Niðurstaða úr könnun til stúdenta um stefnu HA


Á vinnufundi Stúdentafélags Háskólans á Akureyri þann 6. október voru meðal annars lögð fyrir verkefni og spurningar sem tengjast stefnumótunarvinnu Háskólans á Akureyri. Í kjölfar vinnufundarins sendi Stúdentaráð út könnun á alla stúdenta háskólans og gaf þeim færi á að koma skoðunum sínum varðandi stefnu háskólans á framfæri.  

Óskandi hefði verið að fleiri stúdentar hefðu gefið sér tíma til þess að svara könnuninni og tjá skoðanir sínar. Alls bárust 104 svör og er vert að þakka þeim stúdentum sem gáfu sér tíma til þess að svara fyrir það, þar sem svör þeirra eru vel ígrunduð og ítarleg og við teljum að þau geti gagnast vel í þeirri vinnu sem háskólinn er í varðandi stefnu sína.  

Allar spurningarnar nema ein voru opnar spurningar. Lokaða spurningin var: Telur þú mikilvægt að allar deildir háskólans hafi skyldumætingu í lotu a.m.k. einu sinni á misseri? 

Allar deildir innan HA bjóða upp á staðlotur og er það mismunandi eftir deildum hvort í þær er skyldumæting eða valfrjáls mæting. Meirihluti þeirra sem svöruðu könnuninni svaraði þessari spurningu játandi, eða 67,9% stúdenta. Það gefur til kynna að stúdentar vilji halda í skyldumætingu og telja hana vera nauðsynlega. 

Í framhaldi af þeirri spurningu var spurt: Hvernig telur þú að lotur ættu að vera skipulagðar til þess að stúdentar sjái hag sinn í því að mæta og taka þátt? 

Hér má sjá samantekt sem sýnir mörg góð ráð og ábendingar sem gætu aðstoðað háskólann við að bæta lotur og aðstæðurnar sem tengjast þeim, með það að markmiði að hagnýta og bæta námsupplifun stúdenta:  

  • Bjóða upp á lengri lotur (fleiri daga) með fleiri tíma yfir daginn. 

  • Byggja upp fjölbreyttari kennsluaðferðir og hópverkefni sem veita hagnýta færni. 

  • Leggja áherslu á umræðutíma, verkefnamiðað nám og samveru með samnemendum. 

  • Lotur verði nýttar í hópavinnu þar sem stúdentar geta skapað samband við samnemendur og tengst námsefninu, þetta yrði gert með skyldumætingu. 

  • Skapa hagnýtar lotur sem hafa tilgang, tengjast námsefninu og skila gagnlegri kennslu fyrir stúdenta. 

  • Taka tillit til fjölbreytileikans.  

  • Bæta kennslu og umhverfi lotanna með því að leggja áherslu á verklega kennslu, fjölbreytt námssamskipti og „hands on“ verkefni. 

  • Skapa hagsmuni stúdentanna með því að búa til verkefni sem tengjast lotunum, bjóða upp á umræðutíma og samstarfsmöguleika, og láta mætingu gilda sem hluta af einkunn. 

  • Vera samkenndar og bæta hæfni kennara til að stuðla að góðum samskiptum og námsefni og efla þar með námsupplifun stúdentanna.  

  • Að farið sé í fyrirtækjaheimsóknir, fengnir séu gestafyrirlesarar og unnin séu hagnýt verkefni í lotum sem gilda.  

  • Að þú sjáir hag þinn í því að mæta í lotu. Ef þú getur með engu móti mætt skilar þú einhverju verkefni. Lotan á þó að vera þannig að þú viljir alls ekki missa af henni.  

