Landsþing og 10. ára afmæli LÍS

Það var kraftur í stúdentum þegar landsþing LÍS – Landssamtaka íslenskra stúdenta – fór fram í Háskólanum á Akureyri dagana 29. mars til 1. apríl. Á landsþingi LÍS koma saman stúdentafulltrúar frá aðildarfélögum LÍS, þ.e. frá öllum háskólum landsins, sem og fulltrúar frá Sambandi íslenskra námsmanna erlendis. Landsþingið er stærsti samráðsvettvangur stúdenta á Íslandi og þar gefst færi á að skiptast á skoðunum, rökræða og fá innsýn í baráttumál stúdenta á öðrum sviðum. 

Þingið var vel sótt af fulltrúum stúdenta úr flestum hagsmunasamtökum stúdenta á Íslandi og mikilvæg málefni voru rædd. Þingið skiptist uppí fyrirlestra, vinnustofur, laga- og stefnubreytingar. Yfirskrift þingsins var Fjölskyldumál stúdenta og hlýddu stúdentar á fyrirlestra og sóttu vinnustofur tengdar fjölskyldumálum stúdenta og þeim áskorunum sem þeim fylgja. Í samantekt af vinnustofum var það skýrt að stúdentar kalla eftir sveigjanleika þar sem fyrirlestrar eru teknir upp og að það sé ekki skyldumæting í kennslustundir. Það er mikilvæg krafa til þess að geta mætt þörfum fjölskyldufólks og þannig stuðlað að auknu menntunarstigi þjóðarinnar.

Fulltrúar SHA voru 5 talsins þær Dagmar Ólína Gunnlaugsdóttir, Erla Salome Ólafsdóttir, Lilja Margrét Óskarsdóttir, Silja Rún Friðriksdóttir og Sólveig Birna Elísabetardóttir og stóðu þær sig með prýði og tóku virkan þátt í umræðum. Sólveig Birna sá um að stýra vinnustofum en hún var einnig í Landsþingsnefnd og sá um að skipuleggja þingið.

Silja Rún og Sólveig Birna hafa verið fulltrúar SHA í fulltrúaráði LÍS og Dagmar Ólína og Erla Salome hafa verið öflugar í Gæðanefnd LÍS. Þær munu allar halda áfram í LÍS næsta skólaár.