Kjörstjórn hefur lokað fyrir framboð í störf SHA, nefndir og ráð HA.

Klukkan 17:00 í dag þann 21. mars lokaði kjörstjórn fyrir framboð í störf Stúdentafélags Háskólans á Akureyri, nefndir og ráð HA. Hér að neðan má sjá lista yfir þau framboð sem hafa borist. Neðst í fréttinni má sjá lista yfir þau embætti sem ekki buðust framboð í og verður opnað fyrir framboð í þau embætti á aðalfundi félagsins þann 21. mars klukkan 17:00. Auk þess smá sjá upplýsingar um þau framboð sem bárust einungis eitt framboð í og teljast þeir einstaklingar því sjálfkjörnir.

Samkvæmt 29. gr. samþykkta SHA er kosið í embætti framkvæmdarstjórnar sem og önnur embætti og trúnaðarstörf á vegum félagsins rafrænt. Berist einungis eitt framboð í embætti, telst sá aðili sjálfkjörinn og þarf ekki að kjósa rafrænt í embættið. Þá kveða samþykktirnar á um það að berist ekki framboð í embætti, sé heimild til þess að opna fyrir framboð á aðalfundi og fer þá fram leynileg kosning á fundinum sjálfum þar sem fundargestir hafa atkvæðisrétt.

Tvö framboð bárust í embætti forseta Stúdentafélags Háskólans á Akureyri og tvö framboð bárust einnig í embætti varaforseta Stúdentafélags Háskólans á Akureyri.

Kosning er því hafin í embætti framkvæmdastjórnar Stúdentafélags Háskólans á Akureyri og verður hægt að kjósa til kl.14 fimmtudaginn 21. mars 2024. HÉR 


Hér fyrir neðan getið þið kynnt ykkur frambjóðendurna og hvetjum við ykkur til þess að kynna ykkur þá vel áður en þið kjósið.

Embætti forseta SHA:


Cristina-Silvia Cretu:

Kæru samnemendur,

 

Ég kynni hér með framboð mitt til embættis forseta Stúdentafélags Háskólans á Akureyri.

 

Ég hef verið virk í félagsstörfum, þar sem ég gegndi hlutverki formanns Þemis – félags laganema, og var fulltrúi laganema í stúdentaráði. Auk þess, hef ég notið þess að taka þátt í ótal marga fundi er varða hagsmunagæslu fyrir stúdenta. Sérstaklega vil ég nefna reynslu mína sem fulltrúi SHA á háskólafundi, fundi stjórnar Hug- og félagsvísindasviðs og landsþingi Landssambands Íslenskra Stúdenta. Þessi reynsla hefur ekki aðeins veitt mér innsýn í þær áskoranir og tækifæri sem stúdentar standa frammi fyrir, heldur hefur hún einnig búið mig undir að leiða og framfylgja breytingum sem hafa beinan ávinning fyrir stúdentasamfélagið.

 

Ásamt því að stunda laganám, hef ég unnið við fjölbreytt hlutastörf og tekið þátt í verkefnum sem hafa styrkt færni mína í skipulagningu viðburða, teymisstjórnun, og gagnrýnni hugsun. Ég hef fulla trú á því að þessi fjölbreytta reynsla muni gagnast mér vel í starfi sem forseti SHA, þar sem ég mun beita mér fyrir aukinni samvinnu og samhæfingu í félagslífi háskólans, bæði innan skólans og í samstarfi við aðra skóla.

 

Eitt af mínum helstu markmiðum sem forseti væri að vinna að róttækum breytingum á námslánakerfinu, til að tryggja að allir nemendur hafi jafna möguleika á að mennta sig án fjárhagslegra hindrana. Að auki legg ég áherslu á að auka þátttöku nemenda í ákvarðanatöku er varðar námsfyrirkomulag og útfærslu á sveigjanlegu námi.

 

Ég tel mig hafa sýnt fram á leiðtogahæfni, frumkvæði og ástríðu fyrir því að gera Háskólann á Akureyri að enn betri stað fyrir alla nemendur. Ég vona að þið treystið mér fyrir ykkar atkvæði og leyfi mér að leiða okkur í átt að bjartari framtíð fyrir stúdentasamfélagið.

