Nýnemadagar 2025

Skemmtilegasta vika ársins í Háskólanum á Akureyri fór fram dagana 26.–29. ágúst.
Þriðjudaginn 26. ágúst var nýnemadagur heilbrigðis-, viðskipta- og raunvísindasviðs. Fimmtudaginn 28. ágúst fór fram nýnemadagur hug- og félagsvísindasviðs og föstudaginn 29. ágúst var nýnemadagur fyrir skiptinema.
Dagskráin alla dagana var með sama sniði. Nemendur mættu í hátíðarsal skólans að morgni og fylgdu síðan fjölbreyttri dagskrá fram eftir degi.

SHA, í samstarfi við Rekstur fasteigna, bauð upp á hamborgara í hádeginu alla dagana. Á meðan á grillinu stóð kynntu fjölmörg fyrirtæki starfsemi sína á básum. Þar mátti meðal annars finna Orkusöluna, Visku og Nova, auk þess voru SHA, Ergi og QUTIE með bás.

Klukkan 15:00 á bæði þriðjudeginum og fimmtudeginum var hringt Íslandsklukkunni 25 sinnum. Kaja Rós nýnemi í hjúkrunarfræði hringdi klukkunni á þriðjudeginum og Ragnar Þór nýnemi í lögreglufræði hringdi klukkunni á fimmtudeginum. Eftir að klukkunni var hringt vorum við í SHA með stigaleik þar sem fólk kom sér saman í lið og áttu að safna sem flestum stigum í grennd við skólann og í skólanum. Leikurinn heppnaðist mjög vel og greinilegt var að nemendur skemmtu sér vel.

Aðildarfélögin stóðu fyrir skemmtunum fyrir nýnema bæði á þriðjudags- og fimmtudagskvöldi. Við í SHA héldum svo stórt nýnemapartý á Vamos á fimmtudagskvöldinu, og var mjög góð mæting og mikil stemming.

Við í SHA viljum þakka öllum sem komu að undirbúningi og framkvæmd nýnemadaganna. Vikan heppnaðist einstaklega vel og við erum ótrúlega ánægð með hvernig hún tókst í alla staði.