Fræðslu- og menntunarstyrkur veittur til Hermanns Biering og Guðdísar Bennýjar

Tilgangur umsóknarinnar var vegna fyrirhugaðrar ferðar til Tromsø í Noregi ásamt öðrum nemendum og kennara að skoða háskólann þar sem og að kynna sér fjölbreyttan sjávarútveg Norðmanna. Þá var einnig á dagskrá að fara á Sjávarútvegsráðstefnuna sem haldin var í Hörpu að þessu sinni dagana 10-11. nóvember.

 

Tromsø

Í Tromsø var fylgt dagskrá sem kennari hafði sett upp fyrir ferðina. Fyrsta daginn var skoðað Háskólann í Tromsø og bygginguna þar sem framhaldsnám í sjávarútvegsfræði og sjávarlíftækni eru kennd. Á öðrum degi var farið í rútu og keyrt til Senjahåpen og skoðað Nergård, en einnig voru skoðaðar höfuðstöðvar fyrirtækisins í Tromsø.

Önnur fyrirtæki sem voru einnig skoðuð voru seiðastöðin Elvevoll, fóðurverksmiðja Ewos – sem er einn stærsti fóðurframleiðandi í heimi, líftækniklasann Biotech North og höfuðstöðvar Norges sjømatsråd en það er fyrirtæki sem sérhæfir sig í markaðsetningu sjávarafurða í Noregi og starfar undir norska sjávarútvegsráðuneytinu. Ekki er hægt að segja annað en að fyrirtækin hafi tekið vel á móti hópnum í heimsóknunum, gaman er frá því að segja að við hittum útskrifaða sjávarútvegsfræðinga frá HA í bæði Nergården og Elvevoll.

 

Sjávarútvegsráðstefnan

Sjávarútvegsráðstefnan er haldin ár hvert og er styrkt af fyrirtækjum í sjávarútveginum, þar koma fram hinir ýmsu einstaklingar tengdir sjávarútveginum á málstofum og fyrirlestrum um allt sem tengist sjávarútvegi. Ráðstefnan í ár var tileinkuð konum í sjávarútvegi.

Það að mæta á sjávarútvegsráðstefnuna getur verið góð leið til þess að brúa bilið milli stúdenta og atvinnulífsins þar sem jafnan mætir rjómi sjávarútvegsins hér á landi á ráðstefnuna. Bæði þekkist að stúdentar kynnist hvor öðrum betur, fólki í greininni og mögulegum atvinnurekendum þess í náinni framtíð. En einnig hafa einstaklingar og fyrirtæki leitað til stúdenta á ráðstefnunni og sýnt þeim áhuga vegna samstarfs við vinnslu lokaverkefnis.

Fyrst og fremst var áhugavert að fylgjast með öllum málstofunum og því sem kom fram á fyrirlestrunum þar. Þá var gaman að sjá hversu fjölbreyttur hópur fólks tengist sjávarútveginum á einn eða annan hátt.

Það sem stóð upp úr á ráðstefnunni var kynning á sprotafyrirtækinu SideWind, en þeir hyggjast framleiða rafmagn á hafi úti með opnum gámi. Það á að geta framleitt 5-20% rafmagns sem skip nota. SideWind hlaut hvatningarverðlaun ráðstefnunnar fyrir þetta verkefni.

 

„Það að fara á sjávarútvegsráðstefnuna í Hörpu hefur veitt okkur ýmis tækifæri, þá helst til þess að kynnast fólki og fyrirtækjum í geiranum. Þessi reynsla mun án efa nýtast okkur vel, hvort sem það er við vinnslu og hugmyndasmíði vegna lokaverkefnis eða í jafnvel atvinnuleit framtíðarinnar.“

-          Hermann Biering og Guðdís Benný


 

Fræðslu- og menntunarsjóður SHA er sjóður sem stúdentar við Háskólann á Akureyri geta sótt til. Til dæmis fyrir útgáfustarfsemi, til að sækja ráðstefnur eða önnur verkefni sem felast í því að fræða eða rannsaka. Beiðnir fara fyrir stúdentaráði sem annaðhvort samþykkir eða hafnar beiðninni. Ef svo gerist að samþykkt beiðni sem hefur fengið styrk úr sjóðnum fellur niður, þarf sá aðili sem er ábyrgur fyrir verkefninu að endurgreiða styrkinn til SHA.

Formleg beiðni þarf að berast á netfangið sha@sha.is. Í beiðninni þarf eftirfarandi að koma fram:

  • Nafn, kennitala og símanúmer
  • Staðfesting á skólavist við Háskólann á Akureyri og í hvaða námi einstaklingurinn er
  • Hvað felst í verkefninu, rannsókn, ráðstefnu, opinberum fyrirlestrum, útgáfustarfsemi osfrv.
  • Fjármagnsupphæð (ATH. 50.000 kr. hámark)
  • Rökstuðningur fyrir því afhverju einstaklingurinn eigi að fá styrkinn.