Fullveldisdagurinn í Háskólanum á Akureyri

Fullveldisdegi Íslands verður að venju samkvæmt fagnað með hringingu Íslandsklukkunnar við Háskólann á Akureyri í dag. Það er fulltrúi stúdenta, Hermann Biering Ottósson, sem mun slá 21 högg - einu sinni fyrir hvert ár umfram árið 2000. Einnig mun SHA bjóða upp á smákökur og kakó í Miðborg á milli 14-16 í dag, 1. desember. 

Í tilefni dagsins ritar Nökkvi Alexander Rounak Jónsson, formaður Stúdentafélags Háskólans á Akureyri hugvekju:

Mikilvægi þess að brosa

 

Fullveldisdagur Íslands er af mörgum haldinn hátíðlegur. Þessi dagur markaði á sínum tíma kaflaskil í sjálfstæðisbaráttu Íslendinga. Þó svo að dagurinn sé gríðarlega mikilvægur í íslenskri sögu þá er hann einnig táknrænn fyrir sérstakan hóp innan samfélagsins, hóp stúdenta. Fyrsti desember er því ekki einungis fullveldisdagur okkar heldur einnig dagur stúdenta á Íslandi. Forverar mínir í Stúdentaráði Háskólans á Akureyri hafa nýtt þennan dag til þess að rita hugvekju með baráttuhug. Mig hins vegar langar að taka þennan dag og skrifa um geðheilbrigði og mikilvægi jákvæðs hugarfars á þessum tíma ársins. Það fer ekki á milli mála að þeir sem sækja háskólanám eigi sín skemmtilegustu ár á meðan námi stendur. Stúdentar kynnast allskonar fólki með mismunandi bakgrunn. Það er eitthvað svo ánægjulegt að fá þau forréttindi að tala opinskátt um sínar skoðanir, ræða heimsmálin sem og innanlandsmál á jöfnum grundvelli meðal stúdenta. Fá sér kaffibolla í mötuneytinu og setjast hjá samnemendum sínum eftir langan fyrirlestur þar sem allt á milli himins og jarðar er rætt. Það má þó ekki gleyma því að þessi forréttindi urðu ekki að veruleika á einni nóttu. Hagsmunabarátta stúdenta á Íslandi hefur verið gríðarleg og má segja að hún hafi byrjað þegar stúdentar ákváðu að halda 1. desember hátíðlegan árið 1922 og halda fjársöfnun fyrir byggingu stúdentagarðs. Talaði stórskáldið Halldór Laxness meðal annars um daginn sem hátíðardag stúdenta í ræðu sinni, 1. desember 1955.

Þó svo að þessi ágæti dagur sé sögulega mikilvægur meðal stúdenta má segja að hann gleymist svolítið í próflestri. Á þessum tíma eru prófatíðir að fara af stað og eru stúdenta djúpt sokknir í kennslubækur (á 21. öldinni mætti frekar segja djúpt sokknir í tölvuskjái). Prófkvíði er hins vegar fyrirbæri sem flest allir stúdentar tengja við og hefur verið í auknum mæli undanfarin ár og hefur ákall á geðheilbrigðisþjónustu aukist. Því það er ekki alltaf einfalt og auðvelt að vera stúdent. Í fyrra tók Háskólinn á Akureyri stórt skref í að koma til móts við stúdenta skólans í geðheilbrigðismálum og er starfandi sálfræðingur við Háskólann á Akureyri. Ég get ekki sagt það nægilega oft hversu mikilvægt það sé að þessi hópur hafi gott aðgengi að þessari þjónustu.

Jákvætt hugarfar er afar mikilvægt á þessum tíma. Prófatíðir geta verið strangar og er einfalt að gleyma sér í neikvæðninni, orð eins og „ég skil ekkert í þessu“ eða „ég held ég muni falla“ heyrast stundum innan veggja skólans sem og á öllum skólaþrepum. Ég reyni oft að segja eða allaveganna hugsa, vá hvað ég er heppinn að fá að taka próf eða þegar ég læri fyrir próf að horfa á þetta sem eitthvað sem fer inn í þekkingarbankann. Ég er þó ekki fullkominn og viðurkenni að fyrstu árin mín við skólann þá sagði ég þetta ófáu sinnum. Með tilkomu Covid þá áttaði ég mig á hversu mikilvægt það er að horfa á allt sem ég tek mér fyrir hendur með bros á vör og reyna að finna góðu og skemmtilegu fletina. Það hefur reynst erfitt en ég byrjaði að æfa brosið mitt í speglinum áður en ég fór út úr húsi og hefur það einungis aukið lífsánægju mína.

Því vil ég hvetja stúdenta til þess að brosa, horfa ávallt framávið, vera jákvæð og hugsa reglulega „ég get þetta!“.

Gangi ykkur vel í lokaprófunum og til hamingju með daginn stúdentar.

Nökkvi Alexander Rounak Jónsson,
Formaður Stúdentafélags Háskólans á Akureyri.