Kvartanir og málskotsréttur stúdenta - Hvernig er best að bera sig að

Eftirfarandi texti er tekinn úr Handbók nemenda en með örlitlum lagfæringum.
Ef þið hafið einhverjar spurningar ekki hika við að hafa samband við okkur á skrifstofu FSHA.

Kvartanir og málskotsréttur stúdenta
Ýmis mál geta komið upp meðan á námi stendur þar sem nemandi er ekki sáttur við ákvörðun háskólans eða telur að brotið hafi verið á rétti sínum sem nemanda. Slík mál geta t.d. varðað kennslu, próf, námsmat, einkunnagjöf, atriði er lúta að kennslu og námsmati eða annað er varðar skólann og veru nemenda þar. Í slíkum tilfellum er mikilvægt að nemandi geri sér grein fyrir rétti sínum, hvert og hvernig hann getur komið máli sínu á framfæri og hvar hægt er að leita ráðgjafar og aðstoðar. 

Óformlegar fyrirspurnir – ráðgjöf
Áður en nemandi ákveður að leggja fram formlega kvörtun ber að ræða umkvörtunarefnið við viðkomandi starfsmann - eða að fá fulltrúa sinn til þess. Með því móti er oft hægt að ná ásættanlegri niðurstöðu fyrir viðkomandi aðila, nemanda og starfsmann, án þess að kvörtunin þurfi að fara í formlegra ferli. Við slíkar óformlegar viðræður skal þó ávallt hafa í huga siðareglur háskólans og skyldu nemenda og starfsmanna til þess að koma fram við hvort annað af virðingu, ábyrgð og réttlæti. Ef nemanda finnst erfitt að nálgast viðkomandi starfsmann persónulega eru aðilar og samtök innan háskólans sem geta veitt nemanda ráð eða verið milliliðir í samskiptum milli nemanda og háskólans, hér að neðan má sjá þá aðila sem eiga að vera nemendum innan handar:

Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri (FSHA) eru hagsmunasamtök stúdenta. Innan FSHA starfar sérstakt ráð, stúdentaráð, sem getur aðstoðað nemendur varðandi kvörtunarefni. Skrifstofa þeirra er staðsett í G - álmu og er opin frá 14.00 – 16.00 alla virka daga, einnig má senda þeim tölvupóst á fsha@fsha.is. Einnig eiga nemendur fulltrúa sína í ýmsum nefndum og ráðum innan háskólans sem hægt er að leita til með erindi. Hægt er að fá upplýsingar um þessa fulltrúa á skrifstofu FSHA eða á heimasíðu félagsins, www.fsha.is.

Náms- og starfsráðgjöf Háskólans á Akureyri er nemendum til aðstoðar og ráðgjafar varðandi nám og persónulega hagi og sinnir einnig hagsmunagæslu fyrir nemendur. Skrifstofa námsráðgjafar er til húsa í E-húsi á Sólborg. Opnir viðtalstímar eru virka daga frá 13.30 – 14.30 á haust- og vormisseri. Tímapantanir eru teknar í tölvupósti náms– og starfsráðgjafa radgjof@unak.is, einnig er hægt að hringja í síma 460 8034 og leggja inn skilaboð á talhólf.

Þá er hægt að leita ráða hjá skrifstofum og stjórnendum fræðasviða og kennurum og starfsfólki í stoðuþjónustu. 

Formlegar kvartanir
Telji nemandi að brotið hafi verið á rétti sínum getur hann lagt fram formlega kvörtun. Vegna slíkrar kvörtunar á að fylla út þar til gert rafrænt eyðublað sem hægt er að nálgast  á innra neti nemenda Uglu undir flipanum Háskólinn-Gæðamál. Gæðastjóri tekur við kvörtuninni og beinir henni til viðkomandi aðila innan þriggja virkra daga. Yfirmaður viðkomandi starfseiningar tekur við málinu, hefur samband við málsaðila og skoðar málsatvik. Yfirmaður skal birta úrskurð innan tíu virkra daga frá því að honum barst erindið sem hann tilkynnir málsaðilum. 

Úrskurðarnefnd
Sé nemandi ekki sáttur við úrskurð yfirmanns getur hann kært úrskurðinn til úrskurðarnefndar háskólans. Úrskurðarnefnd háskólans er skipuð þremur starfsmönnum, einum fulltrúa akademískra starfsmanna, einum fulltrúa stoðþjónustu og stjórnsýslu og einum fulltrúa nemenda. Nefndin er skipuð sérstaklega fyrir hvert einstaka mál og gæta skal þess að nefndarmenn eigi engra hagsmuna að gæta í viðkomandi máli. Stjórnsýslulög. Úrskurðarnefnd háskólans hefur lokaorð varðandi mál innan háskólans. Nemendur geta hins vegar áfrýjað ákvörðun úrskurðarnefndar fyrir áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema skv. 20. gr. Laga um háskóla nr. 63/2006

Áfrýjunarnefnd í kærumálum háskólanema
Hægt er að kæra úrskurð úrskurðarnefndar Háskólans á Akureyri til Áfrýjunarnefndar í kærumálum háskólanema í málefnum er varða:

  1. Framkvæmd prófa og námsmats, þ.m.t. fyrirlögn prófa, tilhögun einkunnagjafar, skipun prófdómara og birtingu einkunna,
  2. Mat á námsframvindu, þ.m.t. rétt til endurtökuprófs,
  3. Afgreiðslu umsókna um skólavist, þ.m.t. tilhögun mats á námi á milli skóla,
  4. Brottvikningu nemanda úr skóla og beitingu annarra viðurlaga.

