Sprellmótið hefur lengi verið einn vinsælasti viðburðurinn í félagslífi stúdenta við HA og kemur það varla á óvart. Um er að ræða einstakann viðburð sem þekkist hvergi annars staðar. Hátíðin hófst í ár á Akureyrarvelli þar sem aðildarfélögin mættu brosandi og syngjandi, klædd skemmtilegum búningum sem þau sýndu í fyrsta sinn. Þar fara einnig fram fyrstu keppnirnar, meðal annars pokahlaup og pýramídakeppni. Að þeim loknum fluttust leikarnir upp í háskóla þar sem fleiri keppnir tóku við eins og belghopp, blöðruboðhlaup og bjórþamb og enda leikarnir svo á glæsilegri hæfileikakeppni þar sem hvert félags sýnir atriði. Í dómnefnd er alltaf starfsfólk háskólans sem fulltrúar Stúdentaráðs vinna mikið með og í ár toppaði dómnefndin sig í búningum og voru þau einnig með sitt eigið atriði. Dómarar í ár voru Anna Karen, Clayton, Silja Rún, Sólveig María og Siggi á Borgum.
Kumpáni félag félagsvísinda- og sálfræðinema tók sigurinn í ár, Data félag tölvunar- og tæknifræðinema tók annað sætið og Stafnbúi félag auðlindanema í því þriðja. Öll félögin stóðu sig afar vel og ljóst var að keppnisandinn var mikill meðal þátttakenda.
Áður en leikar hefjast fá dómarar stigablað og fást X mörg stig fyrir hverja þraut sem keppt er í og aðra þætti eins og búninga, mútur, stemmingu og frágang svo fátt eitt sé nefnt.
Við í framkvæmdastjórn viljum þakka öllum stúdentum fyrir frábært Sprellmót, sérstakar þakkir fá dómararnir fimm fyrir að nenna að taka þátt í þessum degi með okkur, Valli og Leó fá einnig sérstakar þakkir fyrir sína vinnu á Sprellmótinu í ár. Einnig Rekstur fasteigna fyrir traustið og herliðið sem mætti að loknu Sprellmóti til að gera háskólann tilbúinn fyrir ráðstefnu morguninn eftir.