1. desember,
Í dag er Fullveldisdagurinn, dagurinn sem markar mikilvægan áfanga í sögu Íslands. Þann 1. desember 1918 öðlaðist Ísland fullveldi og rétt til að ráða sínum málum. Það er dagur til að minnast fortíðar, hugsa um þann sjálfstjórnarkerfi sem gaf okkur tækifæri til að byggja okkar eigið samfélag, og vera þakklát fyrir þá fegurð og frelsi sem við eigum í dag.
En dagurinn í dag er einnig dagur stúdenta. Þess vegna vil ég aðeins skrifa um okkur.
Stúdentalíf felur í sér margt annað en próf, verkefni og ítarlega lesningu. Innskráning í háskóla er ekki einungis aðgangur að námskeiði heldur þátttaka í samfélagi þar sem sameiginleg markmið, samkennd og samstaða ráða ríkjum. Félagslífið við skólann gefur okkur tækifæri til að hitta fólk úr ólíkum áttum, úr mismunandi deildum og með ólíka bakgrunna, og samt tengjumst við í vináttu, gleði, vonum og stundum áskorunum. Þessi fjölbreytni opnar augu okkar fyrir nýjum sjónarhornum, eykur skilning og gerir okkur ríkari sem einstaklinga. Stúdentalíf er líka eins konar andrými. Orka, stuðningur og dýrmætt hlé frá námi og skyldum. Þegar verkefnin hrannast upp getur sameiginlegur kaffibolli, spjall, hlátur, göngutúr eða íþrótt gefið orku og bjartsýni til að halda áfram. Svona samvera gerir námið bærilegra, minnkar stress og lætur skólalífið lifna við. Nú er prófatíðin hafin og álagið fer að segja til sín hjá mörgum. Það er eðlilegt að finna fyrir stressi og kvíða, því við viljum standa okkur vel og ná markmiðum okkar. En í þessari miklu vinnu megum við aldrei gleyma því að við sjálf erum mikilvægari en nokkur einkunn. Heilsan okkar, bæði andleg og líkamleg, er það sem við byggjum allt á. Það skiptir máli að huga að góðum svefni, næringu og hreyfingu, því heilinn þarf orku og hvíld til að taka við öllu því sem við erum að læra. Stutt gönguferð eða kaffipása með vinum getur gert kraftaverk, alveg eins og djúpt andardrag þegar spennan magnast. Þegar við gefum okkur leyfi til að taka pásur og hlúa að okkur, þá vinnum við í raun betur og hugurinn verður skýrari.
Stundum gleymum við því að próf eru ekki mælikvarði á okkur sem manneskjur. Þau segja ekkert um góðmennsku okkar, sköpunargáfu, seiglu eða þá drauma sem við eigum fyrir framtíðina. Og ef eitthvað gengur ekki eins og við vonum, þá er heimurinn ekki á enda. Við stöndum upp aftur, lærum af reynslunni og komum sterkari til baka. Það er einmitt það sem raunveruleg seigla er. Þess vegna er mikilvægt að muna: við erum ekki ein á þessari vegferð. Við erum samfélag stúdenta sem styður hvert annað og stendur saman, sérstaklega á þessum tíma. Prófin eru bara einn áfangi á lengri leið í átt að þeim einstaklingi sem hver og einn okkar er að verða. Það er ferðalagið sem mótar okkur, og við eigum framtíðina fyrir okkur. Þannig að í dag, á degi stúdenta, skulum við vera stolt af því sem við höfum þegar áorkað og muna að við erum hluti af kraftmiklu og samheldnu samfélagi. Við höfum styrkinn til að takast á við prófatíðina, hugrekkið til að leita stuðnings þegar þarf og seigluna til að rísa upp þegar eitthvað fer úrskeiðis. Við erum framtíðin og við erum saman í þessu.
Að lokum vil ég óska ykkur öllum gleðilegrar hátíðar. Munið að njóta hvers augnabliks, hlaða batteríin og leyfa ykkur að anda eftir krefjandi önn. Tíminn fram undan er tileinkaður hlýju, ró og góðri samveru. Við komum til baka endurnærð og tilbúin í næstu önn sem verður algjörlega geggjuð.
Gangi ykkur vel í prófunum kæru stúdentar og til hamingju með daginn.
Dagbjört Elva Kristjánsdóttir
Forseti Stúdentafélags Háskólans á Akureyri.