Tilkynning frá rektor vegna mögulegra verkfalla SFR

Boðað hefur verið til verkfalla á vegum SFR í október og nóvember mánuði.  

Ef til verkfalls kemur þá falla niður þau störf sem félagsmenn SFR sinna við skólann. Áhrifin eru að þá daga sem verkfallsaðgerðir standa yfir er kennsluhúsnæði skólans að Sólborg lokað en starfsfólk hefur aðgengi að sínum vinnustöðvum á hefðbundinn hátt. Því er ljóst að hefðbundin kennsla sem skráð er í húsnæði skólans að Sólborg getur ekki farið fram á verkfallstímanum. Kennsluhúsnæði skólans verður lokað 15. október en opnar aftur daganna 17. og 18. október.  Kennsluhúsnæðið er svo lokað aftur 19. og 20. október ef samningar nást ekki fyrir þann tíma.

Matsalur og lesrými bókasafns verður aðgengilegt nemendum sem hafa aðgangskort líkt og um helgi væri að ræða.  Gengið er um dyr við bókasafn og skrifstofu FSHA (Félag stúdenta). Nemendur og starfsfólk eru vinsamlegast beðin um að sýna sérstaklega góða umgengni á þessum tíma.

Verkfallið hefur ekki áhrif á starfsemi að Borgum og verður kennsla þar með hefðbundnum hætti.

 Boðuð verkföll munu hafa áhrif á Háskólann á Akureyri á eftirtöldum dögum:

15. – 16 október

19. – 20. október

29. – 30. október

2. – 3. nóvember

12. – 13. nóvember

Frá 16. nóvember yrði ótímabundið verkfall.

 Hægt er að nálgast upplýsingar um boðuð verkföll á heimasíðu SFR (http://www.sfr.is/kaup-og-kjor/samningar-2015/verkfall-2015/).   

Það er von mín og vissa að starfsfólk og nemendur skólans taki þeirri röskun sem orðið getur af verkfallsaðgerðunum af rósemi og virðingu við sitt samstarfsfólk.

Bestu kveðjur

Eyjólfur Guðmundsson, rektor

Háskólinn á Akureyri