Kjörstjórn hefur lokað fyrir framboð í störf SHA, nefndir og ráð HA.

Klukkan 13:15 þann 25. febrúar lokaði kjörstjórn fyrir framboð í störf Stúdentafélags Háskólans á Akureyri, nefndir og ráð HA. Hér að neðan má sjá lista yfir þau framboð sem hafa borist. Neðst í fréttinni má sjá lista yfir þau embætti sem ekki buðust framboð í og verður opnað fyrir framboð í þau embætti á aðalfundi félagsins þann 28. febrúar klukkan 13:15. Auk þess smá sjá upplýsingar um þau framboð sem bárust einungis eitt framboð í og teljast þeir einstaklingar því sjálfkjörnir. 

Samkvæmt 30. gr. laga SHA er kosið í embætti framkvæmdarstjórnar sem og önnur embætti og trúnaðarstörf á vegum félagsins rafrænt. Berist einungis eitt framboð í embætti, telst sá aðili sjálfkjörinn og þarf ekki að kjósa rafrænt í embættið. Þá kveða lögin á um það að berist ekki framboð í embætti, sé heimild til þess að opna fyrir framboð á aðalfundi og fer þá fram leynileg kosning á fundinum sjálfum þar sem fundargestir hafa atkvæðisrétt.

Tvö framboð hafa borist í embætti formanns Kynninganefndar og embætti formanns Viðburðanefndar SHA. Samkvæmt lögum félagsins fer kosningin fram rafrænt og hafa kjörseðlar nú þegar verið sendir út á HA-netföng stúdenta HA. Kosning stendur til klukkan 15:00 þann 27. febrúar n.k. hér að neðan getið þið kynnt ykkur frambjóðendurna og hvetjum við ykkur til þess að kynna ykkur þá vel áður en þið kjósið.

Formaður Kynninganefndar 

Agnes Ögmundsdóttir
Ég heiti Agnes Ögmundsdóttir og er á fyrsta ári í sálfræði. Á þessu skólaári hef ég setið í stjórn Kumpána sem nýnemafulltrúi og hef ég verið virk í hagsmunagæslu stúdenta. Ég hef mjög gaman af kynningarstörfum og hef verið að hjálpa mikið til með að kynna HA þetta árið, t.d. með því að taka þátt í myndbandi fyrir stóra háskóladaginn, hjálpa til á opnum dögum háskólans, bæði við að standa á bás og kynna mína deild sem og að labba með framhaldsskólanemum um skólann og sýna þeim aðstöðuna. Ég hef gaman af því að prófa eitthvað nýtt og takast á við krefjandi verkefni og því hef ég ákveðið að bjóða mig fram sem Formann Kynninganefndar. 
Fyrri formenn hafa unnið frábær störf við að kynna háskólann og vonast ég til þess að stúdentar Háskólans á Akureyri treysti mér til þess að viðhalda fjölbreyttu kynningarstarfi og efla það enn frekar. Ég er opin, skipulögð, hreinskilin og með góða samskiptahæfileika. Ég mun leggja mig alla fram í þetta starf. 

Aron Björn Guðmundsson
Ég heiti Aron Björn Guðmundsson og er 25 ára gamall. Ég er á öðru ári í lögreglu- og löggæslufræði við Háskólann á Akureyri.  Ég er varaformaður Forseta, aðildarfélags lögreglufræðinema. Ég hef mikinn áhuga á að sinna stöðu formanns kynninganefndar, þar sem ég hef tekið virkan þátt í störfum kynninganefndar og annarra nefnda frá því að ég hóf nám við HA. Þar á meðal hef ég kynnt skólann og námið fyrir nemendum framhaldsskóla á opnum dögum, haldið kynningaræðu í hátíðarsal skólans, kynningu á framhaldsskólum á Egilsstöðum og farið fyrir hönd skólans á tæknidaga í Neskaupstað. Næstkomandi laugardag 29. febrúar mun ég fara á Háskóladaginn fyrir sunnan fyrir hönd skólans og einnig taka virkan þátt í Háskóladeginum á Akureyri þann 7. mars. Ég tel mig geta sinnt verkefnum kynninganefndar með góðri samvisku, reynslu og skipulagi, betrumbæta þar sem við á og halda starfsemi hennar virkri og viðbúinni fyrir komandi skólaár. 

Formaður Viðburðanefndar 

Dagný Karlsdóttir 
Ég heiti Dagný Karlsdóttir og langar að bjóða mig fram sem formann Viðburnanefndar. Ég er 25 ára og er á öðru ári í lögreglu- og löggæslufræði. Undanfarin tvö ár hef ég tekið ríkan þátt í félagslífi skólans, meðal annars verið fulltrúi nemendafélagsins Forseta í viðburðanefnd, sem og setið í Stjórn Þemis sem nýnemafulltrúi. Í störfum mínum innan viðburðanefndarinnar hef ég tekið þátt í skipulagningu Sprellmótsins, bingókvölds, árshátíðar SHA og  safnað ótal styrkjum. Ég sé fram á að koma á legg skipulagi innan viðburðanefndar þar sem allir hafa ákveðin verkefni, svo auðveldara verði að fylgja þeim eftir. Ég hlakka mikið til komandi árs og vona bara að það verði fullt af spennandi og skemmtilegum viðburðum. 

