurfti að efla það og bæta enn frekar. Lotur eru einmitt frábært tól til þess að efla, styrkja og bæta þennan þátt. 

 

 
Samtalsmiðaða námskeiðsmatið er á góðri leið og þar fá stúdentar að tjá sig um og ræða það hvernig námskeið ganga, hvað gangi vel og hvernig sé hægt að bæta þau og gera betur.  Margt gott hefur komið út úr því mati og kennarar hafa hlustað á hvað stúdentar hafa að segja. Stúdentar eru klárir, þau hafa skoðun og mikilvæga rödd. Stúdentar eru í raun einn dýrmætasti mælivarði kennara þegar kemur að námskeiðum. Það erum við, stúdentar, sem sitjum námskeiðin og við mætum til leiks með ákveðnar væntingar. Það er því mikilvægt að hlusta á raddir stúdenta og að þeir fái að sjá að raunverulega sé hlustað á þeirra skoðun.  
 
 
 
 
 

 
Mín persónulega upplifun er sú að við getum gert betur hvað varðar lotukennslu. Ég valdi Háskólann á Akureyri á sínum tíma vegna þess sem ég hafði heyrt frá stúdentum háskólans. Öll nefndu þau sem ég ræddi við þætti eins og einstakt námssamfélag, öflugt félagslíf, persónulegan háskóla, frábærar lotur, tengslamyndun, lítið og náið samfélag stúdenta og starfsfólks Í starfi mínu sem forseti SHA hef ég hlustað á ýmislegt frá stúdentum þegar kemur að þessum þáttum sem mér þykja mikilvægir og hafa einkennt HA. Stúdentar í Viðskiptadeild upplifa sig til dæmis eina, þá skortir tengslamyndun og eiga erfitt með að leita stuðnings til þeirra sem eru með þeim í náminu, einfaldlega vegna þess að þau hafa aldrei hitt samnemendur sína. Þarna gæti Viðskiptadeild snúið vörn í sókn með því einfaldlega að taka af skarið og vera með skyldumætingu í lotu í það minnsta einu sinni á misseri. Hér er tækifæri til að gera betur og hugsa út fyrir boxið. Væri ekki frábært ef allir stúdentar á fyrsta ári í Viðskiptadeild myndu mæta saman í lotu sem væri samkennd og þar væru til dæmis unnin raunhæf verkefni, boðið upp á heimsóknir í fyrirtæki og stofnanir,  eða fyrirtæki stofnað, svo dæmi séu nefnd. Það væri vel hægt að hafa skyldumætingu í lotu og búa þannig um að stúdentar fengju eitthvað fyrir þátttöku sína.  

Í könnuninni komu stúdentar með fjölmörg hagnýt ráð varðandi lotur og sögðu hvað þau vildu sjá í lotum. Hvernig væri að deildir myndu taka sig saman og spyrja sína stúdenta. Móta loturnar með stúdentum og bæta þær Með lotum getum við eflt og styrkt háskólann okkar og gert hann enn betri. Í Háskólanum á Akureyri er einstakur og dýrmætur hópur fagfólks og ég hef trú á því að þið viljið hlusta á þarfir og óskir stúdenta þegar kemur að gæðum náms og að gera skólann okkar enn betri. Við í Stúdentaráði erum meira en til í að koma að þessari vinnu, við getum eflt og styrkt félagslega þáttinn þegar kemur að lotum, enda er það eitthvað sem við höfum gert í fjölmörg ár og aðildarfélögin hafa staðið sig sérstaklega vel í því. Gerum þetta saman.  

Ég vil hvetja deildir til að taka af skarið, móta sér skýra stefnu og vera framsæknar. Hugsa út fyrir boxið með það að markmiði að efla og styrkja námssamfélagið. Gleymum því ekki að háskólanámi fylgir ábyrgð og þó að það heyrist oftast hæst í þeim sem eru óánægðir með að þurfa að mæta til Akureyrar, þá á það alls ekki við um alla. Við þurfum að spyrja okkur að þeirri spurningu hvort óánægjan snú að því að þurfa að mæta í lotur eða hvort óánægjan tengist því sem gert er í lotunum. Ef það er hið síðarnefnda þarf að bregðast við því. 

Í næstu gæðaúttekt væri óskandi að sjá þá niðurstöðu að Háskólinn á Akureyri hafi brugðist við og styrkt og eflt námssamfélagið sitt. Gerum þetta vel og gerum þetta saman.  

Sólveig Birna Elísabetardóttir,  

 
forseti Stúdentafélags Háskólans á Akureyri