Vegna lokaprófa á vormisseri

Gert er ráð fyrir því að lokapróf á vormisseri verði með þeim hætti sem tilgreint var í upphafi misseris í hverju námskeiði. Deildir og fræðasvið munu því þurfa að hefja undirbúning lokaprófa eins og tilkynnt var í kennsluáætlun hvers námskeiðs. En eins og við öll vitum þá breytast aðstæður í samfélaginu mjög hratt. Það verður því tekið tillit til þeirra breytinga sem eiga sér stað. Segjum svo að fjórða bylgja fari af stað fyrir eða í miðri prófatíð þá mun háskólinn bregðast hratt við með sértækum hætti.

Hér fyrir neðan má sjá tilkynninguna sem rektor sendi frá sér í dag: 

"Ágætu stúdentar og samstarfsfólk,

Undir núgildandi sóttvarnarreglum er gert ráð fyrir því að prófahald í maí verði með þeim hætti sem tilgreint var í upphafi misseris í hverju námskeiði. Deildir og fræðasvið munu því hefja undirbúning lokaprófa líkt og tilkynnt hefur verið í kennsluáætlun hvers námskeiðs.

 Þetta getur þó breyst með stuttum fyrirvara í ljósi breytinga á sóttvarnarreglum. Ef fjórða bylgja fer af stað fyrir eða í miðri prófatíð má alltaf gera ráð fyrir því að bregðast þurfi við aðstæðum með skjótum og sértækum hætti. En við getum öll gert okkar til þess að svo verði ekki!

 Af síðustu fréttum er ljóst að veiran er enn í okkar samfélagi og sóttvarnarlæknir hefur áhyggjur – og þá höfum við áhyggjur líka. Verum á varðbergi og munum að við erum öll almannavarnir.

  • Verum heima ef við finnum fyrir minnstu einkennum og förum í sýnatöku
  • Handþvottur oft á dag, handspritt þess á milli
  • Notum grímur – líka þegar við göngum í gegnum önnur sóttvarnarhólf
  • Höldum fjarlægðartakmörkunum (1 metri)
  • Munum að snertifletir eru líka smitleiðir – sprittum bæði hendur og snertifleti

Til að halda veirunni niðri verðum við öll að vinna saman – þetta er ekki búið fyrr enn náðst hefur að bólusetja góðan meirihluta þjóðarinnar. Þangað til skiptir okkar eigin hegðun og persónulegu sóttvarnir öllu máli. Stöndum saman og gætum sérstaklega vel að öllum sóttvörnum, forðumst stór mannamót og höldum áfram í okkar sóttvarnarbúbblum. 

Með vinsemd og virðingu fyrir samheldni okkar allra,

Eyjólfur Guðmundsson, rektor"