Möguleg sameining Háskólans á Akureyri og Háskólans á Bifröst

 

Háskólasvæðið | Háskólinn á Akureyri
Fyrstu fréttir af samtali og mögulegri sameiningu háskólanna tveggja komu okkur á óvart, sérsaklega vegna þeirra einföldu staðreyndar að um er að ræða ólíkt rekstrarfyrirkomulag.  

Þá einnig vegna þeirrar staðreyndar að árið 2015 og 2021 komst úttektarhópur Gæðaráðs íslenskra háskóla að þeirri niðurstöðu að hann beri takmarkað traust til núverandi starfshátta og getu Háskólans á Bifröst til að tryggja gæði þeirra gráða sem hann veitir. Í ljósi yfirlýsinga ráðherra háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunar og skoðana ráðuneytisins á fjölda háskóla veltum við því fyrir okkur hver raunverulegur tilgangur og markmið mögulegrar sameiningar er. Háskólinn á Akureyri stendur sterkur og hefur komið vel út úr gæðaúttektum, sú nýjasta staðfestir það. Er hagurinn í sameiningu meiri fyrir annan háskólann?  

SHA óskar eftir því og leggur ríka áherslu á að fá að koma að borðinu og vera upplýst um gang mála í því samtali sem þegar er farið af stað. Þá teljum við nauðsynlegt að verði að sameiningu verði það ekki bara sameiningannar vegna heldur af þeim forsendum að það muni auka gæði, styrkja og efla nám og námssamfélag stúdenta.  

SHA hefur sérstakar áhyggjur af því hve ólíkt rekstrarfyrirkomulag háskólanna er. Um er að ræða annars vegar ríkisrekinn háskóla þar sem stúdentar greiða einungis skráningargjöld og hins vegar einkarekinn og ríkisstyrktan háskóla þar sem stúdentar greiða skólagjöld. Við teljum nauðsynlegt að ákveðin forsenda í samtali háskólanna sé að halda í rekstrarfyrirkomulag Háskólans á Akureyri. Það er nauðsynlegt að íbúar á landsbyggðunum hafi greiðan aðgang að háskólanámi eins og raunin er í dag. Ef farin yrði sú leið að einkavæða Háskólann á Akureyri myndi það þýða skólagjöld sem myndu leiða að sér mikla takmörkun á möguleikum einstaklinga á landsbyggðinni til háskólanáms. Við viljum því hvetja Háskólaráð til að senda skýr skilaboð til þeirra sem leiða samtalið fyrir hönd Háskólans á Akureyri að standa fast í lappirnar og vera ákveðin hvað þennan þátt varðar. Hér þarf ekki að tvínóna um þau jákvæðu áhrif sem Háskólinn á Akureyri hefur haft á byggðaþróun í landinu öllu. 

SHA treystir starfandi rektor vel fyrir því að vandað verði til verka og vel verði staðið að fýsileikakönnun þar sem tryggt verður aðkoma stúdenta. Verði niðurstaða vinnunnar sem nú er að hefjast sameining háskólanna tveggja leggjum við ríka áherslu á að það verði gert með það að markmiði að auka fjölbreytileika námsframboðs, efla gæði náms og kennslu og styrkja stoðþjónustu við stúdenta. Enn fremur að það verði leiðarljós að Háskólinn á Akureyri verði áfram Háskóli alls Íslands sem efli byggðaþróun í landinu öllu og veiti fleirum aðgengi að gæða menntun með sama rekstarfyrirkomulagi og er í dag þar sem stúdentar greiða skráningargjöld en ekki skólagjöld.“