 

Bestu kveðjur,

Cristina- Silvia Cretu




Silja Rún Friðriksdóttir:


Ég heiti Silja Rún og er sálfræðinemi við HA og býð mig fram sem forseti SHA fyrir starfsárið 2024-2025.

Á liðnu starfsári hef ég verið formaður Kynninganefndar SHA. Þá var ég varaforseti SHA á starfsárinu 2022-2023 og bý því yfir mikilvægri reynslu og dýrmætri þekkingu þegar kemur að því að leiða félagið til góðra verka.  

 

Ég brenn fyrir hagsmunagæslu stúdenta, ég vil að öll fái að blómstra í HA, á sínum forsendum. Ég býð fram krafta mína sem forseti til þess að vera til staðar fyrir ykkur öll. Hlusta á ykkur, eiga við ykkur samtal og koma málefnum ykkar á framfæri, til þess að við getum, saman, gert háskólann okkar enn betri.  

 

Jafnréttismál eru mér hugleikin og ég brenn fyrir jafnrétti fyrir öll, en ég er fulltrúi stúdenta í Jafnréttisráði. Vegna áhuga og metnaðar þá hef ég tekið öflugan þátt í Jafnréttisráði sl. tvö ár og hef m.a. tekið virkan þátt í endurskoðun Jafnréttisstefnu HA sem er í gangi.

 

Þegar ég var varaforseti SHA sat ég í fulltrúaráði LÍS þar sem ég tók virkan þátt og sat m.a. mánaðarlega fundi með Háskólaráðherra. Ég hef einnig sótt síðustu þrjú Landsþing Landssamtaka Íslenskra Stúdenta. Ég hef góða innsýn í þær fjölbreyttu nefndir og þau ráð sem stúdentar eiga sæti í innan HA og tel mig geta stutt stúdenta vel í sínum störfum. 

 

Ég er alin upp á sveitabæ rétt fyrir utan Varmahlíð, það má segja að ég sé lítil sveitatútta sem er til í allar þær áskoranir sem verða á vegi mínum í starfi. Ég er kannski ekki há í loftinu en ég er með háleit markmið, ég er staðföst, metnaðarfull og ákveðin. Ég er tilbúin til þess að gefa mig alla, fyrir ykkur öll. 

 

Elskum öll, verum góð við öll, virðum öll og setjum X við Silju Rún í forseta SHA! 


Embætti varaforseta SHA:

Hanna Karin Hermannsdóttir:


Ég heiti Hanna Karin og er stúdent við Kennaradeild og gef kost á mér sem varaforseti SHA fyrir starfsárið 2024-2025 en ég hef sinnt starfi varaforseta á starfsárinu sem er að líða. Ég hef tekist á við fjölmörg, krefjandi og fjölbreytt verkefni á starfsárinu og þekki því orðið háskólaumhverfið og baráttumál stúdenta vel. Ég tel mig hafa sinnt starfinu vel á liðnu starfsári og langar að bjóða stúdentum HA krafta mína áfram. Framkvæmdastjórn starfar í umboði Stúdentaráðs og fylgir verkefnum þeirra eftir. Mér finnst mikilvægt að ólíkar raddir stúdenta heyrist og að þátttaka stúdenta í málefnum háskólans sé virk. Það er mikilvægt að ætíð sé haft samráð við stúdenta í stefnumarkandi ákvörðunum háskólans og ég vil efla það góða samstarf sem þegar er til staðar á milli SHA og stjórnenda háskólans. Ég vill leggja mitt að mörkum við að upplýsa enn betur þau málefni og verkefni sem við í SHA sinnum. Enn fremur er ljóst að við stöndum á krefjandi tímum þar sem ljóst er að efla þarf námssamfélagið hér, vegna þeirrar staðreyndar að hér er sveigjanlegt námsframboð. Ég vil virkja Stúdentaráð til þess að vinna að því að efla námssamfélagið enn frekar með það að markmiði að stúdentar háskólans upplifi sig sem hluti af ákveðinni heild og sterku samfélagi. 

 

Þeir sem þekkja mig vita að það er alltaf hlátur og fjör í kringum mig. Ásamt því er ég áreiðanleg, einlæg og metnaðarfull. Ég vona að stúdentar við HA treysti mér til góðra

verka. Það er mikil vinna að starfa í framkvæmdastjórn, ég þekki þá vinnu vel og er tilbúin til að gefa mig alla fram í verkefnið! 

