Stúdentafélag Háskólans á Akureyri

Á aðalfundi félagsins, þann 22. febrúar s.l. voru samþykktar heildstæðar lagabreytingar og hvetjum við félagsmenn, sem og starfsmenn skólans að kynna sér uppfærð lög félagsins hér

Að lagabreytingum unnu Berglind Ósk Guðmundsdóttir og Sólveig María Árnadóttir en þær lágu síðustu vikur yfir lögum félagsins. Markmið þeirra með lagabreytingunum voru meðal annars þau að gera starfsemi félagsins skilvirkari, auka fagleg vinnubrögð innan félagsins og efla félagið enn frekar þegar kemur að hagsmunagæslu stúdenta. Þá voru lagabreytingarnar lagðar fyrir þáverandi stúdentaráð auk þess sem örfáar athugasemdir bárust eftir að allir stúdentar háskólans fengu aðgang að lagabreytingunum. Þá þótti Berglindi og Sólveigu einstaklega skemmtilegt hversu líflegar umræður mynduðust um lagabreytingarnar á aðalfundinum sjálfum. 

Stærstu breytingarnar sem lagðar voru fram og samþykktar af aðalfundi varða nafn félagsins en það heitir nú Stúdentafélag Háskólans á Akureyri, skammstafað SHA. Framkvæmdastjórn vinnur nú að því að uppfæra helstu miðla félagsins og mun á næstunni skammstöfunin FSHA hverfa fyrir fullt og allt. 

Auk þess var samþykkt nafnabreyting á Félags- og menningarlífsnefnd og heitir nefndin nú Viðburðanefnd. Auk nafnabreytingarinnar er hlutverk nefndarinnar nú mun skilvirkara í lögum félagsins en hlutverk nefndarinanr er fyrst og fremst að standa fyrir viðburðum félagsins og halda uppi öflugu félagslífi fyrir stúdenta háskólans. Samhliða þessari breytingu er hlutverk stúdentaráðs nú mun skýrara í lögum félagsins og mun það nú einungis einblína á hagsmunagæslu stúdenta. 

Þá var sett á laggirnar ný fastanefnd, fjarnemanefnd. Hlutverk hennar er að gæta hagsmuna þeirra stúdenta sem stunda sveigjanlegt nám við háskólann og mun formaður nefndarinnar eiga sæti í stúdentaráði. Með þessari breytingu verður nú öllum aðildarfélögum gert skylt að hafa fulltrúa fjarnema innan sinna stjórnar. Þá mun stúdentaráð auglýsa eftir formanni nefndarinnar á næstu dögum.