Saga félagsins

Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri, FSHA, var stofnað árið 1987 og hafa allir stúdentar við Háskólann á Akureyri orðið sjálfkrafa félagar frá upphafi. Tilgangur og markmið félagsins hefur þróast í takt við tímann frá því félagið var stofnað. Í upphafi var skilgreint hlutverk félagsins að efla félagslegan þroska og samvinnu stúdenta við skólann, auk þess að gæta hagsmuna þeirra gagnvart aðilum innan skólans og utan. Síðar bættust við hlutverk eins og að auðga félagslíf stúdenta en með fjölgun aðildarfélaga FSHA varð hlutverk þess einnig að styðja við bakið á þeim félögum. Hagsmunabarátta hefur sífellt færst í aukana og er það eitt meginmarkmiða félagsins. Það ver hagsmuni stúdenta, jafnt innan skólans sem utan hans, og er málsvari stúdenta í heild. Á aðalfundi félagsins árið 2018 var nafni félagsins breytt í Stúdentafélag Háskólans á Akureyri, SHA. 

Á 25 ára afmæli Háskólans á Akureyri var unnið að endurskipulagningu á félaginu og er skilgreint hlutverk þess eftirfarandi:

Félag stúdenta við Háskólann á Akureyri er félag allra innritaðra stúdenta við Háskólann á Akureyri. Félagið er fyrst og fremst hagsmunafélag stúdenta, bakland og sameiningartákn undirfélaga þess og þeirra aðila sem sinna trúnaðarstörfum á vegum félagsins. Það hefur yfirumsjón með atburðum á sviði skemmtana-, íþrótta- og fjölskyldumála og stendur á bakvið undirfélög sín til þess að sinna þessum málaflokkum innan sinna sviða og deilda. Félagið stendur vörð um hagsmuni heildarinnar, stuðlar að bættri heilsu og líðan stúdenta og vinnur náið með starfsfólki skólans að hagsmunamálum, kynningarmálum og öðru því sem snertir stúdenta, beint eða óbeint.