Flest allir sem svöruðu könnuninni voru sammála um að nýta mætti loturnar betur, í eitthvað sem ekki er hægt að gera rafrænt. Lotur eiga að vera ómissandi og stúdentum á að finnast nauðsynlegt að mæta í lotur. Það heyrast gjarnan gagnrýnisraddir þegar stúdentar eru ósáttir við að þurfa að mæta í lotu. En þá er vert að spyrja sig, hvers vegna er ósættið? Er ósættið kannski vegna þess að lotan var ekki nægilega vel framkvæmd síðast og stúdentar sáu ekki hag sinn í því að mæta? Er ástæðan sú að í lotunni var framkvæmt eitthvað sem eins hefði verið hægt að gera í gegnum skýin? Stúdentaráð telur mikilvægt að deildir háskólans fari í vinnu við það að efla og styrkja loturnar; gera þær metnaðarfullar og eftirsóknarverðar. Það er stór partur af því að vera í háskóla að taka þátt í samfélagi og í lotum skapast einstakt tækifæri til þess. Þá er mikilvægt að búa stúdenta undir það sem koma skal að námi loknu og í lotum skapast einmitt tækifæri til þess. Við hvetjum deildir háskólans til þess að nýta loturnar til þess að tengja námsefnið við raunveruleikann, hugsa út fyrir kassann og gera eitthvað nýtt. Kalla eftir skoðunum frá stúdentum og fá hugmyndir. Hér getum við og eigum að vera í fremstu röð, enda hefur Háskólinn á Akureyri verið þekktur fyrir það að vera persónulegur háskóli með einstakt námssamfélag. Eflum það og styrkjum. Það er ákall eftir því í síðustu gæðaúttekt að gera akkúrat það og núna, í þeirri stefnumótunarvinnu sem er í gangi, hafa deildir einstakt tækifæri til þess að bregðast við þeirri gagnrýni og gera enn betur. 

Hér verða dregin saman svör við opnu spurningunum í könnuninni. 

Spurt var um aðstæður og hagsmuni stúdenta: Hvað er mikilvægt að leggja áherslu á í stefnu HA til að koma til móts við aðstæður og hagsmuni stúdenta? Hér eru þau svör sem voru hvað mest áberandi og komu oftast fram: 

  • Námsumhverfi stúdenta: Mikilvægt er að taka tillit til mismunandi aðstæðna stúdenta og búa til fjölbreytt námsumhverfi sem hentar öllum. 

  • Mikilvægt er að stefna háskólans taki mark á gagnrýni stúdenta og að háskólinn leggi áherslu á opin samskipti milli stúdenta og starfsfólks skólans. 

  • Háskólinn á að leggja áherslu á jafnrétti stúdenta og veita gæðamenntun fyrir öll, óháð búsetu og fjárhagsstöðu.  

  • Háskólinn á að vera upplýstur um nýjustu stefnur í kennsluháttum, tækni og sjálfbærni og samræma nám við þær. 

  • Háskólinn á að vera stúdentaháskóli: Stúdentar vilja að háskólinn hugsi fyrst og fremst um stúdenta og setji þá í forgang og taki tillit til hagsmuna þeirra.  

  • Hraði samfélagsins: Bjóða upp á fjarnám í flestum fögum og vera með námshátt sem fylgir hraða samfélagsins.  

Margir stúdentar eiga erfitt með að tengja við stefnudrögin eins og þau eru í dag. Því var spurt: Hvernig er hægt að gera stefnu HA lifandi og áhugaverða til að öll geti tengt við hana, þá sérstaklega stúdentar? 

  • Mörg nefndu mikilvægi þess að gera stefnuna skýra og aðgengilega. Að skrifa hana á mannamáli og horfa á inngildingu og mikilvægi þess að öll skilji hvað er verið að meina með þeim orðum sem sett eru fram í stefnunni. Mikilvægi þess að hafa texta stuttan, hnitmiðaðan og skiljanlegan öllum. 

  • Þá var áberandi: Stefnan þarf að vera í takt við tímann og nútímaaðferðir. Háskólinn þarf að vera opinn fyrir því að nýta tækni og nútímaaðferðir í námi og kennslu. 

  • Mörg nefna betri og sterkari tengingu við atvinnulífið: Tengja námið við starfsreynslu, fá að kynnast fjölbreyttum störfum í gegnum námið og efla tengslanet stúdenta. 

  • Nokkur nefndu framtíðina: Hafa í huga hvernig námið mótar stúdenta fyrir það sem koma skal. 

  • Nokkur nefndu breiðan aldur stúdenta og mikilvægi þess að þörfum stúdenta í öllum aldursflokkum verði mætt. 

  • Áberandi var svörun um kennsluaðferðir þar sem lögð var áhersla á mikilvægi þess að hafa skemmtileg og eftirminnileg verkefni í kennslu sem örva nám, ekki aðeins fyrirlestra.  