 

Elskum öll, verum góð við öll, virðum öll og setjum X við Hönnu í varaforseta SHA! 

 





Æsa Katrín Sigmundsdóttir:

Ég kynni hér fyrir ykkur framboð mitt í embætti varaforseta Stúdentafélgs Háskólans á Akureyri fyrir komandi skólaár.

Starfið langaði mig að sækja um vegna áhuga míns á hagsmunum og velferð stúdenta. Ég gengdi stöðu formanns nýsköpunar- og frumkvöðlanefndar og hef starfað með stúdentaráði síðasta starfsár. Eftir að hafa setið í stúdentaráði og fengið innsýn var ég ekki lengi að hugsa mig um að taka á skarið og er tilbúin að vinna að þeim áskorunum sem koma á borð framkvæmdarstjórnar.

Ég stunda nám á þriðja ári í sjávarútvegs- og viðskiptafræði og klára báðar gráðurnar að námi loknu. Ég tel að reynsla mín bæði úr námi og stjórnunarstörfum muni gagnast mér að halda vel í taumana sem varaforseti og þjóna stúdentum sem stunda nám við Háskólann á Akureyri.

Sem varaforseti væru mín markmið meðal annars að efla félagslíf og vinna að samstarfi við aðra háskóla, ásamt því að vinna að breytingum á námslánakerfinu og öðrum hlutum sem hjálpa stúdentum að stunda nám án örðugleika. Öll eigum við rétt á því að stunda nám og brenn ég fyrir því að reyna mitt besta að gera möguleika fyrir alla jafnari. Sveigjanlegt nám er gríðarlega stór hluti af því að allir geti látið drauma sína rætast og myndi ég vinna af því með framkvæmdastjórn og stúdentaráði að halda áfram með útfærslu þess.

Ég vonast til að þið, kæru samnemendur, treystið mér að leiða ykkur í samvinnu við framkvæmdarstjórn á komandi ári. Gerum þetta saman, því saman erum við sterkari.

Mínar bestu kveðjur,

Æsa Katrín Sigmundsdóttir


EKKI BÁRUST FRAMBOÐ Í EFTIRFARANDI EMBÆTTI OG ÓSKAR KJÖRSTJÓRN EFTIR FRAMBOÐUM Í ÞAU Á AÐALFUNDI:

Formaður Alþjóðanefndar

Formaður Viðburðarnefndar

Formaður Nýsköpunar- og frumkvöðlanefndar

Tveir varafulltrúar í gæðaráði

Skoðunarmaður reikninga

Fulltrúi í stjórn Félagsstofnunnar stúdenta á Akureyri til tveggja ára

Varafulltrúar í stjórn Félagsstofnunnar stúdenta á Akureyri (x2)

Fulltrúi í jafnréttisráð

Varafulltrúar í jafnréttisráð (x2)

Fulltrúar í umhverfisráði (x2)

Fulltrúar á háskólafund (x6)

Varafulltrúar á háskólafund (x6)

Fulltrúi í Vísindaráð

Varafulltrúi í Vísindaráð


ENGIN MÓTFRAMBOРBÁRUST Í EFTIRFARANDI STÖÐUR OG TELJAST ÞVÍ ALLIR SEM HAFA BOÐIРSIG FRAM SJÁLFKJÖRNIR.  EFTIRFARANDI FRAMBOРBÁRUST KJÖRSTJÓRN: 

Fjármálastjóri SHA: Ragnheiður Rós Kristjánsdóttir, viðskiptafræðinemi

Formaður Kynningarnefndar: Bryndís Eva Stefánsdóttir, kennaranemi

Fulltrúi stúdenta í Gæðaráði til tveggja ára: Rakel Rún Sigurðardóttir, nútímafræðinemi

Fulltrúi stúdenta í jafnréttisráði: Silja Rún Friðriksdóttir, sálfræðinemi


Niðurstöður kosninga verða kynntar á Aðalfundi SHA fimmtudaginn 21. mars kl. 17:00 í stofu M102.


Kveðja Kjörstjórn
Fanney Gunnarsdóttir, formaður Kjörstjórnar, 

Erla Salome Ólafsdóttir og Sóley Ösp Sverrisdóttir