Fræðslustyrkur veittur til Helgu Margrétar

SHA hefur ákveðið að veita fræðslustyrki að nýju. Fræðslu- og menntunarsjóður SHA er sjóður sem stúdentar við Háskólann á Akureyri geta sótt til. Til dæmis fyrir útgáfustarfsemi, til að sækja ráðstefnur eða önnur verkefni sem felast í því að fræða eða rannsaka. Beiðnir fara fyrir stúdentaráði sem annaðhvort samþykkir eða hafnar beiðninni. Ef svo gerist að samþykkt beiðni sem hefur fengið styrk úr sjóðnum fellur niður, þarf sá aðili sem er ábyrgur fyrir verkefninu að endurgreiða styrkinn til SHA.

Formleg beiðni þarf að berast á netfangið sha@sha.is. Í beiðninni þarf eftirfarandi að koma fram:

  • Nafn, kennitala og símanúmer
  • Staðfesting á skólavist við Háskólann á Akureyri og í hvaða námi einstaklingurinn er
  • Hvað felst í verkefninu, rannsókn, ráðstefnu, opinberum fyrirlestrum, útgáfustarfsemi osfrv.
  • Fjármagnsupphæð (ATH. 50.000 kr. hámark)
  • Rökstuðningur fyrir því afhverju einstaklingurinn eigi að fá styrkinn.

Fyrsti einstaklingurinn til þess að fá fræðslustyrk þetta skólaárið er Helga Margrét Jóhannesdóttir. Helga er meistaranemi í heilbrigðisvísindum sem framkvæmir nú eigindlega rannsókn sem miðar að því rannsaka reynslu nýútskrifaðra hjúkrunarfræðinga af fyrstu árunum í starfi. Hún mun skoða sérstaklega hvort að þátttakendur hafa áform um að leita á annan starfsvettvang og þá af hverju. Jafnframt verða tengsl áfalla í æsku við upplifun af starfi, kulnun og streitu; sem og upplifun þessa hóps af þætti stjórnenda skoðuð, með tilliti til viðhorfs þeirra til starfsins. Gögnum verður safnað með viðtölum við hjúkrunarfræðinga um allt land og sækir Helga um styrk fyrir ferðakostnaði. Við óskum Helgu Margréti góðs gengis í þessu verkefni.