  • Nokkur nefndu mikilvægi þess að auglýsa stefnuna vel og kynna hana á mannamáli á samfélagsmiðlum með það að markmiði að stúdentar og fjölbreyttari hópur tengi við hana og að hún veki áhuga hjá tilvonandi stúdentum. 

Þá komu einnig svör eins og: Hafa stefnuna fjölbreytta og hafa áhugaverða námsmöguleika, veita stúdentum möguleika á valnámskeiðum og fá stúdenta til að mæta í þau með ánægju. Að hafa fjölbreytta og skemmtilega kennslu, hafa persónulega tenginu við stúdenta.  

Sýn stúdenta á framtíð háskólans var könnuð með því að spyrja: Hvernig sérð þú Háskólann á Akureyri fyrir þér eftir 30 ár? 

Í þessari spurningu nefndu flest fleiri framhaldsnámsbrautir og eflingu framhaldsnáms.  

Gæðakennsla og ávallt hæfir kennarar var einnig áberandi þema í svörum: Stúdentar vilja góða kennslu með framúrskarandi kennurum sem hafa fjölbreytta kennsluhætti og námsmat.  

Þá var ný þróun og fjarnám einnig áberandi: Áhersla er á að vera í fremstu röð í fjarnámi og sérhæfingu. Stúdentar vilja jafnan aðgang að námi, að hlustað sé á skoðanir þeirra og að stuðlað sé að jafnvægi náms og félagslífs. Fleiri námsleiðir, bætt námsefni og aukið framboð í fjarnámi.  

Námsmat var mikið rætt. Þar var áberandi í svörum ósk um að hafa fjölbreyttari námsmatsaðferðir og minnka vægi lokaprófa. Enn sé ríkjandi páfagaukalærdómur þar sem lokapróf skipti mestu máli. Hér ætti háskólinn að taka ákveðna forystu og vera í fremstu röð þegar kemur að fjölbreyttu námsmati, þar sem lögð sé áhersla á að mæta hæfni, leikni og þekkingu stúdenta jafnt og þétt yfir misserið. Það stuðli að aukinni þátttöku stúdenta og efli hæfni þeirra og þekkingu mun frekar. 

Þá var einnig áberandi svörun er varðar námsefni. Stúdentar nefna úrelt námsefni; það sé mikilvægt að háskólinn leggi sig fram um að nota nýtt námsefni og þróa það í takt við samfélagið. Að stúdentar geti tengt við það og að það muni virkilega nýtast þeim í starfi. Að kennarar þurfi að hafa metnað fyrir starfi sínu. 

Þá leggja mörg í svörum sínum fram ákall um fleiri sérnámsleiðir og sérnám sem gangast samfélaginu á landsbyggðinni.  

Stúdentar í hjúkrunarfræði kalla eftir fleiri plássum í hjúkrunarfræði og breytingum á klásus.  

Stúdentar í sálfræði kalla eftir klínísku námi í sálfræði við HA og að það verði í boði í fjarnámi.  

Þá voru einnig áberandi svör eins og: Að HA verði framúrskarandi í tæknimálum og í tæknilegri kennslu. Að HA haldi áfram að vera leiðandi í fjarnámi og samstarfi við aðra háskóla. Einnig er ákall eftir aukinni áherslu á staðarnám, með það að markmiði að efla tengsl stúdenta og gefa þeim færi á að taka þátt í háskólasamfélaginu. Þó sé mikilvægt að hafa fjarnám enn í boði. Þá kalla margir eftir því að stúdentar hafi raunverulegt val um að velja fjar- eða staðarnám, og að það sé kennt á hvort á sinn hátt. Mörg vilja staðarnám og mörg vilja fjarnám. Hvað er sveigjanlegt nám? Þá var einnig vísun í bætta þjónustu fyrir erlenda stúdenta og samhæfingu deilda og verkefna. 