Eydís Sigfúsdóttir 
Kæru samnemendur! Ég heiti Eydís Sigfúsdóttir og er á fyrsta ári í hjúkrunarfræði. Ég hef ákveðið að bjóða mig fram sem formann Viðburðanefndar fyrir næsta kjörtímabil. Ég var nýnemafulltrúi Eirar á síðasta skólaári og sat í Viðburðanefnd fyrir hönd félagsins. Ég hafði ótrúlega gaman af því að sjá afrakstur okkar í nefndina á viðburðum sem við stóðum fyrir. Eftir að hafa setið í nefndinni er ég reynslunni ríkari og tilbúin að taka enn meiri þátt og ábyrgð í að gera skólaárið sem eftirminnilegast. Ég er sömuleiðis spennt að takast á við að vinna í hagsmunamálum stúdenta sem meðlimur í stúdentaráði. Eftir því að hafa setið í nefndinni geri ég mér vel grein fyrir því hversu mikil vinna felst í formannsstarfinu en að sama skapi veit ég hvað þarf að gera til að gera góða veislu enn betri, eða þið vitið bara hvað þarf að gera til þess að láta hlutina verða að veruleika. Ég er samviskusöm, skipulögð, félagslynd og veit fátt skemmtilegra en að kynnast nýju fólki. Þessir kostir mínir munu eflaust koma sér vel í starfi formanns Viðburðanefndar. Ég vona að þið, kæru samnemendur mínir í HA, treystið mér til að taka við embætti formanns Viðburðanefndar og viðhalda þeim góða árangri sem fyrri formenn hafa náð til að efla félagslífið í skólanum okkar. Ég veit að félagslífið er bæði stór og mikilvægur partur af því að vera í háskóla og lofa ykkur hér með að ég mun leggja mig alla fram í starfið.

EKKI BÁRUST FRAMBOÐ Í EFTIRFARANDI EMBÆTTI OG ÓSKAR KJÖRSTJÓRN EFTIR FRAMBOÐUM Í ÞAU Á AÐALFUNDI: 

Einn fulltrúa til vara á Háskólaráðsfundi Háskólans á Akureyri til tveggja ára. 
Einn aðalfulltrúa og einn fulltrúa til vara í Gæðaráð til tveggja ára. 
Skoðunarmann reikninga Stúdentafélags Háskólans á Akureyri 
Einn fulltrúa til vara í stjórn FÉSTA til tveggja ára 
Tvö aðalfulltrúa og einn fulltrúa til vara í jafnréttisráð Háskólans á Akureyri 
Einn fulltrúa til vara í siðanefnd Háskólans á Akureyri 
Einn aðalfulltrúa og einn fulltrúa til vara í Vísindaráð til eins árs 
Einn aðalfulltrúa og þrjá fulltrúa til vara í Umhverfisráð Háskólans á Akureyri  
Tvo aðalfulltrúa og þrjá til vara á háskólafund Háskólans á Akureyri til eins árs 
Einn aðalfulltrúi og einn til vara í Kannanateymi Háskólans á Akureyri til eins árs 

Engin mótframboð bárust í eftirfarandi stöður og teljast því allir sem hafa boðið sig fram sjálfkjörnir.  Eftirfarandi framboð bárust kjörstjórn: 

Framkvæmdastjórn
Formaður: Steinunn Alda Gunnarsdóttir 
Varaformaður: Almar Knörr Hjaltason 
Fjármálastjóri: Guðrún Vaka Þorvaldsdóttir 

Formenn fastanefnda 
Formaður Alþjóðanefndar: Fríða Freydís Þrastardóttir 
Formaður Fjarnemanefndar: Sigrún Sól Jónsdóttir 
 
Fulltrúi í Háskólaráð Háskólans á Akureyri 
Aðalfulltrúi: Nökkvi Alexander Rounak Jónsson

Stjórn FÉSTA 
Aðalfulltrúi: Fríða Freydís Þrastardóttir 

Siðanefnd Háskólans á Akureyri 
Aðalfulltrúi: Sólveig Birna H. Elísabetardóttir 

Umhverfisráð Háskólans á Akureyri 
Tveir aðalfulltrúar: Guðrún Vaka Þorvaldsdóttir og Herdís Júlía Júlíusdóttir 

Háskólafundur Háskólans á Akureyri
Fjórir aðalfulltrúar: Sólveig Birna H. Elísabetardóttir, Steinunn Alda Gunnarsdóttir, Almar Knörr Hjaltason, Guðrún Vaka Þorvaldsdóttir