Yfirlýsing SHA vegna umræðu um fjármögnun opinberra háskóla

 

 

Stúdentafélag Háskólans á Akureyri telur rétt að bregðast við þeim umræðum sem uppi eru um fjármögnun opinberra háskóla. SHA gagnrýnir að háskólayfirvöld hafi óskað eftir hækkun skrásetningargjalda í 95.000 kr. eftir umræður um fjárlög á þingi.

 

 

 

 

 

 _____



Yfirlýsing Stúdentafélags Háskólans á Akureyri 
vegna umræðu um fjármögnun opinberra háskóla


                                                                                                                                                                             1. mars 2023

Stúdentafélag Háskólans á Akureyri telur rétt að bregðast við þeim umræðum sem uppi eru um fjármögnun opinberra háskóla. SHA gagnrýnir að háskólayfirvöld hafi óskað eftir hækkun skrásetningargjalda í 95.000 kr. eftir umræður um fjárlög á þingi.

Stúdentar hafa lengi kallað eftir umræðum um fjármögnun opinberra háskóla hér á landi og dregið í efa þær aðferðir sem beitt er við að fjármagna skólana. Það er lögbundið hlutverk hins opinbera að fjármagna rekstur háskólanna en því hlutverki virðist ekki hafa verið sinnt almennilega og nú á að bjarga málunum með því að leggja aukakostnað á stúdenta.

Hér á landi eru tekjur á ársnema 2,9 milljónir á meðan meðaltalið hjá hinum Norðurlöndunum eru 4,2 milljónir á ársnema. Ástæðan er sú að opinberir háskólar á Íslandi eru ekki fjármagnaðir á sama hátt og sambærilegir skólar annarsstaðar á Norðurlöndunum. Ef verður að þeirri hækkun sem skólayfirvöld hafa óskað eftir mun það hafa mikil áhrif á stúdenta, nú í dag og síðar meir. Þrátt fyrir það er þetta í raun ekki nema smávægileg bót í stórt gat hvað varðar fjármögnun opinberra háskóla hérlendis. Það ætti að vera á ábyrgð stjórnvalda en ekki stúdenta að fjármagna rekstur opinberra háskóla, enda er það ákvörðun stjórnvalda að reka háskóla hér á landi. Samhliða þeirri ákvörðun ættu stjórnvöld að ganga úr skugga um að opinberir háskólar hérlendis séu samkeppnishæfir sambærilegum háskólum í nágrannalöndum okkar. Til þess að hægt sé að að tryggja samkeppnishæfni íslenskrar háskólamenntunar þurfa fjárveitingar að koma frá ríkinu.

Núverandi skrásetningargjöld fela nú þegar í sér álögur á stúdenta og hefur það m.a. í för með sér að sumir hópar samfélagsins hafa einfaldlega ekki sömu tækifæri og aðrir til menntunar. Þess ber að geta að í þeim löndum sem við berum okkur saman við eru almennt ekki innheimt skrásetningargjöld né skólagjöld. Nám er ákveðið jafnréttistæki og er óhætt að segja að skrásetningargjöldin sem innheimt eru hérlendis, skerði rétt ákveðinna hópa til náms. Ef ákveðið verður að brúa bilið með fyrrnefndri hækkun á skrásetningargjöldum teljum við að aðgengi að námi skerðist enn frekar. Það kemur til með að hafa þær afleiðingar í för með sér að enn færri hafi tækifæri til að mennta sig, en teljum við að með því erum við sem samfélag komin á braut sem samræmist ekki þeim lagalegu stefnum sem við sem þjóðfélag höfum sett okkur – og hvað þá þeim óskrifuðu samfélagslegu reglum sem við höfum í sameiningu sett okkur.

Líkt og önnur hagsmunaöfl stúdenta telur SHA að með því að hækka skrásetningargjöld sé verið að skerða rétt fólks til náms með afgerandi hætti. Slík ákvörðun stjórnvalda myndi ekki samræmast þeirri lagalegu skyldu sem hinu opinbera ber skylt að sinna.