Í framhaldi var spurt: Hvað þarf að gera til þess að Háskólinn á Akureyri verði eins og þú sérð fyrir þér eftir 30 ár? Í þessum svörum voru þrjú ríkjandi þemu: 

Bætt námskerfi: 

  • Leggja áherslu á að borga hæfu fólki til að sinna verkefnunum 

  • Auka fjármögnun til opinberra háskóla til að bjóða upp á betra nám 

  • Halda vel utan um stúdentahópinn og styrkja stúdentaþjónustu enn frekar 

  • Einfalda fjarnám og nota góðar tæknilegar lausnir fyrir kennslu 

Bætt kennslu- og námsfyrirkomulag: 

  • Auka fjölda kennara og námsbrauta 

  • Styrkja samstarf við atvinnulífið og innleiða nýja þekkingu og aðferðir í námi 

  • Bæta gæðaeftirlit með námsefni, kennslu, námsmati og uppsetningu náms 

  • Efla staðarnám og háskólasamfélagið 

Aukin fjárhagslegur stuðningur: 

  • Auka innviði fyrir rannsóknaraðstöðu og kennslu 

  • Hækka ríkisframlag til opinberra háskóla 

  • Markaðssetja háskólann erlendis 

  • Endurskipuleggja kennsluhætti og námsleiðir 

Síðasta spurningin fjallaði um væntingar til náms við HA: Hvaða væntingar hefur þú til náms við Háskólann á Akureyri? Hér er samantekt á svörunum:  

  • Stúdentar hafa miklar væntingar til þess að nám við HA sé góður grunnur fyrir framtíðarstörf þeirra. 

  • Stúdentar vilja öðlast hagnýta þekkingu sem þeir nota á vinnumarkaði. 

  • Stúdentar gera ráð fyrir því að þeir séu vel staddir þegar þeir ljúka námi, og að þeir hafi tekið með sér árangurinn og færni í framtíðarstörfum sínum. 

  • Stúdentar láta það í ljós að þeir hafi miklar væntingar um gæði námsins og að það sé samkeppnishæft á vettvangi alþjóðlegrar menntunar. 

  • Stúdentar vonast til þess að námið muni styrkja þá sem fagmenn og auka þekkingu og reynslu þeirra á margbreytilegum sviðum. 

  • Stúdentar leggja áherslu á að þeir geti upplifað kennsluna sem skemmtilega, fjölbreytta og áhugaverða, og að hún innihaldi sveigjanleika og vettvang fyrir þá til að læra og rannsaka.  

  • Stúdentar vilja einnig að námið sé praktískara, svo þeir fái reynslu og þekkingu sem þeir kunna að nota í framtíðarstörfum sínum.  

  • Stúdentar leggja áherslu á gæði kennslu, innviða og umhverfis, og vilja vera stoltir af gráðunni sinni eftir útskrift.  

  • Stúdentar hafa væntingar um að námið við HA verði góður grunnur fyrir framtíðina og veganesti fyrir lífið.  

Von okkar er að þessi svör muni nýtast í þá stefnumótunarvinnu sem nú er í gangi. Mikilvægt er að skoðanir stúdenta komi til skila og að hlustað og tekið sé mark á þeim, enda væri Háskólinn á Akureyri ekki hér ef ekki væri fyrir stúdenta.  

Okkur þótti áhugavert hve mörg telja mikilvægt að það sé skyldumæting í lotur a.m.k. einu sinni á misseri. Stúdentaráð telur mikilvægt að það sé skyldumæting í lotur að því gefnu að þær séu vel nýttar. Ótal tækifæri felast í því að halda gæðastaðlotu á Akureyri og ættu kennarar háskólans að leggja metnað sinn í þær. Fjölmörg tækifæri eru til staðar og við megum ekki sofna á verðinum. Viðskiptadeild gæti til dæmis samkennt eina lotu á misseri, þar sem ekki er endilega verið að fara yfir það námsefni sem liggur fyrir í hverju námskeiði. Allir stúdentar á hverju námsári gætu mætt saman í lotu þar sem þeir hlýða á gestafyrirlesara, heimsækja fyrirtæki, stofna fyrirtæki, vinna raunhæf verkefni og svo framvegis. Tækifærin eru til staðar og nú er kominn tími til að setja markið hátt.  

Stúdentaráð vill efla námssamfélagið enn frekar. Hér var ríkjandi afar sterkt og gott námssamfélag sem stúdentar tóku þátt í. Það er að lifna við aftur eftir Covid, en til þess að það geti náð raunverulegu flugi þarf stuðning háskólans. Við teljum að skyldumæting í lotu a.m.k. einu sinni á misseri gæti verið öflugur og góður stuðningur til þess. Margir stúdentar búa yfir góðum hugmyndum um það hvernig hægt er að skipuleggja þessar lotur og erum við meira en tilbúin til þess að taka þátt í þeirri vinnu.