Áfrýjunarnefndin getur með úrskurði sínum staðfest, breytt eða fellt úr gildi ákvarðanir háskólans og eru úrskurðir nefndarinnar endanlegir á stjórnsýslustigi, skv. 2. gr. Reglna um áfrýjunarnefnd í kærumálum nr. 1152/2006

Beiðni um úrskurð nefndarinnar skal vera skrifleg þar sem kæruefnið komi skýrt fram og rökstutt. Nefndinni ber að fjalla um kæruefnið eins fljótt og auðið er, miðað er við að úrskurður sé kveðinn upp innan tveggja mánaða frá þvi nefndinni barst kæran í hendur. Sé málið viðamikið og fyrirsjáanlegt að afgreiðslan muni taka lengri tíma skal nefndin tilkynna viðkomandi það og tilgreina hvenær afgreiðslu sé að vænta. Afgreiðslutími má þó aldrei vera lengri en þrír mánuðir skv. 3. gr. R. nr. 1152/2006.

Lög og reglur
Í þeim aðstæðum er nemandi þarf að eiga í formlegum samskiptum við Háskólann eða aðra opinbera stofnun getur verið ómetanlegt að kynna sér þau lög og reglur er gilda um opinberar stofnanir. Nægir þá yfirleitt að skoða stjórnsýslulögin nr. 37/1993, en þar koma fram reglur er afmarka hvernig stjórnvaldi ber að haga sér í samskiptum við almenna borgara og hvaða viðmið þau þurfa að setja við ákvarðanatöku. Hér á eftir munum við stuttlega líta yfir helstu reglur sem stjórnvöld þurfa að fylgja í öllum sínum ákvarðanatökum.

Leiðbeiningarskylda
Stjórnvald skal veita þeim sem til þess leita nauðsynlega aðstoð og leiðbeiningar varðandi þau mál sem snerta starfssvið þess.
Berist stjórnvaldi skriflegt erindi, sem ekki snertir starfssvið þess, ber því að framsenda erindið á réttan stað svo fljótt sem unnt er.

Málshraði
Ákvarðanir í málum skulu teknar svo fljótt sem unnt er.
Þar sem leitað er umsagnar skal það gert við fyrstu hentugleika. Ef leita þarf eftir fleiri en einni umsögn skal það gert samtímis þar sem því verður við komið. Stjórnvald skal tiltaka fyrir hvaða tíma óskað er eftir að umsagnaraðili láti í té umsögn sína.
Þegar fyrirsjáanlegt er að afgreiðsla máls muni tefjast ber að skýra aðila máls frá því. Skal þá upplýsa um ástæður tafanna og hvenær ákvörðunar sé að vænta.
Dragist afgreiðsla máls óhæfilega er heimilt að kæra það til þess stjórnvalds sem ákvörðun í málinu verður kærð til.

Rannsóknarreglan
Stjórnvald skal sjá til þess að mál sé nægjanlega upplýst áður en ákvörðun er tekin í því. 

Jafnræðisreglan
Við úrlausn mála skulu stjórnvöld gæta samræmis og jafnræðis í lagalegu tilliti.
Óheimilt er að mismuna aðilum við úrlausn mála á grundvelli sjónarmiða, byggðum á kynferði þeirra, kynþætti, litarhætti, þjóðerni, trúarbrögðum, stjórnmálaskoðunum, þjóðfélagsstöðu, ætterni eða öðrum sambærilegum ástæðum.

Meðalhófsreglan
Stjórnvald skal því aðeins taka íþyngjandi ákvörðun þegar lögmætu markmiði, sem að er stefnt, verður ekki náð með öðru og vægara móti. Skal þess þá gætt að ekki sé farið strangar í sakirnar en nauðsyn ber til.

Umboðsmaður Alþingis
Hlutverk Umboðsmanns Alþingis er að hafa eftirlit með starfssemi opinberra stofnana, og sjá til  , að þær fari eftir settum lögum og reglum við starfsemi sína og tryggja rétt borgaranna gagnvart viðkomandi stjórnvaldi. Ef nemandi telur að sig hafa verið beittan ranglæti af háskólanum eða að starfsemi háskólans hafi ekki verið samkvæmt lögum og reglum sem um hann gilda getur viðkomandi nemandi sent kvörtun til Umboðsmanns Alþingis. Á heimasíðu Umboðsmanns Alþingis má nálgast allar upplýsingar varðandi starfsemi hans og kvörtunareyðublað.