Ráðstefnan Arctic Circle í Hörpu 12.-14. október

Dagana 12.-14. október næstkomandi verður haldin stór og mikil alþjóðleg ráðstefna í Hörpu, sem felur í sér einstakt tækifæri fyrir nemendur og fræðimenn við Háskólann á Akureyri til að mynda ný og spennandi tengsl við alþjóðlega fræðimenn og fulltrúa atvinnulífs og stjórnmála á heimsvísu. Ráðstefnan nefnist Arctic Circle og eru dagskrárdrög og allar nánari upplýsingar að finna á heimasíðu hennar: http://www.arcticcircle.org/

Ákveðið hefur verið að Háskólinn á Akureyri fái sérstakt rúm í dagskránni fyrir kynningar á rannsóknum sem tengja má norðurslóðum á einn eða annan hátt. Málefni norðurslóða má tengja við öll fræðasvið HA og sem dæmi mun HA leggja sérstaka áherslu á heilbrigðisvísindi „Health and Well Being in Arctic Regions“  . Önnur viðfangsefni eru t.d. aðstæður í fámenni og dreifbýli og úrlausnarefni þeim tengd t.d. í menntakerfi og skólamálum, félags- og sálfræðiþjónustu, samgöngum og byggðaþróun, lögum og rétti, samstarfi ríkja og svæða, sjávarútvegi og siglingum, umhverfis-og loftslagsmálum, viðskiptatækifærum o.s.frv. Einnig má nefna ný úrlausnarefni samfélags og atvinnulífs í tengslum við loftslagsbreytingar og víðtækar afleiðingar þeirra á samfélagsþróun.Skilgreiningin á málefnum tengdum norðurslóðum er víðari en margan grunar og svo allir ættu að finna eitthvað við sitt hæfi!

Þeir sem vilja taka þátt í ráðstefnunni gera það sér að kostnaðarlausu, þ.e. greitt verður ráðstefnugjald,fargjald (rútur) og matur er innifalinn í ráðstefnunni. Nemendur þurfa eingöngu að útvega sér gistingu. Hér um að ræða alþjóðlega ráðstefnu með þátttakendum víðs vegar að í veröldinni og ráðstefnan felur einnig í sér mikla möguleika til tengslamyndunar. Hér er því um að ræða óvenjulegt tækifæri.

Þeir nemendur sem hafa áhuga á að fara á ráðstefnuna eru vinsamlegast beðnir að láta vita í síðasta lagi á föstudaginn (20. sept) með tölvupósti til Sigrúnar Vésteinsdóttur á RHA (sv@unak.is). Það væri Háskólanum á Akureyri mikils virði að sem flestir tækju þátt.